Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum í þessari umræðu. Ég mundi fyrst vilja segja að stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis felur í sér umhverfisstefnu sem er mjög athyglisvert og raunar langþráð markmið. Í næstum tvo áratugi hefur verið unnið að því að koma því til leiðar að hér verði tekið með festu á umhverfismálum í framtíðinni. Svo ég hlýt að fagna því, sem ég trúi að allir þingmenn í raun geri, að nú er farið að hilla undir lokaáfangann í þessu langa máli.
    Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir beindi til mín nokkrum spurningum sem ég skal reyna að svara eftir bestu getu. Hún spurði hvort ekki væri hætta á því að ég mundi lenda í árekstrum við atvinnulífið í landinu varðandi ákvarðanir í umhverfismálum, þar sem ég hef með höndum það verkefni að móta atvinnustefnu framtíðarinnar. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. að auðvitað eru þetta erfið og viðkvæm mál og það þarf að fara með ákaflega mikilli varúð fram í þessu sem öllum öðrum málum þar sem hagsmunaárekstrar geta orðið. Það verður auðvitað verkefni umhverfisráðherra í allri framtíð að reyna að fara fram með þeim hætti að hægt sé að laða fram samkomulag milli þeirra aðila sem eru með atvinnureksturinn í sínum höndum og svo þeirra aðila sem bera umhyggju fyrir umhverfinu. Í raun tel ég að það fari mjög vaxandi að atvinnurekendur beri umhyggju fyrir umhverfinu þannig að ég held að þar sé orðin það breið samstaða um að vernda umhverfið að auðveldara sé að ná þessu samkomulagi en áður var.
    Síðan kom spurning um það með hvaða hætti sú nefnd sem er ætlað að undirbúa lagasetningu um umhverfisvernd verði skipuð. Ég vil einungis segja að ég hef í huga að reyna að ná mjög breiðri samstöðu um það starf þannig að sem flestir aðilar sem láta umhverfismálin sig einhverju varða fái að koma þar að þannig að það verði leitað eftir samráði við hina fjölmörgu aðila og þær hreyfingar sem hafa borið umhverfismálin fyrir brjósti.
    Ég vil að lokum þakka fyrir þær málefnalegu umræður sem hafa farið fram hér í Ed. Hafi ég verið eitthvað óþolinmóður og fundist málin kannski ganga stundum of hægt, þá á það ekki við um þá umræðu sem hér hefur farið fram því að það er eins og oft vill verða að mér hefur stundum fundist að umræður í Ed. séu yfirleitt málefnalegri en í Nd. Það kann að vera að það stafi af því að ég á sjálfur sæti hér í Ed. og hér hef ég starfað mest þann tíma sem ég hef setið á Alþingi.
    Ég get svo að lokum fullvissað hv. þm. um það að ég er mikill gróðurverndarsinni og mun sinna þeim málum af eins miklum krafti og mér er unnt svo lengi sem ég kem til með að hafa afskipti af þessum málum í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Mér er sérstaklega umhugað um að laða fram samstarf allra þeirra aðila sem láta sig gróðurverndarmálin einhverju skipta. En sannleikurinn er sá að öll þjóðin í heild

sinni er mjög samstiga um gróðurverndarmál og ég held því í raun að mjög auðvelt eigi að vera að laða fram samstarf þeirra fjölmörgu aðila sem sinna gróðurvernd til að gera myndarlegt átak í þeim málum.
    Fjölmargir útlendir aðilar hafa rætt við mig um umhverfismál, því að ég hef haft afskipti af umhverfismálum frá því löngu áður en ég gerðist ráðherra í hæstv. ríkisstjórn og ég hef fjallað um umhverfismál vítt og breitt, bæði í gegnum starf mitt sem prófessor í Háskóla Íslands og reyndar áður, og á erlendum vettvangi höfum við oft rætt einmitt þann vanda sem Íslendingar eiga við að stríða sem er gróðureyðingin, náttúruöflin sem eru oft óblíð og hafa kannski hvað mest stuðlað að þeirri gróðureyðingu sem hér hefur orðið frá landnámsöld. Þetta hefur vakið mikinn áhuga þeirra erlendu fræðimanna sem mér hefur gefist tækifæri til að ræða þessi mál við. Þess vegna held ég að mjög æskilegt og gagnlegt væri að við gætum átt samstarf við erlenda fræðimenn og umhverfisverndarhópa sem hafa sérstakan áhuga á gróðurverndarmálum og reynt að ná samstarfi á erlendum vettvangi um að ná árangri í þeim efnum. Þess vegna get ég fullvissað hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur um að ég mun eftir fremsta megni leitast við að sinna þeim málaflokki eins vel og framast verður unnt.
    Að lokum vil ég svo þakka hv. þm. í Ed. enn frekar fyrir málefnalegar umræður og vona að þetta eigi allt eftir að verða okkur til góðs, landi og þjóð.