Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þegar þetta mál var til 2. umr. komst hæstv. forsrh. svo að orði að ómögulegt var að skilja hann öðruvísi en svo að við undirbúning þess frv. sem hér er til umræðu hafi hann mjög reynt að fara líkt að og forveri hans Bjarni Benediktsson hafði gert á sínum tíma. Og hæstv. forsrh. skírskotaði mjög til þess stjórnmálamanns í ræðu sinni hér til að reyna með þeim hætti að hafa áhrif á þá sem hlustuðu í þá veru að þeir hefðu meiri trú á málflutningi hans. Honum þótti með öðrum orðum gott að geta leitað skjóls hjá þessum fyrrverandi formanni og forsrh. Sjálfstfl.
    Af þessu tilefni hef ég flett upp í Alþingistíðindum á þskj. um frv. til laga um Stjórnarráð Íslands sem lagt var fyrir Alþingi í byrjun þings haustið 1968. Það frv. var til meðferðar allt það þinghald og var að lokum samþykkt hinn 28. maí 1969, þá um vorið. Það vekur athygli að auglýsing um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands er dagsett hinn 31. des. 1969, en hin nýju stjórnarskrárlög taka ekki gildi fyrr en 1. jan. 1970, eða daginn eftir. Auglýsingin um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands birtist með öðrum orðum áður en breytt lög um Stjórnarráð Íslands tóku gildi.
    17. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1970. Frá sama tíma eru eftirfarandi lagafyrirmæli úr gildi numin: Lög um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands nr. 17 3. okt. 1903, 1. gr. Lög nr. 1 2. jan. 1917, um breyting á lögum nr. 17 3. okt. 1903, um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands. Auglýsing um breyting á konungsúrskurði 12. febr. 1917, um skipting mála milli deilda Stjórnarráðs Íslands, nr. 1 5. jan. 1922. Lög nr. 58 11. jan. 1938, um breyting á lögum nr. 17 3. okt. 1903, um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands. Önnur lagaboð er
fara í bága við lög þessi.`` Í greinargerð við 17. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gildistaka laganna 1. jan. 1970 er við það miðuð að hæfilegur tími gefist til að undirbúa framkvæmd þeirra. Má í því sambandi m.a. og sérstaklega nefna setningu reglugerðar skv. 9. gr., um skiptingu starfa og málefna milli ráðuneyta. Meðal lagaboða sem fara í bága við hin fyrirhuguðu lög og eiga því að falla úr gildi eru sérákvæði í lögum er skipa stjórnarmálefnum til tilgreindra ráðuneyta.``
    Svo mörg voru þau orð. En þau staðfesta það sem við þingmenn Sjálfstfl. höfum sagt, að þegar stjórnskipunarlögin voru sett á sínum tíma var gildistaka laganna við það miðuð að hæfilegur tími gæfist til að undirbúa framkvæmd þeirra. Meðal annars og sérstaklega var talað um setningu reglugerða um skiptingu starfa og málefna milli ráðuneyta. Af þessu tilefni, herra forseti, er óhjákvæmilegt að ítreka þá spurningu sem ég bar fram á síðasta fundi til hæstv. forsrh.: Er hafinn undirbúningur að setningu reglugerða um breytta verkefnaskiptingu ráðuneyta?

Hvenær hugsar hæstv. forsrh. sér að lögin, fylgifrv. með þessu frv., taki gildi? Hvaða sérstöku rök liggja fyrir því að hæstv. forsrh. hyggst hafa annan hátt á hér en gert er með lögunum um Stjórnarráð Íslands frá 1969?
    Ég skal svo ekki lengja þessar umræður frekar. Það var einungis óhjákvæmilegt að leiðrétta þau ummæli hæstv. forsrh. að hann hefði svipuð vinnubrögð nú við undirbúning þessa frv. sem við tölum nú um og forveri hans, Bjarni Benediktsson, meðan hann gegndi sama embætti.