Friðrik Sophusson:
    Ég skal ekki, virðulegur forseti, tala lengi. Þetta er örstutt athugasemd. Nú hefur komið í ljós hvers vegna þetta frv. er flutt hér. Það er auðvitað forseti Norðurlandaráðs sem er að sýna hvað hann kann mikið í norrænum rétti og hann er að reyna að flytja okkur þann boðskap sem þaðan kemur. Nú vitum við jafnframt að hv. þm. og núverandi forseti Norðurlandaráðs er á förum til Sovétríkjanna og ætlar að innlima Rússland í Norðurlandasamstarfið samkvæmt hugmyndum sínum og hugsjónum. Ég vonast til þess að hann verði ekki fyrir þeim áhrifum þar að hann hafi meðferðis hingað þá löggjöf sem þeir hafa haft í refsirétti næst þegar hann kemur til þess að hafa stutta viðdvöl í landinu og heiðra okkur með nærveru sinni.