Launasjóður stórmeistara í skák
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið um málið og tel að þær ábendingar sem fram komu hér í máli hv. 2. þm. Reykv. séu allar með þeim hætti að þær beri að athuga í hv. menntmn.
    Varðandi fsp. hv. 11. þm. Reykn. er það að segja að auðvitað liggur ekkert fyrir um það að tekin verði ákvörðun hér og nú um að auka fjármuni til íþróttahreyfingarinnar sem heildar. Vandinn er sá að tekin hefur verið ákvörðun af þinginu, með atkvæðum trúi ég allra alþm., um að flytja íþróttastarfsemina í raun og veru alla yfir á sveitarfélögin. Það þótti skynsamlegt til að gera skýra verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þó það sé auðvitað álitamál hvort svo hefur verið, en það var sem sagt niðurstaðan. Þetta eru landslög í dag sem þýðir að hlutur ríkisins, eða mér liggur við að segja lagaskyldur ríkisins eru þeim mun minni en áður var í þessum efnum.
    Varðandi framtíðina í þessu sambandi er hins vegar það að segja að ég hef verið með nefnd að störfum nú um nokkurt skeið sem á að gera tillögur um mótun stefnu í íþróttamálum til aldamóta. Ég geri ráð fyrir að fá álit frá henni seinna í vetur og ég vænti þess að þar verði tekið á ýmsum málum, m.a. málum sem lúta að fjármögnun íþróttahreyfingarinnar.
    Í annan stað spurði hv. þm. um það hvort á döfinni væri að semja frv. um launasjóð fyrir aðra íþróttamenn, m.a. menn sem eru í afreksíþróttum. Svarið er að ekki hefur verið unnið neitt í því í minni tíð í menntmrn. og ég man ekki til þess að það hafi verið gert áður. Það kann að vera álitamál af hverju það stafar að það hefur ekki verið gert. Ég hygg þó að það stafi kannski fyrst og fremst af því að menn vilja gjarnan að þessi mál séu á ábyrgð íþróttahreyfingarinnar sem slíkrar sem allra mest frekar en það sé verið að
gera íþróttamenn í mjög verulegum mæli að opinberum starfsmönnum eins og við erum raunar að gera í sambandi við stórmeistarana og má segja að það orki tvímælis í sjálfu sér. En þetta frv. er fyrst og fremst viðurkenning á veruleika sem Alþingi hefur fyrir sitt leyti staðfest í fjárlögum aftur og aftur undanfarin 33 ár. Ég er þeirrar skoðunar persónulega að langeðlilegast sé að íþróttahreyfingin ákveði sjálf hvernig hún gerir við sína menn, bæði almenna félagsmenn og afreksmenn á hverjum tíma. Það hefur verið rætt um þann möguleika að stofnaður verði sérstakur afreksmannasjóður á vegum Íþróttasambands Íslands til að styðja við bakið á þeim mönnum sem þurfa að vera oft og tíðum langtímum saman launalausir til að stunda æfingar, íþróttamenn á heimsmælikvarða. Það er auðvitað ekki vansalaust að það er í raun og veru ekkert kerfi til hér á landi sem styður við bakið á þeim né heldur íþróttahreyfingunni sem slíkri í þessu efni. Íþróttahreyfingunni hefur verið vísað á óvissa liði eins og happdrætti af ýmsu tagi sem hafa nú gefist misjafnlega eins og kunnugt er. Stundum hafa þau ekki skilað neinum árangri heldur

jafnvel tapi eins og nýjustu dæmi sanna.
    Varðandi opinbera starfsmenn eða stöðu þessara manna sem hv. þm. spurði um, þá er gert ráð fyrir því í 5. gr. að þeir teljist opinberir starfsmenn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja, sbr. lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar er alveg tekið af skarið með það. Varðandi það hver verður hugsanlegur munur á launum þessara manna samkvæmt frv. annars vegar og hins vegar núgildandi kerfi er það að segja að í dag er miðað við menntaskólakennaralaun. Hér er gert ráð fyrir því að launin verði miðuð við háskólakennaralaun. Um hvaða háskólakennaralaun er verið að tala? Í starfi nefndarinnar var rætt um lektorslaun. Hvort það verður endanlega lendingin fer m.a. eftir því hvaða fjármunir verða veittir til þessa á fjárlögum en kostnaðaraukinn, jafnvel þó þetta fari úr menntaskólakennaralaunum upp í lektorslaun, er reyndar mjög óverulegur og telst í 200--400 þús. kr. eða eitthvað þvílíkt þannig að hér er ekki verið að leggja á ríkissjóð nein veruleg viðbótarútgjöld.
    En ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og sérstaklega til hv. 2. þm. Reykv. fyrir þær ábendingar sem hann kom með og eru gildar og ég vænti þess að nefndin sjái sér fært að skoða.