Leigubifreiðar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Í upphafi vek ég athygli á því að í þeim lögum sem Alþingi setti árið 1988 um virðisaukaskatt, og Alþingi sá ekki ástæðu til þess að breyta þessum ákvæðum þegar lögin um virðisaukaskatt voru aftur til meðferðar nú á þessu þingi, er skýrt kveðið á um það að fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti en virðisaukaskatt ber að greiða af vöruflutningum. Fjmrn. hefur þess vegna enga möguleika í dag til þess að breyta í þessu efni. Til þess verður að koma lagabreyting á hv. Alþingi. Ég tel hins vegar ekki rétt, og hef sagt það af öðrum tilefnum, að fara aftur inn á þetta þing með breytingar á lögunum um virðisaukaskatt heldur sé rétt að safna reynslu á fyrri hluta þessa árs og skoða síðan málið í haust og meta það hvaða breytingar menn vilja þá gera.
    Ég hef hins vegar orðið var við það að sendibílstjórar hafa nokkuð misskilið eða ekki gert sér nægilega vel grein fyrir því hvaða hagræði getur falist í því fyrir sendibifreiðastjóra að virðisaukaskattur sé lagður á vöruflutninga. Ástæðan er nefnilega sú, eins og hv. alþm. er kunnugt, að virðisaukaskatturinn skiptist annars vegar í innskatt, sem menn fá endurgreiddan, og hins vegar útskatt. Leigubílstjórarnir sem ekki þurfa að greiða virðisaukaskatt sem útskatt fá hins vegar ekki virðisaukaskattinn sem þeir greiða öðrum af aðföngum til síns rekstrar endurgreiddan. Það fá aftur á móti sendibifreiðastjórarnir sem geta gert skil með þeim hætti að reikna innskattinn á móti útskattinum og fá innskattinn frádreginn.
    Þetta ber sérstaklega að hafa í huga þegar viðskipti sendibifreiðastjórans eru sérstaklega við fyrirtæki eða aðila sem eru skattskyldir í virðisaukaskatti vegna þess að þá fá fyrirtækin eða aðrir rekstraraðilar þann virðisaukaskatt sem sendibifreiðastjórarnir leggja á sína þjónustu endurgreiddan frá ríkinu sem innskatt hjá fyrirtækjunum. Í reynd kemur því
þessi virðisaukaskattur á þjónustu sendibifreiðastjóranna ekki til greiðslu hjá fyrirtækjunum af því að þau fá hann frádreginn hjá sér sem innskatt. Það er þess vegna alveg ljóst rekstrarlega og efnahagslega að fyrir sendibifreiðastjóra sem fyrst og fremst starfar á þann veg eða hefur meginhlutann af sínum viðskiptum við fyrirtæki eða aðra rekstraraðila sem greiða virðisaukaskatt er tvímælalaust mun meira hagræði, efnahagslegt og tekjulegt hagræði fyrir sendibifreiðastjórana að hafa núverandi skipan sem gildir en ekki þá skipan sem gildir um leigubifreiðastjórana. Þetta vildi ég nefna hér vegna þess að ég hef orðið var við það að það gera ekki allir sér grein fyrir því enn sem komið er að þetta eðliseinkenni virðisaukaskattsins að skiptast í innskatt og útskatt hefur í för með sér veigamikið hagræði fyrir marga rekstraraðila, m.a. stóran hluta sendibifreiðastjóra. Hins vegar er það alveg ljóst að fjmrn. getur ekki breytt núverandi skipan nema lögum sé breytt hér á Alþingi.