Sjónvarpssendingar á fiskimiðin
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. 5. þm. Vesturl.: Þetta mál er þannig vaxið að í desember 1988 var gerð áætlun og samkvæmt henni vantaði um 40 millj. kr. á verðlagi þess tíma upp á það að sjónvarpið næði til allra byggðra staða á landinu. Sveitabæir sem ekki náðu sjónvarpi þá eða bjuggu við léleg móttökuskilyrði voru 80 talsins þannig að kostnaður á hvern bæ var um 1 / 2 millj. kr. Í öðru lagi taldi Ríkisútvarpið á þeim tíma að kostnaðurinn við að dreifa sjónvarpsefni til sjómanna á hafi úti þannig að skaplegt væri væri 490 millj. kr. Í þriðja lagi var gerð sérstök athugun á kostnaði við að bæta FM-dreifikerfi Rásar 1 og Rásar 2. Áætlaður stofnkostnaður við endurbætur á því var um 34 millj. kr., en þá var talið að um 2000 manns næðu ekki útsendingum Rásar 2 og að um 25 senda þyrfti til þess að ná til þessara 2000 Íslendinga. Auk þess var fjallað um það í þessari áætlun að endurbyggja og endurnýja þyrfti lang- og miðbylgjustöðvarnar vegna útvarps til sjómanna. Langdýrasti þátturinn þar er endurbætur og í raun og veru algjör endurnýjun á langbylgjusendinum á Vatnsenda. Kostnaður við það og langbylgjustöðvar í framhaldi af breytingum á stöðinni er talinn vera 420 millj. kr. Þegar allt þetta var lagt saman var talið, á verðlagi í desember 1988, að heildarkostnaður við að ná öllu landinu, byggðu bóli hvarvetna og landhelginni allri og reyndar rúmlega það, væri 1100 millj. kr. Þegar ég sá þessa áætlun fannst mér það liggja nokkuð í augum uppi að vafasamt væri að menn réðu við þessar endurbætur á mjög stuttum tíma, þ.e. fyrir árslok 1991 eins og Alþingi tók ákvörðun um með þál. 1989. Þess vegna bað ég um það að þessar framkvæmdaáætlanir yrðu allar endurskoðaðar með hliðsjón af m.a. þeirri fjárhagsgetu sem ætla má að Ríkisútvarpið hafi í þessu sambandi.