Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Sú skýrsla sem hér er á dagskrá hefur verið til umræðu um alllanga hríð. Þetta er skýrsla sem til er komin vegna beiðni nokkurra þingmanna sem óskuðu eftir skýrslu hæstv. viðskrh. hinn 21. des. sl. Frá þeim tíma hefur auðvitað margt gerst í þessu máli sem óþarfi er að rekja. Þó vil ég segja frá því að nú þegar hefur verið gengið endanlega frá kaupum á hlutabréfum SÍS í Samvinnubankanum, Landsbankinn keypti hlut Sambandsins á 665 millj. kr. miðað við sl. áramót. Þetta þýðir að heildarverðið er u.þ.b. 400 millj. kr. hærra en Ríkisendurskoðun metur að sé eðlilegt verð fyrir Samvinnubankann enda geri ég ráð fyrir því að aðrir eigendur njóti sömu kjara og Sambandið. Ég vek athygli á að verð á hlutabréfum SÍS varð að lokum 60 millj. kr. hærra en bankaráðið hafði samþykkt hinn 29. des. sl. Þannig hafa afskipti hæstv. viðskrh. og formanns bankaráðs orðið til þess að kaupverð á Samvinnubankanum öllum verður u.þ.b. 115 millj. kr. hærra en samþykkt bankaráðs þann 29. des. 1989 gerði ráð fyrir.
    Talsvert hefur verið rætt og ritað um þessi mál að undanförnu, einkum hefur Alþýðublaðið reynt að bera í bætifláka fyrir hæstv. viðskrh. Í leiðara Alþýðublaðsins er því haldið fram að hæstv. viðskrh. hafi látið meta verðgildi hlutabréfa Sambandsins í Samvinnubankanum og þar er gefið í skyn að hann hafi með þeim hætti lækkað verðið. Þetta er auðvitað alrangt vegna þess að hæstv. ráðherra fór fram á það við Ríkisendurskoðun að hún legði mat á verð bankans. Öllum er ljóst hver niðurstaða þess mats varð.
    Alþýðublaðið segir orðrétt í leiðara sínum fyrir skömmu, með leyfi forseta:
    ,,Viðskiptaráðherra og formaður bankaráðs Landsbankans hafa sýnt mikla ábyrgð og látið viðskiptaleg sjónarmið ráða í þessu máli öllu. Þeir hafa, ásamt bankaráðsmanni Alþýðubandalagsins, staðið vörð um hagsmuni Landsbankans.`` Hér lýkur tilvitnun í leiðara Alþýðublaðsins sem er málgagn hæstv. viðskrh.
    Maður hlýtur að spyrja þegar maður les þetta: Er það að standa vörð um hagsmuni Landsbankans að greiða yfirverð fyrir þessi hlutabréf og beita sér fyrir því að greiddar séu 60 millj. umfram það sem bankaráðið hafði samþykkt?
    Án þess að ég hafi upplýsingar á reiðum höndum um afkomu Landsbankans á síðasta ári þá er ljóst að megnið af rekstrarágóða bankans mun fara til þess að greiða þetta yfirverð sem menn hafa kallað vaxtaleiðréttingu. Alþýðublaðið óskapast yfir því að ég skuli hafa leyft mér að kalla afskipti hæstv. ráðherra og formanns bankaráðs ,,skólabókardæmi um undirmál, yfirklór og klúður`` og Alþýðublaðið tekur undir með hæstv. ráðherra að ég geri frekari grein fyrir þessum ummælum. Það skal ég gera með mikilli ánægju.
    Ég kalla þetta undirmál vegna þess að hæstv. viðskrh. og formaður bankaráðs lofuðu að beita sér

fyrir umframgreiðslu án þess að hafa samband við bankaráðið sem samkvæmt lögum á að fjalla um málið. Þetta var gert til þess að fá meiri hluta stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga til að samþykkja tilboð Landsbankans.
    Ég kalla það yfirklór þegar reynt er að fela greiðsluna með því að kalla hana vaxtaleiðréttingu vegna lánsviðskipta þegar ljóst er að um er að ræða vaxtaleiðréttingu vegna kaupanna. Það liggur fyrir núna að Landsbankinn greiddi Sambandinu tæplega 60 millj. kr. og sú upphæð var fundin út með því að taka vexti af kaupverðinu og reikna þá frá 1. sept. 1989 til 1. jan. 1990.
    Og ég kalla það klúður þegar meiri hluti bankaráðsins skilur sína eigin niðurstöðu með mismunandi hætti og í raun veit enginn í dag hvernig semja á við aðra eigendur.
    Virðulegur forseti. Ræða hæstv. viðskrh. sem hann flutti okkur fyrr í þessari umræðu gefur tilefni til frekari umræðna um bankamálefni. Það er þess vegna m.a. að þess hefur verið beiðst að aðrir viðkomandi hæstv. ráðherrar verði viðstaddir umræðuna.
    Hæstv. ráðherra segist hafa lagt fram í hæstv. ríkisstjórn tímaáætlun sem nái m.a. til starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi. Þetta er gert til að undirbúa okkur undir þær breytingar á viðskiptaháttum sem verða vegna sameiginlega markaðarins í Evrópu. Hæstv. ráðherra telur, og segir frá því í ræðu hér á hinu háa Alþingi, að ákvörðun um þetta verði að taka á þessu ári. Hæstv. viðskrh. segir réttilega að það sé forsenda þess að starfsemi erlendra lánastofnana verði leyfð hér á landi að styrkja íslenska banka, m.a. með því að efla eiginfjárstöðu þeirra. Og hann hefur sjálfur bent á þá aðferð að breyta ríkisviðskiptabönkum í hlutafélög, m.a. til að hægt sé að auka hlutaféð.
    Í ræðu hæstv. forsrh. fyrr í þessari umræðu kom hins vegar fram að hann telur ekki að um slíkar breytingar verði að ræða í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessar misvísandi skoðanir hæstv. ráðherra í hæstv. ríkisstjórn hljóta að vekja ýmsar spurningar. Hvað ætlar hæstv. viðskrh. að gera nú þegar sjálfstæðismenn hafa lagt fram frv. um þetta mál hér á hinu háa Alþingi? Ætlar hann að stjórnast af fyrirvörum Alþb., yfirlýsingum hæstv. forsrh. eða vill hann eiga samstarf við Sjálfstfl. og Frjálslynda hægriflokkinn sem eru tilbúnir að fylgja eftir þeirri stefnu sem ráðherrann hefur lýst yfir að hann
styðji?
    Á þskj. 688 flytja nokkrir þingmenn Sjálfstfl. og Frjálslynda hægriflokksins frv. til laga um breytingu á Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands í hlutafélög. Þetta frv., sem ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni, er sniðið m.a. eftir frv. um Útvegsbankann hf. og að nokkru leyti eftir frv. um Gutenberg sem hæstv. ráðherra flutti inn á Alþingi á sínum tíma. Í grg. er m.a. bent á að þetta sé nauðsynlegur undirbúningur undir meira frjálsræði í viðskiptaháttum í álfunni og þar er upplýst að hæstv. viðskrh. hafi sett þessa tímasettu áætlun um heimildir fyrir erlendar lánastofnanir til að starfa hér á landi inn á borð

hæstv. ríkisstjórnar.
    Að auki hafa fulltrúar úr þingliði sjálfstæðismanna og Frjálslynda hægriflokksins flutt till. til þál. þar sem gert er ráð fyrir að hæstv. ríkisstjórn sé falið að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls og í tillgr. er jafnframt lagt til að hæstv. ríkisstjórn verði falið að falla frá sérstökum fyrirvara sem gerður var af Íslands hálfu við efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.
    Það er eðlilegt á grundvelli framlagningar þessara tveggja þingmála, sem ég sé ekki betur en hæstv. viðskrh. hafi lýst yfir stuðningi við í ræðum sínum hér á hinu háa Alþingi, að spyrja hann um það hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir stuðningi Alþfl. við þessi fram komnu mál. Jafnframt er full ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann sé tilbúinn til að falla frá þeim fyrirvara sem ég hef þegar nefnt í minni ræðu. Og enn fremur er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann geti hugsað sér, þrátt fyrir orðalag stefnuyfirlýsingar þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr að völdum um sinn, að beita sér fyrir breytingu á stefnu ríkisstjórnarinnar í átt til þeirra hugmynda sem fram hafa komið í orðum hæstv. viðskrh.
    Hæstv. viðskrh. sagði frá því í ræðu sinni þegar hann fylgdi úr hlaði skýrslunni um kaup Landsbankans á hlut SÍS í Samvinnubankanum að hann hefði tilbúið á skrifborði sínu frv. til breytinga á lögum um samvinnufélög þar sem m.a. væri gert ráð fyrir því að samvinnufélög gætu aukið eigið fé sitt með stofnfjársjóðsframlögum. Undir þessi viðhorf hefur m.a. Erlendur Einarsson, fyrrum forstjóri SÍS, tekið í stórri grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Hæstv. viðskrh. hefur upplýst að andstaða sé í samvinnuhreyfingunni við það frv. sem liggur tilbúið á borði hæstv. ráðherra. Það er full ástæða til þess að spyrja hvað hæstv. ríkisstjórn ætli að gera í þessum efnum því auðvitað er jafnnauðsynlegt fyrir samvinnufélög eins og hlutafélög í breyttu þjóðfélagi að geta styrkt eiginfjárstöðu sína, m.a. með því að gefa út ný skírteini, hvort sem það eru hlutabréf eða stofnfjársjóðsbréf í einhverju formi.
    Ég vil rifja það upp, virðulegur forseti, að fyrir u.þ.b. 16 mánuðum lét hæstv. fjmrh. þau orð falla að ef fram héldi sem horfði mundi Samband ísl. samvinnufélaga verða gjaldþrota á næstu 12--16 mánuðum. Nýlega spurði blaðamaður DV hæstv. ráðherra að því hvort hann hefði skipt um skoðun en hann taldi viðhorf sín óbreytt í þessum efnum. Hér er auðvitað um mjög alvarlega yfirlýsingu að ræða af hálfu þess manns sem fer með æðstu völd íslenska ríkisins í fjármálum. Því er full ástæða til þess að þeir sem eiga viðskipti við Samband ísl. samvinnufélaga og þeir sem eru félagar í þessari stóru hreyfingu fari fram á að hæstv. ráðherra lýsi því yfir hér við þessa umræðu hvort hann sé enn sömu skoðunar og hann var fyrir 16 mánuðum síðan. Og ef hann lætur svo lítið að taka til máls í þessari umræðu, eins og hann hefur verið beðinn um, óska ég eftir því að hann ræði þetta örstutt og lítillega út frá þeirri yfirlýsingu sem hann sjálfur hefur gefið um þetta mál.

    Loks, virðulegur forseti, vil ég beina fsp. til hæstv. viðskrh. sem varðar nefndarstarf á vegum ráðuneytisins. Ég vil rifja upp að í tengslum við kjarasamninga var það lykilatriði að viðskiptabankarnir lækkuðu vexti í takt við lækkun verðbólgunnar. Viðskiptabankarnir áttu viðtöl við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og lýstu því yfir að þeir væru tilbúnir til að lækka nafnvexti í takt við lækkun verðbólgunnar. Hins vegar var það bundið því skilyrði að hæstv. ríkisstjórn kæmi til móts við þarfir viðskiptabankanna á ýmsum sviðum. Af því tilefni höfðu viðskiptabankarnir, samtök þeirra, samband við hæstv. ráðherra sem léði máls á því að sett yrði á laggirnar nefnd til þess að vinna að ýmsum hugðarefnum bankanna. Þar á meðal var hagræðing í bankakerfinu sem bankarnir hljóta auðvitað að vinna að sjálfir, en það sem snýr að ríkisstjórninni voru einkum tvö atriði. Annars vegar skattar á gjaldeyrisviðskipti og hins vegar þjónustugjöld bankanna. Það er alveg ljóst að ef draga á úr þeim vaxtamun sem ríkir hér á landi, vaxtamun milli innláns- og útlánsvaxta verður bankakerfið að geta, eins og gert er víðast annars staðar, skapað sér tekjur með hærri þjónustugjöldum. En nú er svo í íslenska bankakerfinu að tekin eru þjónustugjöld sem ekki svara til kostnaðar eða jafnvel engin gjöld tekin fyrir veitta þjónustu. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta, undir það hefur hæstv. viðskrh. tekið, með því að setja á stofn þessa nefnd sem ég hef minnst á og starfar undir forustu Björns Friðfinnssonar ráðuneytisstjóra. Sagt var frá því þegar nefndin hóf störf um mánaðamótin
janúar/febrúar að hún mundi ljúka störfum í febrúar, fyrir febrúarlok. Það var skilyrði af hálfu bankanna, forsenda af þeirra hálfu að semja við aðila vinnumarkaðarins að komið væri til móts við þeirra sjónarmið á því sviði sem ég hef hér rætt. Það er alveg ljóst að ef ríkisstjórnin stendur ekki við sitt þá verður erfitt fyrir bankakerfið að lækka vexti í takt við lækkandi verðbólgu án þess að það bitni á þeim sem leggja fjármuni til hliðar. En það er opinbert mál að innlánsvextir voru það lágir að raunvextir voru neikvæðir á síðasta ári. Allir vita að slíkt kann ekki góðri lukku að stýra til frambúðar. Ég vil þess vegna biðja hæstv. ráðherra, þegar hann tekur til máls á eftir, að svara þeirri fsp. hvort búast megi við að á allra næstu dögum liggi fyrir álit þeirrar nefndar sem Björn Friðfinnsson er formaður fyrir og starfar með þátttöku viðskiptabankanna og sparisjóðanna í landinu. En það var sagt frá því við upphaf þess starfs að starfinu mundi verða lokið í síðasta mánuði.
    Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til að fjalla miklu meira um þetta mál sjálft. Aðalmálið, kaup Landsbankans á hlut SÍS í Samvinnubankanum, er orðinn hlutur. Það er orðin saga, saga sem skráð er í sögu bankamála á Íslandi, en um leið saga sem er skráð í afskiptasögu núv. hæstv. ríkisstjórnar af bankamálefnum. Satt að segja er það ekki kafli sem ég hélt að hæstv. ríkisstjórn mundi vilja láta skrá um sig. En það hefur hæstv. viðskrh. samt sem áður gert

og reyndar hæstv. fjmrh., en báðir þessir menn höfðu, ásamt reyndar fleiri hæstv. ráðherrum, afskipti af máli sem í raun og veru var í valdi bankaráðs Landsbankans annars vegar og forráðamanna Sambands ísl. samvinnufélaga hins vegar. Það er orðinn hlutur.
    Að sjálfsögðu er það forsenda þess að eitthvert vit sé í þessum kaupum að Landsbankinn kaupi fleiri hlutabréf í fyrirtækinu þannig að hægt verði að taka bankann yfir og að um samruna verði að ræða. Það kemur glöggt fram í skýrslu hæstv. ráðherra. Þess vegna skiptir miklu máli að Landsbankinn fái nú frið til að vinna að þessum málum en þurfi ekki að búa við það að yfirlýsingar komi frá æðstu mönnum þjóðarinnar um að eitthvað eigi að gerast öðruvísi en ráð var fyrir gert. Með þessu móti, ef ég tala ekki nægilega skýrt, á ég við að það kann að vera óheppilegt að hæstv. ráðherra sé með yfirlýsingar í þá átt að aðrar bankastofnanir eigi að koma til liðs við Landsbankann um kaup á hlut í Samvinnubankanum á þessu stigi málsins. Það er augljóst að í framtíðinni þegar búið verður að ganga frá þessum kaupum og hægt að leggja Samvinnubankann niður þá kann að fara svo að Landsbankinn og Búnaðarbankinn til að mynda komi sér saman um að skipta útibúum með nýjum hætti. Það kann að verða rétt á þeim tíma að Búnaðarbankinn kaupi einhver útibú og viðskipti af Landsbankanum. Það kann að vera mjög eðlilegt. Bankaráðið ræðir það við bankaráð Búnaðarbankans þegar þar að kemur. En ég tel óhyggilegt á þessu stigi að tala í þá veru að Búnaðarbankinn komi nú til skjalanna og kaupi hlut annarra eigenda en Sambandsins í Samvinnubankanum sem ég tel að Landsbankinn eigi fyrst og fremst að kaupa til að byrja með, enda er gert ráð fyrir því og það er í raun og veru eina réttlætanlega forsendan fyrir þessum kaupum, að hægt verði að reka einn banka úr þessum tveimur, enda miðast allir útreikningar við það, hvort sem það er endurskoðun til bankans eða hverjir aðrir þeir sem um þetta mál hafa fjallað að um þennan samruna verði að ræða. Ella er ekki hægt að réttlæta það yfirverð sem bankinn er keyptur á. En það er ljóst og það er viðurkennt af öllum að Samvinnubankinn er keyptur á yfirverði og það verð hækkaði vegna afskipta hæstv. ríkisstjórnar.