Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef sagt það áður um hæstv. fjmrh. og segi það enn að ég lít svo á að hann sé viss siðbótamaður í vinnubrögðum varðandi það að koma upplýsingum til þingsins og vinna að því að breyta framkvæmd í samskiptum framkvæmdarvalds og þingsins á þann hátt að vænta megi að stjórnarskráin verði virt í framtíðinni. Á því sviði að ekki verði greitt úr ríkissjóði annað en það sem heimilað hefur verið í fjárlögum og fjáraukalögum.
    En ég ætla að nefna hér örfá dæmi um það sem vissulega hefur komið við skap manna sem hafa þurft að vinna í fjvn. Ég minnist þess að 1987 var verið að vinna að fjárlagagerð og þá var verið að skipta fjármunum til framhaldsskóla. Ég verð að segja eins og er að mér fannst það vera lítið fjármagn sem við höfðum til skiptanna. Búið var að merkja þetta fjármagn af ráðuneytinu, stefnumótandi mjög, hvert það ætti að fara, og satt best að segja sýndist okkur ekki auðvelt að breyta þar miklu um. Það eru ýmsir góðir skólar sem hafa verið í uppbyggingu. Norður á Akureyri er einn mjög merkur skóli tekinn til starfa, Verkmenntaskóli Akureyrar. Og það verður um þá norðanmenn að segja að þeir eru miklir skólamenn. Enda sóttu þeir mjög fast að fá meira fjármagn til þessa skóla. Þeir leituðu til sinna þingmanna um meira fé. Í Degi birtist viðtal við hv. 3. þm. Norðurl. e. þar sem hann gerði grein fyrir því að velviljaður fjmrh. hefði lofað honum aukafjárveitingu á næsta ári í þennan skóla. Þetta var gert á sama tíma og menn sátu með sveittan skallann úti í fjvn. að reyna að skipta því sem ráðherrar töldu að væri til skiptanna. Ég óskaði eftir að fá þetta blað í hendur, og fæ það nú kannski, en mig minnir að sú upphæð sem þarna hafi komið fram hafi verið einnar tölu upphæð, sem sagt ekki tugur milljóna, heldur eftir því sem ég best man, nálægt 6 millj. kr. Skal þó ekki segja nákvæmlega hvað þetta var há upphæð. ( Gripið fram í: Var þetta fyrir tveimur árum?) Þetta var 1987. Við sem sátum í fjvn. lögðum frá okkur vinnugögnin og spurðum: Til hvers er verið að sitja hér og vinna að svona málum? Af hverju styttum við ekki frv. og setjum þar aðeins eina grein sem snýr að útgjöldum er hljóðar svo: ,,Fjármálaráðherra er heimilt að greiða út eftir þörfum``? Hann yrði svo að meta það eftir vinnulagi hvort hann teldi rétt að dreifa tékkheftum til ráðherranna eða að sitja einn að undirskriftum.
    Þegar við fórum yfir frv. sem hér liggur fyrir til fjáraukalaga, við fórum yfir það í fjvn., höfum verið að vinna við að skoða það undanfarið, kom í ljós að til Verkmenntaskólans hafði verið veitt sem aukafjárveiting í uppbyggingu 16 millj. kr. En þegar umræðan átti sér stað í fjvn. þótti formanni, hv. 5. þm. Vestf. Sighvati Björgvinssyni, ekki gæfulegt að við færum að stytta frv. svona mikið og breyta textanum heldur vildi hann halda á fund fjmrh. og fá úr því skorið hvort þetta væri satt, að hann væri að veita og semja um aukafjárveitingar á sama tíma og fjvn. sæti að störfum. Svarið var að það væri alrangt,

ekkert slíkt hefði verið gert, engu lofað. Nú hefur það aftur á móti komið í ljós svo ekki fer á milli mála að hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur sagt satt í viðtalinu við Dag. Og satt best að segja vil ég að það komi hér fram, ég átti aldrei von á öðru en að hann hefði sagt satt.
    Ég tel þess vegna að menn hljóti að hugleiða það í fúlustu alvöru hvaða tegund af mönnum lætur bjóða sér það að sitja fund eftir fund í mikilli vinnu í svona nefnd ef það er vitað fyrir fram að það eigi ekkert með það að gera. Það held ég að séu þrautþjálfaðir drullusokkar. Annað orð held ég að sé ekki til yfir þá sem hafa geð til slíkra hluta.
    En ég spyr líka sjálfan mig þegar ég horfi á tölur eins og eru hér á bls. 5, er hugsanlegt að þetta eina dæmi sem kom í blöðunum og varð þess vegna opinbert, vegna þess að ágætur þingmaður vildi létta af sér þeirri pressu sem hann hafði á sér af heimamönnum og gera þeim strax grein fyrir árangri í stað þess að vera að þegja yfir því í marga mánuði, sem hefði nú kannski verið öllu meira klækjavit að gera. Er hugsanlegt að samið hafi verið um stóra pósta, mjög stóra pósta, alveg kalt og forstöðumönnum stofnana gerð grein fyrir því að málin yrðu leyst með þessum hætti? Hvernig stendur á því að Þjóðleikhúsið hefur fengið 242 millj. kr. sem aukafjárveitingu á þessu ári? Halda menn virkilega að það geti átt sér stað að slík vinna hafi verið framkvæmd í Fjárlaga- og hagsýslustofnun, að þeir hafi ekki vitað að þessi fjárvöntun sem hér hefur verið sett fram mundi leiða til stöðvunar á húsinu? Ég tel að það fari ekkert á milli mála. Við getum ekki, við getum hreinlega ekki tekið því sem trúverðugum hlut að þeir hafi ekki vitað þetta. Og þess vegna sækir að mér sú hugsun: Var ekki samið um það fyrir fram að blekkja þingið, gefa því alrangar upplýsingar um þau umsvif sem ætlunin væri að hafa hjá þessari stofnun og þau útgjöld sem menn mættu búast við? Mér sýnist allt benda til þess.
    Þegar maður fer yfir ýmsa liði hér kemur í ljós að það er víða sem maður trúir ekki öðru en að upplýsingarnar hafi legið fyrir. Við skulum færa okkur örlítið yfir í sjúkrahúsakaflann. Ríkisspítalarnir hafa fengið hækkun upp á 292 millj. kr. en St. Jósefsspítali hefur fengið hækkun upp á 218 millj. kr.
Það þarf náttúrlega ekki mikla leikni í hlutfallareikningi til að átta sig á því að það er ekkert samræmi í þessum hækkunum. Það þarf ekki annað en skoða fjárlögin til að átta sig á því að umsvif ríkisspítalanna, fjölmennasta vinnustaðar Íslands, eru náttúrlega margföld á við hina. Þarna er kippt inn stórum pakka, enda flestir þekktustu fjármálamenn þjóðarinnar hafðir innan borðs í þeirri miklu fylkingu sem að nafninu til á að stjórna þeim spítala fjárhagslega.
    Ég verð að segja eins og er að með því að lesa þetta yfir þá stendur maður frammi fyrir því að það var raunverulega ekki nema um tvennt að ræða. Ef maður ætlaði að una þessum vinnubrögðum þá var að leggja niður störf í fjvn., segja bara eins og er að þau

væru óþörf. Þingið íslenska hefði alls ekki fjárveitingavaldið, það þyrfti bara e.t.v. að samþykkja greiðsluheimild um áramót og svo sæi framkvæmdarvaldið um þetta. Það er nefnilega ákaflega forvitnilegt hvað mundi gerast ef þingið tæki sig til og felldi svona frv. Hvað haldið þið að mundi gerast? Ég ætla örlítið að fara yfir það sem mér sýnist að mundi gerast.
    Það væri hugsanlegt að það yrði lagður fram ríkisreikningur og látið á það reyna hvort þingið samþykkti ríkisreikninginn. Og þá yrði sagt: Fyrst þingið samþykkti ríkisreikninginn þá er það eiginlega búið að samþykkja þetta gums og það þýðir ekkert að vera að þrasa um það meir. Segjum nú að þingið felldi ríkisreikninginn. Vafalaust yrði þá komin ansi mikil ókyrrð þó að ríkisreikningar hafi náð um það bil 10 ára aldri án þess að vera sendir eins og sá sem kom nú til þingsins frá árinu 1979. En það er ekki þar með sagt að neitt yrði gert við þá ráðherra sem hefðu hegðað sér á þennan hátt vegna þess að til þess að hægt væri að veita þeim aðför yrði Alþingi Íslendinga að samþykkja að þeir færu fyrir landsdóm. Það er ekkert víst að Alþingi mundi samþykkja það þó að það felldi bæði fjáraukalög og ríkisreikning. Þetta kerfi er þess vegna að því leyti flókið að í staðinn fyrir að hver þingmaður hafi rétt til þess að stefna viðkomandi ráðherra fyrir Hæstarétt ef hann telur að hann hafi brotið af sér í störfum og tekið fjármuni út úr ríkissjóði ófrjálsri hendi svo að hundruðum milljóna skiptir, þá á hann það algerlega undir meiri hlutanum hér á hverjum tíma hvort þetta er gert.
    Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég ætla ekki að leggjast gegn samþykkt þessa frv. Ég ætla að taka því sem búið er að gera. En mér finnst það hreint skop ef menn telja að Sturlumálið sé orðið eitthvert stórmál í þeirri súpu sem hér er á dagskrá. Kannski var það hans einkenni og mistök að hann sagði það upphátt sem hinir hugsuðu og framkvæmdu. Hann sagði það að fjárlögin væru vitleysa, þau væru röng, þau pössuðu ekki við önnur lög sem þau ættu að gera. Þess vegna ætti ekkert að fara eftir þeim. Þetta þoldu menn ekki. En hvað gerðu hinir í framkvæmdinni? Þeir hugsuðu og framkvæmdu það sem þar var sagt.
    Ég verð að segja það eins og er og bæta því við, svo að enginn misskilji mín orð, að ég tel að skóli eins og Verkmenntaskólinn á Akureyri eigi fullan rétt á sér og ég tel vel varið því fjármagni sem þar er varið til uppbyggingar. Spurningin er aðeins þessi: Erum við að reyna að hafa fjárlögin sem stjórntæki eða eru þau skrípaleikur? Það er nefnilega glettilega þægilegt að segja um mitt sumar: Fjárlögin standast. Þau eru rétt. Hallinn er bara 700 þúsund. Og þurfa svo að gera grein fyrir því mörgum, mörgum árum seinna þegar menn eru hættir í pólitík kannski að þetta hafi náttúrlega verið bara lygi og þeir hafi vitað það allan tímann að þeir voru að ljúga. En þá er líka spurning hvort það gengur upp að hafa menn á launum í fjmrn. til þess að ljúga að þinginu. Gengur

það upp? ( Gripið fram í: Hefurðu landsýn?) Hv. 2. þm. Norðurl. e. gengur í salinn og heiðrar hann með nærveru sinni og rétt er að hann sé upplýstur um það að hér er verið að ræða um fjáraukalög fyrir árið 1988.
    Ég hygg að það sé þó nokkur nauðsyn á því að hæstv. utanrrh. sé við þessa umræðu áður en henni lýkur og geri grein fyrir því hvernig hann telur að kökunni hafi verið skipt á milli sín og núv. fjmrh. Því það er nefnilega rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að ef skiptin eru á þann veg að hæstv. utanrrh. á ekki nema 700 millj., svo að við rúnnum þetta af, af pakkanum og sá sem nú situr í sæti fjmrh. á afganginn, þá hefur nefnilega ástandið ekki batnað. Það er alveg voðalegt að hugsa til þess nema hæstv. utanrrh. hafi hreinlega litið svo á að honum bæri að eyða þeim fjármunum sem fjárlög gerðu ráð fyrir að dygðu út árið þann tíma sem hann ætlaði sér að sitja í stólnum. Þá er nefnilega hugsanlegt að það hafi kannski ekki verið margra kosta völ hjá núv. fjmrh.
    Mönnum finnst það vafalaust stór orð þegar ég spyr hvort það sé hægt að hafa menn að störfum í fjmrn. til þess að ljúga að þjóðinni. En hafi þeir ekki logið þegar þeir töluðu um þennan halla á sínum tíma þá spyr ég: Er hugsanlegt að vanþekking fjmrn. á því hvað verið er að greiða út sé slík að þar fari út fleiri, fleiri milljarðar án þess að þeir hafi hugmynd um það? Er það hugsanlegt? ( HBl: Það eru margar hliðar á sannleikanum.) Það eru margar hliðar
á sannleikanum, segir nú sá sem hér hefur mjög oft glímt við að verja hinar ólíklegustu hliðar á sannleikanum.
    Ég ætla ekki að tala hér langt mál. Ég trúi því samt ekki að starfsmenn fjmrn. séu svo illa að sér um fjármagnsstreymið út úr ríkissjóði að þeir hafi ekki vitað betur þegar þeir gáfu út sína yfirlýsingu. Það er erfitt að þurfa að segja þetta, en ég trúi því ekki. Og ég verð að segja að ég tel að það hafi gerst mjög alvarlegir hlutir þegar þessi yfirlýsing er gefin út miðað við þá niðurstöðu sem hér blasir við. En hafi ég einhvern tíma verið sannfærður um að það frv. sem fjvn. öll hefur staðið að að semja, og þeir hennar sem sitja í Nd. hafa staðið að að flytja, eigi rétt á sér þá er ég sannfærður um það eftir að hafa skoðað þetta plagg. Vegna þess að starfandi fjmrh. verður að standa frammi fyrir þeim vanda að þurfa að segja þjóðinni satt og þinginu satt um það hver staða ríkisfjármálanna er og hann verður að þurfa að leita eftir heimildum áður en hann borgar svo að það sé útilokað að leyna þjóðina sannleikanum. Þetta eru grundvallaratriði. Ég veit að hagræðingin að hinu getur verið gífurleg, pólitískt séð, til að sleppa fram hjá erfiðum augnablikum í pólitískri umræðu. En það bara gengur ekki að hafa þannig fjöregg sjálfstæðis Íslendinga að leiksoppi. Því að svo mjög er hægt að reka ríkissjóð með halla á þenslutímum að það kosti landið sjálfstæðið. Ég tek aftur á móti undir það sem núv. hæstv. fjmrh. hefur sagt að undir sumum kringumstæðum er réttlætanlegt að reka ríkissjóð með halla. Það getur verið réttlætanlegt að gera það og þá

verða menn líka að hafa þrek til að gera það og verja það þegar það er gert. En á því ári þegar dúndrandi verðbólga geisaði og verðþensla á öllum sviðum þá gat það ekki verið réttlætanlegt að láta siglinguna vera stjórnlausa í fjmrn.