Fjáraukalög 1990
Mánudaginn 12. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 og er þetta frv. flutt til að afla nauðsynlegra heimilda til breytinga á útgjöldum ríkissjóðs frá fjárlögum yfirstandandi árs í tengslum við niðurstöður nýgerðra kjarasamninga, bæði samninga milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins við opinbera starfsmenn. Ég vil í upphafi þessarar umræðu vekja athygli á því að þetta er í fyrsta skipti í 70 ár sem lagt er fyrir þingið frv. til fjáraukalaga svo snemma á þinginu og í annað sinn í 70 ár sem lagt er fram frv. til fjáraukalaga til breytingar á fjárlögum yfirstandandi árs. Það er þess vegna mjög mikilvægt, ef við eigum í sameiningu að geta fest í sessi þessa nýskipan í ríkisfjármálum, að Alþingi afgreiði frv. fljótt og vel. Ég vil þess vegna eindregið beina þeim tilmælum til hæstv. forseta og virðulegra alþm. að stuðlað verði að því að þessari 1. umr. verði lokið hér í dag svo að hv. fjvn. geti þegar í þessari viku hafist handa við að fjalla um frv. svo að það megi hljóta afgreiðslu hið fyrsta.
    Allar ríkisstofnanir og öll ríkisfyrirtæki bíða eftir því að þetta frv. verði afgreitt svo að hægt sé að miða útgjaldaáætlanir ársins 1990 við niðurstöðu Alþingis. Mér er ljóst að það eru ýmsar aðrar umræður sem menn gjarnan vilja að hér fari fram eins og t.d. sú umræða um Evrópubandalagið og EFTA sem vikið var að hér áðan, en ég hlýt þó að leggja áherslu á það að breyting á fjárlögum yfirstandandi árs er það mikilvægt mál að það þolir ekki bið. Það er venja að fjárlögin hafi forgang í störfum Alþingis. Hér erum við í reynd að fjalla um fjárlögin í formi fullburðugs fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár. Ég vil þess vegna í upphafi máls míns og vegna umræðna hér sl. fimmtudag og þeirrar staðreyndar að þá tókst ekki vegna tímaskorts og
fjarveru þingmanna að mæla fyrir þessu frv. þá leggja á það ríka áherslu að það ber að kappkosta að á þessum sólarhring sé hægt að ljúka þessari 1. umr. og koma málinu til hv. fjvn.
    Kjarasamningarnir hafa með tvennum hætti áhrif á afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Annars vegar féllst ríkisstjórnin á að leggja ákveðnar kvaðir á ríkissjóð í því skyni að greiða fyrir gerð kjarasamninganna. Hins vegar lækka bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs frá fjárlagaáætlun vegna þess að launa- og verðlagshækkanir verða minni á árinu en reiknað var með við afgreiðslu fjárlaga um síðustu áramót.
    Í því augnamiði að greiða fyrir gerð kjarasamninganna ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir aðgerðum sem fælust í hækkun útgjalda um 1010 millj. kr. og lækkun tekna um 300 millj. kr. Til þess að vinna gegn óheppilegum áhrifum aukins ríkissjóðshalla á efnahagslífið er jafnframt lagt til við Alþingi að tilteknir útgjaldaliðir verði lækkaðir um samtals 915 millj. kr.
    Hækkun gjalda ríkissjóðs sem tengist yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna er þríþætt:
    Í fyrsta lagi verða niðurgreiðslur auknar um 800

millj. kr. svo koma megi í veg fyrir hækkanir á smásöluverði hefðbundinna búvara, enda standist sú forsenda samkomulags samningsaðila og bænda að verð til framleiðenda hækki ekki á tímabilinu fram til 1. des.
    Í öðru lagi var í fjárlögum við það miðað að greiðsluábyrgð ríkissjóðs við gjaldþrot yrði breytt með lögum. Þar er gert ráð fyrir verulega þrengri ákvæðum um bótarétt á hendur ríkissjóði samanborið við ákvæði núgildandi laga. Þannig var áætlað að bótagreiðslur ríkissjóðs mundu að breyttum lögum lækka um allt að 150 millj. kr. á árinu 1990 frá því sem ella hefði orðið. Til að greiða fyrir gerð kjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að falla frá fyrirhugaðri þrengingu bótaréttar að stórum hluta. Því er nauðsynlegt að hækka áætluð útgjöld ríkissjóðs um 100 millj. kr.
    Að lokum hækkar framlag til lífeyristrygginga vegna fyrirhugaðrar hækkunar á frítekjumarki tekjutryggingarþega í 19 þús. kr. hinn 1. júlí nk. sem er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis. Áætlað er að þetta hafi í för með sér 110 millj. kr. aukningu útgjalda á árinu 1990.
    Auk þessa lýsti ríkisstjórnin því yfir að til þess að greiða fyrir kjarasamningunum mundi hún beita sér fyrir lækkun skatta, eða öðrum sambærilegum aðgerðum, sem leiddi til 0,3% lækkunar á framfærsluvísitölunni. Þessar breytingar fela í sér um 300 millj. kr. sérstaka lækkun á bensíngjaldi, þungaskatti og bifreiðasköttum. Unnið er að útfærslu á þessum aðgerðum.
    Fjárlögin fyrir árið 1990 byggðust á þeim forsendum að verðlag hækkaði að meðaltali um 16--17% milli áranna 1989 og 1990, verð á erlendum gjaldeyri um 13--14% og laun um 11%. Í forsendum nýgerðra kjarasamninga felast að jafnaði um 2,0--3,2% minni breytingar þessara þátta milli ára. Af þessu leiðir að breytingarnar koma fram bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaganna. Þannig er áætlað að tekjur ríkissjóðs lækki um 2,3 milljarða kr. frá fjárlögum og útgjöld um allt að 2 milljarða 50 millj. kr. Í 4. gr. frv. er sótt um heimild til lækkunar á gjöldum vegna breytinga á verðlags- og launaforsendum.
    Að athuguðu máli er talið að breyttar verð- og launaforsendur hafi ívið minni áhrif til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs en tekjum. Skýringarnar eru þær að lækkunin kemur ekki fram á öllum útgjaldaþáttum, svo sem niðurgreiðslum og vaxtagjöldum, og að áhrif verðbreytinganna koma fyrr fram á tekjuhlið fjárlaganna en gjaldahlið. Ástæður þess að ekki er talið fært að færa niður vaxtagjöld vegna breyttra verðlagsforsendna eru af tvennum toga. Nálægt 75% af vaxtagjöldum ríkissjóðs eru langtímalán. Annars vegar er um að ræða erlend lán en útreikningar vaxta af þeim miða við gengisskráningu sem var nálægt raunverulegu gengi í byrjun ársins. Hins vegar er um að ræða innlend spariskírteini sem hafa að geyma uppsafnaða vexti frá fyrri árum.
    Þá hefur fyrirsjáanleg skammtímafjármögnun ríkissjóðs á árinu 1990 aukist frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Í fyrsta lagi er um að ræða

aukningu á útistandandi ríkisvíxlum sem fjármagna þarf á árinu. Í öðru lagi hefur gjaldfrestur á virðisaukaskatti verið lengdur og í þriðja lagi er halli á ríkissjóði áætlaður meiri en áður. Sá auki vaxtakostnaðar sem þessu fylgir vegur upp þann ávinning sem hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta annars hefur í för með sér fyrir ríkissjóð.
    Gert er ráð fyrir að lækkun gjalda vegna breyttra verð- og launaforsendna verði framkvæmd við gerð greiðsluáætlunar fyrir allar stofnanir og ráðuneyti með sama hætti og gert er við dreifingu verðbóta. Miðað er við að launagjöld verði færð niður um 860 millj. kr. eða nálægt 3,2%. Öll önnur útgjöld ríkissjóðs að undanskildum niðurgreiðslum og vaxtagjöldum verða færð niður um nálægt 2%. Þannig verða útgjöld vegna annarra rekstrargjalda ríkisstofnana færð niður um 232 millj. en á móti vegur að kröfur um sértekjur ríkisstofnana lækka um 90 millj. kr. Þá lækka gjöld vegna rekstrar- og neyslutilfærslna um 818 millj. kr. og gjöld vegna viðhalds- og stofnkostnaðar um 230 millj. kr.
    Virðulegi forseti. Ýmsar aðstæður í þjóðarbúskapnum benda til þess að raunveruleg hætta sé á peningaþenslu á þessu ári. Það er því mikilvægt að koma í veg fyrir að slík peningaþensla stofni árangri kjarasamninganna í hættu. Fjárlög fyrir árið 1990 voru afgreidd með tæplega 3,7 milljarða rekstrarhalla. Fyrirsjáanlegt er mikið útstreymi úr ríkissjóði á fyrstu mánuðum ársins bæði vegna halla á fjárlögum og greiðslufrests vegna upptöku virðisaukaskatts. Þá er lausafjárstaða bankanna tiltölulega góð og sama er að segja um gjaldeyrisstöðu Seðlabanka. Aukinn ríkissjóðshalli við þessar aðstæður getur valdið óæskilegum þensluáhrifum sem leitt gætu til aukinnar verðbólgu og viðskiptahalla. Við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að beita aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum. Til þess að forðast enn frekari halla á rekstri ríkissjóðs í kjölfar kjarasamninganna ákvað ríkisstjónin því að beita sér fyrir beinum niðurskurði útgjalda og leggja fyrir Alþingi tillögur um lækkun útgjalda ríkissjóðs um 915 millj. kr. Það er alveg ljóst að umræðan um þann niðurskurð hefur eðlilega verið á þann veg að ýmsum sýnist sitt hvað um þá liði sem þarna eru valdir sem eru mjög margir og það er auðvitað aldrei létt verk, hvorki fyrir ríkisstjórn eða Alþingi, að skera niður ríkisútgjöldin. Ég vek þó athygli á því að þetta er í annað sinn á fáeinum mánuðum sem ríkisstjórnin og Alþingi leggja til atlögu um niðurskurð ríkisútgjalda en milli 2. og 3. umr. fjárlaga var framkvæmd veigamikil tilraun til þess að lækka ríkisútgjöldin enn frekar. Samanlagt fela þessar tvær niðurskurðarlotur því í sér að á fáeinum mánuðum hafa ríkisútgjöldin verið skorin niður um röska 2 milljarða kr. frá þeirri upphæð sem fjárlagafrv. stóð í að lokinni 2. umr. Ég vænti þess því að það takist góð samvinna hér á Alþingi um að festa í lögum þann niðurskurð ríkisútgjalda sem lagður er til í frv.
    Þrátt fyrir að þessi niðurskurður verði samþykktur eru að öllu samanlögðu horfur á að halli ríkissjóðs í

heild aukist um 645 millj. kr. og geti á árinu 1990 orðið rúmlega 4,3 milljarðar kr. Það er því mjög mikilvægt að stuðla að því, til að koma í veg fyrir aukna þenslu á innanlandsmarkaði, að lögð verði rík áhersla á að afla lánsfjár innan lands til þess að fjármagna þennan halla. Því verður leitað á næstu vikum til innlendra fjármagnseigenda, svo sem lífeyrissjóða og annarra aðila, um þátttöku í þeirri fjármögnun. Er það í samræmi við þau viðhorf sem fram komu við gerð kjarasamninganna að leitað yrði leiða til þess að koma í veg fyrir að peningaþensla stofnaði árangri kjarasamninganna í hættu.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka þá ósk mína að Alþingi geti í dag lokið 1. umr. um fjáraukalagafrv. og því verði vísað til hv. fjvn. Það er mjög mikilvægt þegar þessi nýskipan er tekin upp í meðferð ríkisfjármála að við sameinumst um að afgreiðslan geti orðið með skjótum og öruggum hætti en slík mál séu ekki vikum saman til meðferðar á Alþingi. Það er venja í þingstörfum að fjárlagafrv. og afgreiðsla fjárlaga hafi vissan forgang. Og við erum í reynd að fjalla um fjárlagaígildi með því fjáraukalagafrv. sem ég hef hér mælt fyrir.
    Ég mælist svo til þess að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. fjvn. til meðferðar.