Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Það er nú liðinn ærinn tími síðan við, ýmsir þingmenn sem erum á mælendaskránni, kvöddum okkur hljóðs og því munu þau fáu orð sem ég mun nú flytja beinast eingöngu að tilteknum atriðum í málflutningi hæstv. ráðherra.
    Ég vil nefna sérstaklega tvö atriði: Annars vegar tel ég nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri Alþingi grein fyrir stöðu mála vegna hinnar nýju þróunar í Austur-Evrópu sem vissulega var farin af stað þegar málið kom hér til umræðu fyrir jól en sífellt hafa nýir atburðir orðið og það hefur orðið æ ljósara að Evrópubandalagið sjálft sem slíkt og þjóðir þess þurfa að eyða töluverðum tíma í það að meta stöðu sína gagnvart hinni nýju þróun í Austur-Evrópu, bæði að því er varðar efnahagssamstarf ýmiss konar, stöðu gjaldmiðla, hugsanlegar fjárfestingar í Austur-Evrópu og fleira sem er verulega vandasamt og kann að hafa áhrif á allt efnahagslíf Vestur-Evrópu. Þegar þessi atriði eru skoðuð er það skiljanlegt að ýmsir hafa efasemdir um það hversu mikill hugur sé í Evrópubandalagsmönnum í viðræðunum við EFTA einmitt nú um þessar mundir. Það vakna spurningar eins og þessi: Þurfa málefnin sem upp koma vegna Austur-Evrópu að hafa forgang áður en þessum málum er lokið? Á hinn bóginn geta sömu ástæður orðið til þess að menn spyrja: Verður þessi aðstaða til þess að viðræðunum við EFTA verður hraðað svo mjög að niðurstaða þeirra verði að liggja fyrir miklu fyrr en menn áður bjuggust við? Mér virðist hæstv. ráðherra ekki hafa fjallað nægilega um þetta atriði og teflt fram rökum með og móti því sem kann að verða þróunin af þessum sökum.
    Margir halda því fram að þetta geti gjörsamlega ruglað allri myndinni af hálfu Evrópubandalagsins í garð EFTA. Áhuginn geti breyst, áherslur geti breyst, að ég nú ekki tali um þegar menn jafnvel ýja að því að einhverjir þeir sem nú eru í Evrópubandalaginu kunni að láta sér detta í hug
að starfa öllu fremur með EFTA. Það virðist hins vegar ekki vera mjög raunhæft. En aðalatriðið er þetta að við þurfum áreiðanlega í ljósi þessara atburða að taka miklu alvarlegar á þeirri hugmynd sem hæstv. ráðherra ræddi um áðan, þeirri hugmynd sem kölluð hefur verið tvíhliða viðræður. Hæstv. ráðherra léði máls á því nú í ræðu sinni að tvíhliða viðræður gætu hugsanlega farið fram samtímis könnunarviðræðum innan EFTA. Það er gleðilegt. Hann átti varla nógu sterk orð til að lýsa forakt sinni á málflutningi sjálfstæðismanna hér fyrr í vetur sem einmitt fól það í sér að þetta hvort tveggja ætti að athuga samtímis. Það útilokar alls ekki hvort annað. Það stóð aldrei til og felst alls ekki í tillögu sjálfstæðismanna að svo sé.
    Hitt er mér gjörsamlega óskiljanlegt að það geti verið skynsamlegt að halda því fram að rétt sé að það liggi fyrir fyrir fram, og meira að segja jafnopinberlega eins og niðurstaða Alþingis mundi gera, hver sé afstaða gagnvart hugsanlegum tilslökunum af hálfu Íslendinga. Í fyrsta lagi liggur

það margítrekað fyrir að slík afstaða er ekki fyrir hendi, þ.e. afstaða sem fólgin er í því að slaka megi til um veiðiheimildir. Ef hæstv. ráðherra heldur að tvíhliða viðræður kunni að leiða til þess að hann þurfi að svara einhverjum mismunandi spurningum um það efni er vitanlega skynsamlegra að bera þær spurningar upp þegar þær liggja fyrir en ekki vera að búa þær til núna. Og ég mun láta það eftir mér að segja hvað ég held að sé eina skiljanlega skýringin á þessum einkennilegu viðbrögðum. Ég hallast æ meira að þeirri skýringu að ástæðan til þess að hæstv. ráðherra heldur því æ ofan í æ fram að viðræður sem þessar muni leiða til þess að við þurfum að svara því nú hvort við föllumst á að veita veiðiheimildir sé sú að hæstv. ráðherra, formaður Alþfl., hafi séð í þessu leið til þess, krókaleið, að stilla Íslendingum upp við vegg og fá þá með þessu til að samþykkja sölu veiðileyfa. Ég sé einn ágætan hv. alþýðuflokksmann sem ég met mjög mikils hrista höfuðið. Annaðhvort er það vegna þess að honum finnst þetta alveg fráleit hugmynd eða honum finnst slæmt að sjálfstæðismenn séu að viðra slíkar hugsanir. Hvor ástæðan sem er, þá er þetta staðreynd að ef forustumaður Alþfl., hæstv. ráðherra utanríkismála sem ber ábyrgð á þessum viðræðum og að okkar mati ber skylda til að kanna þessar leiðir, krefst þess æ ofan í æ að fyrir fram séu lögð öll spil á borðið og meira að segja spil sem við höfum ekki hugmynd um hvort til verði, ef hann krefst slíks af Alþingi Íslendinga, þá lítur út fyrir að það búi eitthvað annað undir því en einlægur áhugi á því að ná slíkum tvíhliða viðræðum.
    Ef hæstv. ráðherra ætlar að gera samning um einhver kaup --- svo að ég haldi áfram með þá hugsun sem hæstv. ráðherra setti hér fram áðan þegar hann sagði: Hvaða verði viljum við kaupa tollafríðindi? --- við skulum taka eitthvert afskaplega einfalt og hversdagslegt fyrirbæri, t.d. að hæstv. ráðherra fari í búð að kaupa sér skó, og hann bráðvantar þessa skó, skulum við segja. Hæstv. ráðherra byrjar ekki á því að spyrja: Kemur það til nokkurra mála að ég fari að tala um að kaupa mér þessa skó nema ég viti fyrir fram og upp á krónu hvað þessir skór kosta? Hann byrjar auðvitað á því að fara í búðina og spyrja: Hvað kosta þessir skór? Svo athugar hann hvort hann ræður við að kaupa skóna. E.t.v. eru þeir á einstökum vildarkjörum og e.t.v. eru einhverjir aðrir skór,
sem hæstv. ráðherra á inni í skáp og eru númeri of litlir eða of stórir, einhvern veginn svo fallegir að skókaupmaðurinn vill gjarnan fá þá í staðinn. En það eru skór sem hæstv. ráðherra ætlar sér alls ekkert að nota og eru þess vegna alls ekki sambærilegir, svo að við snúum okkur að tollafríðindum og fiskveiðiheimildum. Tollafríðindi geta komið á móti tollafríðindum en ekki á móti fiskveiðiheimildum. Og í tilfelli skóverslunar hæstv. utanrrh. kæmi eitt par af skóm á móti öðru pari af skóm, þannig að ekki er hægt að gefa sér svona hluti fyrir fram eins og hæstv. ráðherra gerir. Það sækir æ fastar á huga minn að einhverjar undarlegar skýringar séu á því. Hingað til

og fram undir þetta hef ég haldið að þær skýringar væru ekki undarlegri en svo að bara væri verið að reyna að halda saman þessari fjölskrúðugu hæstv. ríkisstjórn vegna þess að fyrir liggja af hálfu Alþb. fyrirvarar sem væru algjörlega óviðráðanlegir fyrir hæstv. utanrrh. ef hann væri kominn að lokum þessa máls. Það er alveg ljóst.
    Ef hæstv. ráðherra væri kominn að leiðarlokum í þessum viðræðum og ekkert annað væri eftir en að skrifa undir stofnun evrópsks efnahagssvæðis þá segðu hæstv. ráðherrar Alþb., eða a.m.k. aðaltalsmaður þeirra í utanríkismálum, nei. Og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherrar úr hans flokki taki ekki mark á honum. Þar með væri ríkisstjórnin liðin undir lok. Auðvitað mundu margir segja að farið hefði fé betra en ég veit að hæstv. utanrrh. stefnir ekki að því þó að skoðun okkar margra sé sú að þarna mætti vissulega verða breyting á.
    Frú forseti. Erindi mitt hér í þennan ræðustól var að óska eftir því að hæstv. ráðherra gerði okkur betri grein fyrir því hvaða áhrif hann telur að staða mála í Austur-Evrópu hafi á feril þessara viðræðna og svo hitt að hann skýri það fyrir okkur hvort hann telji það virkilega skynsamlegt að krefjast þess að slíkum fyrirvörum, sem hann setur fyrir því að kanna tvíhliða viðræður, sé fullnægt. Og ef hann telur það skynsamlegt, þá hvers vegna.