Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til þess að taka hér til máls út af því alvarlega ástandi sem ríkir nú þegar fréttir berast af því að fóðurstöðvar loðdýrabænda séu allar að hætta. Það er ekki að menn vilji ekki halda áfram heldur hafa þau mál ekki þokast áfram eins og að var stefnt. Ég hef ekki tóm til að rekja þessa sögu hér af því að tími minn er það takmarkaður. En ég vil minna á að að tilhlutan ríkisstjórnarinnar var skipuð nefnd til að skoða þessi mál 1. ágúst sl. Sú nefnd skilaði tillögum. Síðan var komið hér með frv. sem var samþykkt 14. des. Reglugerðin var ekki gefin út fyrr en 22. febr., en svo stendur á að menn vita ekkert hvað þeir eiga nú að gera. Það er farið að para dýrin. Þegar sá tími er kominn eru skinnin hér um bil, ef ekki alveg verðlaus. Þess vegna vil ég biðja hæstv. forsrh. að svara eftirfarandi spurningum:
    1. Hvað hugsar ríkisstjórnin sér að gera til þess að tryggja áframhaldandi rekstur fóðurstöðva loðdýrabænda?
    2. Hvað mun ríkisstjórnin gera í sambandi við fóðurstöðvarnar, ef það kemst á að breyta skuldum loðdýrabúanna í lán eins og til stendur samkvæmt lögunum, hvernig verður það þá tryggt að fóðurstöðvarnar geti tekið við þeim og notað aftur til þess að gera upp við þá sem þær skulda?
    Þannig er komið að verið er að loka þessum stöðvum. Það er verið að loka fyrir rafmagnið, allt vantar orðið til þess að geta framleitt þetta fóður. Ef ekki verða gerðar ráðstafanir strax á morgun sé ég ekki annað en að þessi framleiðslugrein sé gersamlega búin að vera. Og þess minnug, sem við hljótum öll að vera, hvernig á því stóð að farið var út í þessa atvinnugrein á sínum tíma, þá sé ég ekki betur en við sem hér erum, og ekki síst hæstv. ríkisstjórn, séum skyldug til að taka á þessu máli.
    Í því sambandi ætla ég að koma með eina fyrirspurn enn. Ég veit að ég er búinn að tala of lengi eftir þingsköpum, en ég óskaði eftir því að fá eilítið lengri umræðu um þetta mál, svo alvarlegt sem það er. Með leyfi Seðlabankans mega bankarnir leggja á allt upp í 3% viðbótarvaxtatöku þegar skuldbreytt er. Að vísu eru í sambandi við þessa skuldbreytingu ákveðnir vextir í lögunum, en það eru fleiri en þetta fólk sem þarf nokkuð að skuldbreyta hjá sér og þessi framkvæmd, eins og hún er, er gersamlega ólíðandi. Og ég var að fá upplýsingar um það að útibúum sem hafa fram að þessu neitað að bæta við þessa vaxtatöku sé nú skipað frá höfuðstöðvunum að taka þessa vaxtatöku.