Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Menn hafa snúið þessari umræðu þó nokkuð sterkt upp í þá spurningu að vandamálið sé hjá fóðurstöðvunum. Rekstrarvandi fóðurstöðvanna byggist á því að það getur enginn aðili til lengdar afhent fóður án þess að fá það borgað. Sá rekstur gengur einfaldlega ekki upp og þarf ekki mikla skarpskyggni til að átta sig á því að það er ekkert útlit fyrir að þannig verði hægt að standa að málum. Ég hygg aftur á móti að það sem menn þurfa að snúa sér að og átta sig á til fullnustu sé hvernig hægt er að standa að því að láta þá sem vilja halda áfram í greininni og fá þann stuðning sem hér hefur verið samþykkt að veita þeim, hvernig er hægt að láta þá fá fóður á eðlilegu verði. Það liggur t.d. fyrir að eitt fóðurfyrirtæki á Íslandi sem hefur verið í fiskafóðri býðst til að útvega þurrfóður fyrir loðdýrin. Spurningin er þessi: Á hvaða verði yrði slíkt þurrfóður? Hafa slíkir útreikningar farið fram innan landbrn.? Eru einhverjar tillögur uppi?
    Það liggur líka fyrir að hægt er að geyma refafóður með því að nota maurasýru þannig að það þurfi ekki að keyra það jafnoft til búanna og gert hefur verið. Hins vegar vantar stefnumörkun í landbrn. þar sem hægt er að fá úr því skorið hvort þessar leiðir eru færar. Ég held aftur á móti að það liggi alveg ljóst fyrir að rekstur jafnmargra fóðurstöðva og verið hefur er fyrir fram dauðadæmdur ef greinin dregst jafnmikið saman og raun ber vitni. Það þarf raunverulega ekki að ræða það. Við gætum ekki haldið öllum sláturhúsunum á Íslandi gangandi með því að fækka sauðfé um helming og þannig er hægt að benda á margar hliðstæður. En ég held að það sé grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu: Er hægt að breyta yfir í þurrfóður? Er hægt að breyta yfir í það að bændurnir vinni fóðrið meira sjálfir? Er hægt að breyta yfir í það að það sé geymt lengur og hafa þannig færri fóðurstöðvar og með stærra svæði?
Stefnuleysið liggur í því að engin rödd hefur komið fram sem sker úr þessum þrætum og Byggðastofnun sem slík gerði ráð fyrir því þegar hún hóf afskipti af þessum málum að þannig væri staðið að því á öllum stöðum að fóðrið væri selt og það yrði greitt, en hún sér að sjálfsögðu ekki fram á að hægt sé að standa að rekstrinum þegar það er ekki gert.