Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Frsm. minni hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson) (frh.) :
    Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég hafði gert grein fyrir fyrstu brtt. minni hl. nefndarinnar en sú brtt. var við 1. gr. frv. þar sem rætt er um Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.
    Ég kem þá að annarri brtt. sem er að vísu í mörgum liðum vegna þess að þar er lagt til að allmargar greinar í frv. falli brott, þ.e. 6.--14. gr. að báðum greinum meðtöldum. 6. gr. frv. fjallar um eyðingu svartbaks, þ.e. að sá málaflokkur, sem hefur verið undir stjórn Búnaðarfélags Íslands, falli til hins nýja umhverfisráðuneytis og 7. gr. fjallar um það að eyðing refa og minka, sem einnig hefur verið í umsjón Búnaðarfélagsins og undir yfirstjórn landbrn., sá málaflokkur, falli einnig til hins nýja umhverfisráðuneytis. Við leggjum til að þessar greinar, 6. og 7. gr., falli brott og þessir málaflokkar verði áfram þar sem þeir hafa verið.
    Ég vísa í þessu sambandi til ályktunar búnaðarþings sem ég gerði grein fyrir hér fyrr í ræðu minni, en í þessari ályktun er einnig komið inn á þessa þætti, og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt frv. er einnig ætlað að flytja til umhverfisráðuneytis meðferð laga nr. 50/1965, um eyðingu svartbaks, og laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka. Framkvæmd þeirra laga er nátengd landbúnaði og eftir þeim er unnið í náinni samvinnu við bændur. Landbúnaður á mikið undir því að vargi sé haldið í skefjum. Ekki virðist brýn ástæða til að flytja embætti veiðistjóra úr tengslum við meðferð landbúnaðarmála.``
    Þetta er rökstuðningur búnaðarþings og ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem þar er sagt. Raunar tengist þetta líka heilbrigðisþættinum, en ég kem að því síðar þar sem frv. gerir ráð fyrir að Hollustuverndin falli til hins nýja umhverfisráðuneytis. Það er alveg ljóst að vargfuglinn er orðinn alvarlegt vandamál vegna salmónellusýkingar sem vitað er að vargfuglinn er smitaður af
og þetta kemur sem sagt inn á þann þátt líka. Ég þarf svo sem ekki að hafa fleiri orð til að rökstyðja þessar brtt. okkar um að 6. og 7. gr. falli brott.
    Við leggjum til að 8. gr. frv. falli einnig brott, en þar er fjallað um að yfirstjórn laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit fari frá heilbr.- og trmrn. og til umhverfisráðuneytis.
    Aðrar greinar sem við leggjum til að falli brott og varða einmitt heilbr.- og trmrn. eru 13. gr., sem fjallar um það að yfirstjórn laga um eiturefni og hættuleg efni fari frá heilbr.- og trmrn. til umhverfisráðuneytis, og 14. gr. sem fjallar um það að yfirstjórn laga um Geislavarnir ríkisins sé flutt frá heilbrmrn. til umhverfisráðuneytis. Ég get kannski tekið þessar greinar meira og minna í samhengi, 8., 13. og 14. gr.
    Við teljum að yfirstjórn þessara mála eigi að vera áfram í heilbr.- og trmrn. þar sem yfirstjórnin hefur verið og ég nefni hér nokkur atriði úr umsögnum sem nefndinni hafa borist og varða einmitt

Hollustuverndina.
    Í bréfi sem Hollustuvernd ríkisins sendir allshn., bréfi sem dags. er 19. des., vekja þeir athygli á því að stjórn Hollustuverndar ríkisins hafi aldrei sagt að eðlilegast væri að Hollustuvernd ríkisins flyttist í heild sinni til umhverfisráðuneytis eins og fram kemur í athugasemdum með frv. Meiri hluti stjórnar stofnunarinnar taldi það ekki eðlilegast að stofnunin flyttist í heild sinni til umhverfisráðuneytis en af tveimur slæmum kostum, að kljúfa stofnunina eða flytja til umhverfisráðuneytis, taldi hún skárra að flytja stofnunina. Meiri hluti forstöðumanna stofnunarinnar var sammála þessari skoðun.
    Þeir vísa einnig í bréf sem Hollustuverndin hafði sent aðstoðarmanni forsrh. 24. okt. en í því bréfi kom fram að nefndin sem samdi frv. taldi koma til álita að mengunarsvið stofnunarinnar heyrði undir hið nýja ráðuneyti en ekki matvælaeftirlit og svokölluð innri mengun. ,,Þótt stjórn stofnunarinnar telji að þessi kostur komi ekki til greina hafa starfsmenn mengunarsviðs talið hann álitlegan. Afstaða stjórnarinnar byggist á því hve umfjöllun um nær- og fjærumhverfi rennur víða saman. Ef stofnunin yrði klofin, hver ætti þá t.d. að fjalla um aðgerðir til að tryggja heilnæmi neysluvatns? Hvernig ætti að tryggja samræmi í aðgerðum sem nauðsynlegar væru ef í ljós kæmi að smithætta stafaði af vargfugli sem sækti í æti í ófullnægjandi frárennsli eða í óvarða sorphauga og bæru síðan smit í vatnsból manna og búpenings? Hvernig ætti að taka á málum ef bensíngeymir læki og bensínið ætti greiða leið niður í grunnvatn og síðan í neysluvatn þéttbýlisstaða?
    Þessar þrjár spurningar eru dæmi um spurningar sem vakna ef mengunarvarnir verða klofnar frá almennu heilbrigðiseftirliti. Hætta er á að ósamræmi í reglum og fyrirmælagjöf gæti leitt til óvissuástands eða jafnvel glundroða í þeim tilvikum sem taka þarf á samræmdan hátt á málum er varða bæði nær- og fjærumhverfi.``
    Þetta sem hér segir er raunar rökstuðningur fyrir því að ekki eigi að samþykkja brtt. sem Kvennalistinn hefur lagt hér fram og talað fyrir fyrr í
dag, þ.e. þriðju brtt. Kvennalista um að mengunarsvið Hollustuverndar verði flutt yfir en ekki aðrir þættir.
    Hollustuverndin lætur þess getið í síðara bréfi sem sent var allshn., dags. 15. jan., að innan Hollustuverndar ríkisins hafi skoðanir lengi verið mjög skiptar varðandi stöðu stofnunarinnar gagnvart hugsanlegu umhverfisráðuneyti. Hefur mengunarvarnasvið stofnunarinnar skorið sig úr í þessu sambandi en hin þrjú sviðin hafa talið óæskilegt að tengsl þeirra við heilbrrn. minnkuðu eða rofnuðu alveg.
    Og nánar: Til að gera grein fyrir afstöðu stjórnarinnar er vísað í bréf til aðstoðarmanns forsrh. frá sl. hausti, og þar segir svo:
    ,,Hollustuvernd ríkisins vill í upphafi leggja áherslu á að heilbrigðiseftirlit stofnunarinnar og sveitarfélaganna hefur verið meginþáttur umhverfiseftirlits í landinu enda er umhverfi mannsins

og lífsskilyrði nátengt heilbrigði mannsins. [Ég fagna því að sjá hæstv. heilbrrh. því að nú er ég einmitt kominn að því að gera grein fyrir brtt. okkar sem snerta heilbrrn. sérstaklega.] Frá upphafi þessarar aldar hefur þetta verkefni verið í höndum sveitarfélaga, en eftir að Heilbrigðiseftirlit ríkisins, forveri Hollustuverndar ríkisins, var stofnað árið 1969 hefur átt sér stað markviss þróun hjá ríkinu í þessum málum. Þannig hefur þrisvar sinnum á þessum áratug farið fram heildarendurskoðun laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Heilbrigðissamþykktir og reglugerðir eru safn þeirra fyrirmæla sem sett eru af hinu opinbera til verndunar umhverfi mannsins. Í lögum um heilbrigðiseftirlit og hollustuhætti árið 1981 var ákveðið að taka úr heilbrigðisreglugerð þau ákvæði sem vörðuðu umhverfismengun og setja þau mál í sérstaka mengunarvarnareglugerð. Reglugerðin hefur nú verið staðfest af heilbrrh. og mun taka gildi um næstu áramót [þ.e. síðustu áramót]. Með stofnun umhverfisráðuneytis kæmi til álita að endurskilgreina eftirlit opinberra aðila sem beinist að því að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum og nefna umhverfiseftirlit. Slík endurskilgreining kallar á breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og endurskoðun á verksviði heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna.``
    Síðar segir: ,,Það væri til skaða fyrir þetta málefni ef nú yrði farið að skipta Hollustuvernd ríkisins milli ráðuneyta þó þeir þættir í starfsemi hennar sem varða nærumhverfi séu nátengdir málaflokkum heilbrrn.``
    Enn síðar í þessu bréfi segir: ,,Stjórnin telur varhugavert að hraða stofnun umhverfisráðuneytis svo mikið að ekki vinnist tími til að svara grundvallarspurningum um starfsemi ráðuneytisins og stofnana þess. Í því sambandi telur stjórnin að veigamikil atriði er tengjast hollustuvernd og heilbrigðiseftirliti í landinu séu ófrágengin. Afstaðan til umhverfisráðuneytis mótast því af eðlilegri varkárni. Stjórnin vill ekki tefla í tvísýnu heilbrigðiseftirliti og hollustuháttamálum, þar með töldu eftirliti með matvælum. Verkefnalisti umhverfisráðuneytis samkvæmt grg. með frv. um breytingu á lögum um Stjórnarráðið [þ.e. þetta mál sem við erum hér með], og reyndar grg. í heild sinni, bendir til þess að þessi mikilvægu mál gætu orðið hornreka í umhverfisráðuneyti. Sé minnsta hætta á að svo verði mun stjórnin leggjast gegn breytingum á yfirstjórn stofnunarinnar. Nokkrir stjórnarmenn eru reyndar algjörlega á móti breytingu á yfirstjórn hennar að svo komnu máli.``
    Síðan er hér getið um afstöðu hinna einstöku sviða innan Hollustuverndarinnar og eins og ég held að ég hafi áður nefnt eru þrír af fjórum forstöðumönnum eindregið andvígir því að Hollustuverndin verði flutt frá heilbr.- og trmrn. Það er eingöngu mengunarvarnasviðið sem telur það vera rétt.
    Þriðja bréfið hefur reyndar borist frá stjórn Hollustuverndar ríkisins, dags. 5. febr., og þar segir svo:

    ,,Stjórnin er sem áður sammála um að ekki komi til álita að kljúfa stofnunina og að varhugavert sé að hraða stofnun umhverfisráðuneytis það mikið að ekki vinnist tími til að svara grundvallarspurningum um starfsemi ráðuneytisins og stofnana þess. Meiri hl. stjórnarinnar telur að réttara væri að skoða til þaula [eins og segir hér, það er nú talsháttur sem ég þekki ekki en má vera að sé prentvilla, skoða í þaula eða til þrautar kannski] möguleika á stofnun umhverfis- og heilbrigðisráðuneytis fremur en að stofna sjálfstætt umhverfisráðuneyti. Sú skoðun nýtur nú meirihlutafylgis innan stjórnarinnar að stofnunin heyri áfram undir heilbr.- og trmrn. en minni hlutinn telur koma til greina að færa stofnunina undir umhverfisráðuneyti`` að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í bréfinu frá 15. jan. og ég hef að nokkru leyti rakið.
    Þetta er álit meiri hluta stjórnar Hollustuverndarinnar, að hún eigi áfram að vera í heilbr.- og trmrn.
    Ég get aðeins drepið á nokkra fleiri þætti sem komið hafa fram. Forstöðumaður eiturefnaeftirlits Hollustuverndarinnar segir:
    ,,Af sjónarhóli eiturefnasviðs Hollustuverndar ríkisins er málum ágætlega fyrir komið í heilbrrn. eins og málum er háttað þar sem meginverkefnin eru nú
á sviði heilbrigðismála auk þess sem engar aðrar stofnanir undir öðrum ráðuneytum gera tilkall til sömu mála þannig að af hljótist ruglingur eða ósamræmi.``
    Ég hef undir höndum nokkra minnispunkta um umhverfismál sem eru frá Þórhalli Halldórssyni, forstöðumanni í Hollustuvernd, Halldóri Runólfssyni deildardýralækni, Jóni Gíslasyni deildarsérfræðingi og Kolbrúnu Haraldsdóttur heilbrigðisráðunaut.
    Ég get aðeins gripið niður í þessum punktum. Þar segir:
    ,,Heilbrigðiseftirlitssvið Hollustuverndar ríkisins er og hefur alltaf verið andvígt því og talið það óskynsamlegt að flytja Hollustuvernd ríkisins frá heilbr.- og trmrn. yfir í fyrirhugað umhverfisráðuneyti. Það getur ekki talist eðlilegt að flytja Hollustuvernd í ráðuneyti umhverfismála þegar mestur hluti af starfsemi stofnunarinnar er ekki á þess sviði. Svo sem kunnugt er er stofnuninni skipt í fjögur fagsvið sem eru heilbrigðiseftirlit, eiturefnaeftirlit, rannsóknastofa og mengunarvarnir. Fagsvið starfa tiltölulega sjálfstætt og eru það einungis fimm starfsmenn mengunarvarna stofnunarinnar sem starfa á sviði umhverfismála.``
    Vakin er sérstök athygli á afstöðu heilbrigðiseftirlitsins í landinu sem kemur glöggt fram í ályktun sem samþykkt var samhljóða á almennum félagsfundi Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands þann 27. nóv. sl. og sem allshn. hefur borist. Þar segir m.a.:
    ,,Því ályktar fundurinn að þessum málum sé best komið undir heilbrmrn. Í því ráðuneyti er til staðar fagleg og lögfræðileg þekking á þessum málaflokkum auk þess sem ráðuneytið hefur áratuga reynslu við framkvæmd þeirra. Málefni á sviði mengunarvarna og heilbrigðiseftirlits eru iðulega mjög yfirgripsmikil og viðkvæm. Þau krefjast oft tafarlausrar ákvarðanatöku

sem getur haft víðtækar afleiðingar, m.a. fjárhagslegar, auk þess að hafa áhrif á heilsufar fólks.``
    Enn fremur: ,,Fundurinn bendir enn fremur á að færu þessir málaflokkar frá heilbrrn. væri verið að rjúfa fagleg tengsl við landlæknisembættið, héraðslækna og heilsugæslulækna sem eru lögum samkvæmt faglegir ráðunautar eftirlitsins og heilbrigðisnefnda. Einnig væri þýðingarmiklu sambandi og samstarfi við sveitarfélög landsins stefnt í tvísýnu. Það er álit fundarins að ekki sé eðlilegt að kljúfa starfsemi Hollustuverndar ríkisins vegna þess hve verksvið mengunarvarna og heilbrigðiseftirlits eru nátengd og óskynsamlegt að þessi svið heyrðu undir tvö ráðuneyti.``
    ,,Sérstök athygli`` --- svo að ég grípi víðar niður í þessum punktum --- ,,er vakin á þýðingarmiklum og erfiðum verkefnum sem verða til úrlausnar næstu mánuði og missiri á vegum stofnunarinnar. Verða hér nefndar framkvæmdir við innflutningseftirlit með matvælum og nauðsynjavörum. Enn fremur, sem er mun alvarlegra mál, sú staðreynd að nú hefur í fyrsta sinn hér á landi fundist salmónella í sauðfjárafurðum og hætta getur verið á að þessi vágestur geti einnig borist í aðrar búfjárafurðir hér.
    Það þarf ekki að lýsa því fyrir alþm. hvaða afleiðingar það geti haft fyrir matvælaframleiðsluþjóð ef salmónella kæmist í fleiri búfjárafurðir eða aðrar mikilvægar afurðir okkar.
    Landbrh. og heilbrrh. hefur verið gerð grein fyrir þessu alvarlega máli. Nauðsyn ber til að nú þegar verði undirbúnar samræmdar aðgerðir, bæði af hálfu þessara ráðuneyta, yfirdýralæknis, Hollustuverndar og öðrum aðilum, til að mæta þessum nýju viðhorfum. Það væri ábyrgðarhluti að mati undirritaðra að flytja Hollustuvernd ríkisins við þessar aðstæður yfir í nýtt ráðuneyti. Ef af flutningi verður má telja víst að mikill tími starfsmanna stofnunarinnar og ráðuneytisins fari í breytingar á lögum og reglugerðum, skipulagsbreytingar og vinnu við að stilla saman ólík starfssvið á vegum ráðuneytisins.
    Það skal tekið fram að þess eru ekki fordæmi í öðrum löndum svo vitað sé, að matvælaeftirlit heyri undir umhverfisráðuneyti Það er enn fremur staðreynd að látin hefur verið í ljós sú skoðun, bæði í athugasemdum með frv. og af forsrh., að eðli málsins samkvæmt heyri matvæla- og heilbrigðiseftirlit fremur undir heilbrrn. en umhverfisráðuneyti.``
    Mig langar nú til þess að spyrja hæstv. heilbrrh. hvað hann segir um þetta álit sem kemur frá starfsmönnum Hollustuverndar og fleira það sem ég hef hér talið upp og vísað í, hvort hæstv. heilbrrh. telur enga ástæðu til að taka tillit til þess sem þessir aðilar segja. Þeir tala af margra ára reynslu og eru auðvitað þeir aðilar í þjóðfélaginu sem best þekkja til þessara mála. Á ég að trúa því að hæstv. heilbrrh. ætli sér alveg að skella skollaeyrum við því sem þessir aðilar segja?
    Dýralæknafélag Íslands hefur sent allshn. sína umsögn og þar segir svo:
    ,,Dýralæknafélag Íslands telur að stofna skuli

heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti. Verksvið mengunarvarna og heilbrigðiseftirlits eru nátengd og óskynsamlegt að þau verði aðskilin. Þess vegna telur félagið að ekki skuli skilja að Hollustuvernd ríkisins með því að færa mengunarvarnasvið hennar yfir í umhverfisráðuneyti. Matvælaeftirlit ber að vera í heilbrmrn. en ekki í umhverfisráðuneyti.``
    Heilbrigðisfulltrúafélagið hefur einnig sent ítarlega ályktun. Ég hef getið um hluta af þeirra samþykkt. Þeir segja hér m.a.:
    ,,Sú staðreynd að framleiðsla matvæla er mikilvægasta framleiðslugrein landsmanna hefur tengt saman eftirlit á sviði mengunarmála og hollustuhátta. Heilbrigðisfulltrúar vinna nú að umhverfiseftirliti mengunarvarna og heilbrigðiseftirliti. Því starfi verður ekki skipt upp milli ráðuneyta með góðu móti. Nefna má sem dæmi tengsl matvælaframleiðslu og umhverfismengunar, svo sem nýlega salmónellumengun í sauðfjárafurðum, heilnæmi neysluvatns, smithættu frá slæmri umgengni um sorp, umferðarhávaða í íbúðabyggð sem veldur streitu og truflun á svefni, frágang frárennslis, merkingar á eiturefnum og hættulegum efnum. Ef umhverfiseftirlit verður tekið úr fyrra samhengi þar sem þekking á aðstæðum og staðháttum hefur orðið til getur orðið verr af stað farið en heima setið.``
    Þeir velta einnig fyrir sér hugsanlegum flutningi mengunarvarnasviðsins sem ég á kannski ekki að vera að eyða svo mörgum orðum í því að ég reikna ekki með, satt að segja, að till. Kvennalistans verði samþykkt. Um þetta segja þeir:
    ,,Ef mengunarvarnasvið Hollustuverndar ríkisins, sem aðeins fer með hluta af mengunarvarnastarfi því sem lögin um hollustuþætti og heilbrigðiseftirlit mæla fyrir um, verður flutt til umhverfisráðuneytis verða málefni mengunarvarna og umhverfiseftirlits eftir sem áður að verulegum hluta í heilbr.- og trmrn. Því markmiði að stefna að nánari samvinnu og markvissari vinnubrögðum þeirra aðila sem vinna að þessum málum verður því ekki náð.``
    Þeir ítreka hér að Heilbrigðisfulltrúafélagið telur ekki rétt að Hollustuvernd ríkisins eða málefni heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga verði færð til umhverfisráðuneytis.
    Eiturefnanefnd hefur einnig tjáð sig um málið varðandi 13. gr. sem við leggjum til að verði felld brott og segir svo:
    ,,Eiturefnanefnd ítrekar þá skoðun sína að með breytingu á yfirstjórn og framkvæmd laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, og laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sé verið að færa málaflokka undir umhverfisráðuneyti sem eru í raun heilbrigðismál.`` Eiturefnanefnd lýsir því andstöðu sinni.
    Við leggjum einnig til að 9., 10., 11. og 12. gr. frv. falli brott.
    11. gr. fjallar um að yfirstjórn laga um bann við losun hættulegra efna í sjó sé flutt frá sjútvrn. til umhverfisráðuneytis.
    9. gr. fjallar um að yfirstjórn laga um varnir gegn

mengun sjávar sé flutt frá samgrn. til umhverfisráðuneytis.
    10. gr.: Yfirstjórn laga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu sé flutt frá samgrn. til umhverfisráðuneytis.
    12. gr.: Sá þáttur Siglingamálastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 20 30. apríl 1986, sem snertir varnir gegn mengun sjávar, er fluttur frá samgrn. til umhverfisráðuneytis.
    Siglingamálastofnun hefur látið í té umsögn og telur ástæðu til að taka fram að stofnunin hafi hvergi lýst þeirri skoðun ,,að nauðsynlegt væri að setja á fót sérstakt umhverfisráðuneyti til þess að fara með yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands. Þvert á móti hefur þeirri skoðun verið lýst að árangur opinberrar stefnu í umhverfisvernd muni á hverjum tíma ráðast frekar af vilja löggjafans til lagasetningar og útvegunar fjármagns til verkefnanna en með hvaða hætti yfirstjórn málaflokksins er komið fyrir innan stjórnkerfisins. Vissulega hlýtur að skipta þar meginmáli, eigi að tryggja á hagkvæman hátt virka umhverfisvernd, að það takmarkaða fjármagn sem til ráðstöfunar er af almannafé nýtist sem best.
    Þetta er nefnt hér í upphafi vegna athugasemda er koma fram í grg. með frv. til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og kunna að gefa ranga hugmynd af viðhorfum stofnunarinnar til stofnunar umhverfisráðuneytis.``
    Hér segir áfram: ,,Siglingamálastofnun ríkisins hefur allt frá árinu 1961 haft með höndum ákveðið eftirlit með mengun sjávar hér við land. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um hvaða mál skuli telja til umhverfismála er tæpast nokkur ágreiningur um að mengunarmál er einn helsti málaflokkur umhverfismála. Það er einnig augljóst að verndun hafsvæðanna umhverfis landið gegn mengun er eitt af helstu hagsmunamálum þjóðarinnar. Vegna dreifðrar byggðar í landi og vegna þess að lítið er hér um mengandi iðnað en á hinn bóginn tiltölulega mikið um skipaferðir á hafsvæðinu umhverfis landið er vægi mengunar frá skipum mun meira hér við land en gerist hjá nágrannaþjóðum þar sem mengun frá iðnaði og landbúnaði eiga stærstan þátt í sjávarmengun. Önnur mengunarhætta á hafsvæðinu í kringum landið er fyrst og fremst vegna losunar úrgangs í sjó frá öðrum ríkjum og hingað berst um loftveg eða með hafstraumum. Báðum þessum þáttum höfum við Íslendingar sinnt og verulegur árangur náðst þó vissulega megi enn betur gera.``
    Hér segir svo áfram:
    ,,Ýmislegt bendir til að mengun af völdum þrávirkra hættulegra efna sem ógna hvað mest lífríki á öðrum hafsvæðum sé lítil sem engin hér við land. Til að
ganga þó rækilega úr skugga um raunverulegt ástand hafsvæðisins umhverfis Ísland að þessu leyti er nú hafin víðtæk athugun á tilvist þessara mengunarefna í mengunarlögsögunni undir stjórn samgrn. Athugun þessi sem standa mun yfir til ársloka 1992 er unnin í samvinnu við ýmsar rannsóknastofnanir í landinu. Er

leitast við að nýta sem best þá rannsóknaraðstöðu sem fyrir hendi er þannig að kostnaður vegna verksins verði í lágmarki.
    Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi þar sem jafnan hefur verið lögð megináhersla á að ná fram auknum takmörkunum á losun úrgangs í sjó hefur hingað til farið fram undir yfirstjórn samgrn. í samráði við utanrrn. Má benda á nokkur dæmi um bein áhrif Íslands á þróun innan alþjóðasamtaka til takmörkunar á losun þrávirks úrgangs í sjó. Þessi atriði telur stofnunin rétt að benda á nú þegar umfjöllun um þau frv. sem hér um ræðir fer fram á hv. Alþingi.``
    Ég sé ekki ástæðu til að taka meira upp úr umsögn siglingamálastjóra, en hún er mjög ítarleg. Siglingamálastjóri, Magnús Jóhannesson, kom auk þess á fund allshn., ásamt Gunnari Ágústssyni, og lýsti þar einnig skoðunum sínum. Hann taldi reyndar að frv. það sem við sjálfstæðismenn fluttum í haust væri eðlilegri kostur þar sem það væri byggt á fyrra starfi og engin efnisleg rök mæltu með því að breyta svo til sem lagt er til í þessu frv.
    Hann nefndi þar einmitt að búið væri að koma á á vegum Siglingamálastofnunarinnar ákveðnu kerfi. Það væru skoðunarmenn um allt land og þetta kerfi orðið býsna fast í forminu. Hann benti þar einnig á að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi væru andvígir þessari breytingu.
    Ég nefni svo í þessu sambandi, af því að hér er verið að leggja til af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka þennan málaflokk frá samgrn., að samgrn. hefur látið í té stutta umsögn og segir hér:
    ,,Ráðuneytið sendi umsögn sína um tillögur varðandi væntanlegt umhverfisráðuneyti til nefndarinnar sem samdi tillögurnar með bréfi, dags. 27. okt. 1989 [og það fylgdi hér með]. Ekkert hefur síðan gerst í þessum málum sem breytir afstöðu ráðuneytisins. Rétt er þó að undirstrika enn frekar óhagræðið af því að Siglingamálastofnun ríkisins skuli skipt milli tveggja ráðuneyta þvert ofan í allar algildar stjórnunarreglur.`` Þetta er undirstrikað af hálfu samgrn. Það er að vísu tekið fram í lok þessa bréfs að þetta álit sé á ábyrgð embættismanna ráðuneytisins en ekki hæstv. ráðherra og má það svo sem vera skiljanlegt.
    Þá leggjum við til að 14. gr. frv. verði felld brott en hún fjallar um að Geislavarnir ríkisins skuli fluttar frá heilbrrn. Og nú sakna ég hæstv. heilbrrh. Ef hann væri í húsinu mundi það hlýja mér um hjartaræturnar að sjá hann í salnum.
    Ég átti eftir að gera grein fyrir einni brtt. sem varðar heilbrrn. Það er tillaga okkar um að 14. gr. frv. um Geislavarnir ríkisins falli brott.
    Í umsögn Geislavarna ríkisins, stjórnarformanns og forstöðumanns, segir m.a.:
    ,,Í október sl. þegar óskað var umsagnar stofnunarinnar um frumvarpsdrög nefndar forsrn., er 128. og 129. mál byggja á, var sérstaklega tekið fram að ekki væri óskað eftir því að fjallað yrði sérstaklega um og afstaða tekin til stofnunar umhverfisráðuneytis. Í meðfylgjandi umsögn, dags. 23. okt., var því

eingöngu fjallað um það hvort rétt væri að flytja yfirstjórn Geislavarna ríkisins frá heilbr.- og trmrn. til umhverfisráðuneytis. Í fyrrgreindri umsögn stjórnar stofnunarinnar kemur sú skoðun skýrt fram að ekki sé rétt að flytja yfirstjórn stofnunarinnar þar sem langstærsti hluti verkefna hennar sé á sviði heilbrigðismála. Jafnframt var á það bent að yfirstjórn geislavarnastofnana Danmerkur og Noregs er í höndum heilbrigðisráðuneyta landanna þrátt fyrir að þar séu starfandi umsvifamikil umhverfisráðuneyti. Þar sem nefnd forsrh. tók ekkert tillit til sjónarmiða stjórnar stofnunarinnar skulu þau sérstaklega áréttuð en að öðru leyti er vísað til fyrrgreindrar umsagnar.
    Geislavarnir ríkisins leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að leitað verði víðtækrar samstöðu um stjórnskipulegt fyrirkomulag umhverfismála, svo og að fullt samráð verði haft við þá aðila er málið skiptir mestu.``
    Undir þetta rita Magnús Magnússon prófessor, stjórnarformaður, og Sigurður M. Magnússon forstöðumaður.
    Fleiri aðilar hafa tjáð sig um þennan þátt frv., þar á meðal landlæknir. Hann hefur sent umsögn og kom auk þess á fund nefndarinnar. Í bréfi landlæknis segir svo:
    ,,Í stuttu máli telur landlæknir að Geislavarnir ríkisins, svo og Hollustuvernd ríkisins eigi áfram að heyra undir yfirstjórn heilbrigðismála, enda yfirgnæfandi meiri hluti verkefna þessara tveggja stofnana á sviði heilbrigðismála og hluti heilbrigðisþjónustunnar í landinu.`` Og svo kemur dálítið smellin setning hjá landlækni sem ég bið hæstv. ráðherra að hlusta alveg sérstaklega á. Hún er þessi: ,,Væri mjög misráðið ef hagsmunum þessara tveggja stofnana væri fórnað á taflborði tímabundinna vandamála í stjórnmálum og á engan hátt til framdráttar fyrir átak í umhverfismálum sem þó er mjög þarft.`` (Gripið fram í.) En væri nú ekki ráð fyrir hæstv. ráðherra að líta
aðeins á þessa setningu og skoða hug sinn um það hvort það sé ekki einmitt þetta sem verið er að gera með frv. Það er verið að fórna ákveðnum hagsmunum til þess að leysa tímabundin vandamál í stjórnmálum á Íslandi sem á engan hátt, eins og landlæknir segir, geta verið ,,til framdráttar fyrir átak í umhverfismálum sem þó er mjög þarft``. Landlæknir segir hér áfram:
    ,,Leitast er nú við um allan heim að breyta áherslum í heilbrigðismálum frá lækningum í forvarnir. Lykilatriði í því sambandi er að uppfræða almenning um heilbrigt líf og skapa þær forsendur að almenningi sé eðlilegra að velja heilbrigða lífshætti en heilsuspillandi. Óspillt náttúra, góð fæða, heilnæmt andrúmsloft og góð almenn lífskjör eru veigamiklar forsendur þess að takast megi að breyta áherslum á þann veg sem að er stefnt. Önnur veigamikil forsenda
er góð heilbrigðisþjónusta sem þjónar fólkinu í landinu. Hluti þeirrar heilbrigðisþjónustu eru Geislavarnir ríkisins og Hollustuvernd ríkisins.``
    Þetta segir landlæknir. Og ég vænti nú þess að alla

vega hæstv. heilbrmrh. taki eitthvert mark á því sem landlæknir lætur frá sér fara um þetta veigamikla atriði.
    Einnig hefur borist bréf frá Landspítalanum, röntgendeild Landspítalans, undirritað af Ásmundi Brekkan, prófessor í geislalæknisfræði og forstöðumanni röntgendeildar Landspítalans. Örn Smári Arnaldsson, yfirlæknir röntgendeildar Borgarspítala, ritar einnig undir og Þorkell Bjarnason, yfirlæknir röntgendeildar Landakotsspítala. Þetta er sem sagt frá þessum þremur spítulum en ekki aðeins Landspítalanum. Þar segir þegar vísað er til þessa frv.:
    ,,Þar er gert ráð fyrir að Geislavarnir ríkisins verði í heild felldar undir hið nýja ráðuneyti. Af því tilefni leyfum við undirritaðir okkur að koma því á framfæri við allshn. Alþingis að við teljum slíka ráðstöfun mjög misráðna. Leyfum við okkur því að beina því til nefndarinnar að áhrifum hennar verði beitt til þess að Geislavarnir ríkisins tengist heilbrrn. og landlæknisembætti svo sem verið hefur.``
    Nú tókst ekki í hv. allshn. að fá fram nein áhrif þaðan til þess að þessum ákvæðum yrði breytt, en við í minni hl. nefndarinnar gerum hér enn tilraun til þess að gera þingdeildinni grein fyrir hvað hér er á ferðinni í von um að okkar brtt. verði samþykkt. Það segir hér áfram í bréfi yfirlæknanna:
    ,,Röksemdir fyrir þessari ósk eru fyrst og fremst þær að langstærsta og veigamesta verkefni stofnunarinnar er á sviði heilbrigðismála og tengist geislagreiningu og meðferð á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Raunar má segja að tilvera stofnunar eins og Geislavarna á að öllu leyti rök í þeirri staðreynd að óheft og eftirlitslaus notkun jónandi geislunar er heilbrigðisvandamál. Þar að auki: Aukaverkanir jónandi geislunar eru allar líffræðilegs eðlis og til skemmda á líkamsvefjum þeirra er fyrir verða.
    Rétt er að benda á að samkvæmt samþykktum ICRP, Alþjóðageislavarnanefndarinnar, svo og reglugerðum og starfsháttum nágrannalanda okkar, eru þau sjónarmið ríkjandi að geislavarnastarfsemi sé í eðli sínu tengd heilbrigðismálum og heilsugæslu. Geislavörnum í Svíþjóð hefur að vísu verið markaður bás með orkumálum og tengist hugmyndum um vaxandi kjarnorkuframleiðslu, en raunverulegt starfssvið liggur þar sem annars staðar í heilbrigðisþjónustunni. Við undirritaðir skorum því á hv. allshn. Alþingis að Geislavarnir ríkisins megi áfram halda eðlilegum sess sínum í tengslum við ráðuneyti heilbrigðismála.``
    Eins og ég sagði fór það svo að það var aðeins minni hluti allshn. sem varð við þessum tilmælum með því að flytja þessa brtt.
    Ég hef einnig í höndum bréf frá Röntgentæknafélagi Íslands, undirritað af Guðrúnu Friðriksdóttur, formanni þess, og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Aðalfundur Röntgentæknafélags Íslands, haldinn 24. okt. 1989, mótmælir þeim áformum að flytja Geislavarnir ríkisins frá heilbrrn. til væntanlegs

umhverfisráðuneytis. Starfsemi Geislavarna ríkisins er fyrst og fremst á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og öðrum heilbrigðisstofnunum, einkum vegna notkunar röntgentækja og geislavirkra efna. Því er sjálfsagt að Geislavarnir ríkisins heyri áfram undir heilbrrn., enda er það í samræmi við fyrirkomulag geislavarna annars staðar á Norðurlöndum.
    Röntgentæknafélag Íslands skorar á heilbrrh. Guðmund Bjarnason að hann beiti sér fyrir því að hætt verði við flutning Geislavarna ríkisins yfir í umhverfisráðuneyti.`` Og mig langar til að heyra hvað hæstv. heilbrmrh. segir um þessa áskorun Röntgentæknafélags Íslands, hvort hann vill verða við þessari áskorun eða hvort þetta er eins og annað sem komið hefur fram hjá þeim sem mest vita um þessi mál, að það verði algjörlega látið sem vindur um eyru þjóta. Ég bæti því hér við að forstöðumaður Geislavarna ríkisins upplýsti okkur t.d. um það á fundi allshn. að Geislavarnir hefðu eftirlit með 600 starfsmönnum sem vinna við röntgentæki í landinu.
    Ég læt þetta nægja sem rökstuðning fyrir þessari tillögu okkar um að 14. gr. frv. falli brott.
    Þá er eftir að gera grein fyrir tillögu okkar um að 18. gr. frv. falli brott, þ.e. að yfirstjórn Veðurstofu samkvæmt lögum nr. 30 7. júní 1985 verði
flutt frá samgrn. til umhverfisráðuneytis. Allshn. barst umsögn frá veðurstofustjóra, Páli Bergþórssyni, og þar segir svo:
    ,,Aðalatriðið í svari mínu verður umsögn um þá tillögu sem kemur fram í 128. og 129. máli að yfirstjórn Veðurstofu Íslands verði flutt frá samgrn. til fyrirhugaðs umhverfisráðuneytis. Þegar á allt er litið er ég andvígur þessari tillögu og skulu nú helstu ástæður fyrir þeirri afstöðu raktar lið fyrir lið.
    1. Í lista yfir þau málefni og stofnanir sem lagt er til að heyri undir umhverfisráðuneyti má segja að Veðurstofa Íslands (og e.t.v. Landmælingar Íslands) hafi verulega sérstöðu. Flestar aðrar stofnanir og málefni sem þar eru talin eru óumdeilanlega beinlínis tengd náttúruvernd og heilbrigðiseftirliti að meira eða minna leyti og því eðlilegt að þau falli undir nýja ráðuneytið. Veðurstofan hefur aftur á móti að langmestu leyti það þjónustuhlutverk að gefa almenningi upplýsingar um veður og skyld fyrirbæri sem flest eru þess eðlis að ekki stendur í mannlegu valdi að hafa áhrif á þau nema að harla litlu leyti [segir veðurstofustjóri og hittir nú naglann á höfuðið].
    2. Þær stofnanir sem Veðurstofan hefur langsamlega mest fjárhagsleg samskipti við auk ríkisins eru Póst- og símamálastofnunin og Alþjóðaflugmálastofnunin. Síminn og önnur fjarskipti hafa frá upphafi verið lífæðakerfi í veðurþjónustu, að sjálfsögðu undir yfirstjórn samgrn., og því er æskilegt að báðar stofnanir lúti sömu stjórn. Þarna er um að ræða bæði söfnun veðurskeyta og dreifingu veðurfregna, svo sem um loftskeytastöðina í Reykjavík og strandstöðvar Landssímans, en þess ber þó að geta að útvarpsstöðvar koma líka við þessa sögu. Alþjóðastofnun flugmála leggur Veðurstofunni árlega til verulegar upphæðir, yfir 20% af rekstrarkostnaði

Veðurstofunnar, en einnig renna verulegar fjárhæðir frá þessari alþjóðastofnun til símans og Flugmálastjórnar. Því liggur beint við að sama ráðuneytið fylgist með þessum mikilvægu alþjóðlegu fjárveitingum hjá öllum þessum stofnunum og kemur þá ekki annað til greina en samgrn.
    3. Auk þess sem nefnt var í lið 2 hefur Veðurstofan mikið samstarf við Vitamálastofnun og Flugmálastjórn. Á 13 veðurstöðvum er veðurathugunarmaður jafnframt vitavörður og það léttir þessi samskipti að Veðurstofan heyri undir samgrn. eins og Vitamálastofnun gerir. Mikil upplýsingaskipti fara fram milli Veðurstofu, Flugmálastjórnar og flugfélaga og hefur samgrn. greitt á ýmsan hátt fyrir þeim samskiptum.`` Allt rennir þetta stoðum undir það, eins og veðurstofustjóri er að segja, að Veðurstofan eigi auðvitað heima undir samgrn. og eigi að vera þar áfram.
,,4. Þó að Veðurstofan þjóni landbúnaði með veðurspám og ýmissi annarri atvinnustarfsemi með margvíslegum upplýsingum er það mjög áberandi að veðurspár séu í þágu samgangna. Þar ber fyrst að nefna flugið en þjónusta við sjómenn er ekki lítilvægari og einhver helstu not alls almennings af veðurspám snerta eimitt ferðalög, hvort sem er í atvinnuskyni eða til þess að njóta orlofs á faraldsfæti á hálendi eða í byggðum.
    5. Ætla mætti að í nágrannalöndum hafi menn komist að svipaðri niðurstöðu og hér hefur verið reifuð að veðurstofur heyri eðlilega undir samgönguráðuneyti þó að önnur sjónarmið geti að sumu leyti komið til greina. Þetta sannast vel á eftirfarandi töflu sem er gerð eftir skýrslu Alþjóðlegu veðurfræðistofnunarinnar árið 1985. Sá fjöldi landa er yfirgnæfandi þar sem samgönguráðuneyti fer með mál Veðurstofu en næst koma mennta- og hermálaráðuneyti.`` Og í þessari töflu kemur fram að í níu löndum, sem hér eru talin upp, er það samgönguráðuneytið sem hefur yfirstjórn veðurstofanna. Í þremur löndum er það mennta- og vísindaráðuneyti, í tveimur löndum hermálaráðuneyti og í einu er það innanríkisráðuneyti, í einu landi landbúnaðarráðuneyti, í einu landi viðskiptaráðuneyti og í aðeins einu landi, Kanada, heyrir veðurstofa til umhverfisráðuneyti.
,,6. Auk þess sem hér hefur verið rakið eru það líka rök út af fyrir sig að margra áratuga góð reynsla hefur fengist af því að Veðurstofan heyri undir samgrn. Starfsfólk þess hefur góða þekkingu og skilning á starfsemi Veðurstofunnar og það er nokkur ábyrgðarhluti að rifta fyrirkomulagi sem svo vel hefur gefist.``
    Veðurstofustjóri reynir nú að finna einhver rök sem kynnu að vera fyrir því að Veðurstofan yrði færð undir eitthvert annað ráðuneyti en samgrn. Ég verð að segja að honum gengur það að vísu ekki mjög vel, sem ekki er von, að finna þessi rök, en hann segir svo:
    ,,Áður var nefnt að með veðurspám og öðrum upplýsingum er landbúnaði þjónað og tilheyrandi

ráðuneyti gæti af þeim ástæðum tekið að sér Veðurstofuna.`` Ekki svo vitlaus hugmynd, kannski. ,,Sjútvrn. kæmi líka til greina. Jafnvel menntmrn. vegna útvarps veðurfregna,,, og þetta þykir mér nú skondnasta röksemdin, að Veðurstofan færi undir menntmrn. bara vegna þess að veðurfregnum er útvarpað. Mér finnst þetta eiginlega betri rök en nokkur önnur að færa Veðurstofuna. Ég finn satt að segja engin, bara alls engin rök fyrir því að færa hana til umhverfisráðuneytis. En veðurstofustjóri segir hér:
    ,,Þá er að geta um umhverfisráðuneyti sem einmitt er fjallað um í skjölum þeim sem eru hér til umsagnar. Einn en tiltölulega lítill þáttur í starfsemi Veðurstofunnar er söfnun regnvatns og annarra sýna til athugana á loftmengun. Annað eru mælingar á heildarmagni ósons í gufuhvolfinu, en þær eru mikilvægt framlag til alþjóðlegra rannsókna á ósoni og hafa staðið í meira en 30 ár.`` Þetta virðist hafa getað gengið án þess að við hefðum nokkurt umhverfisráðuneyti, að mæla ósonið í gufuhvolfinu í 30 ár, og ekkert umhverfisráðuneyti. ,,Þá má nefna að Veðurstofan er sú stofnun hérlend sem helst getur rannsakað ferla loftmengunar. Þessi starfsemi, mengunarmælingar, ósonmælingar og útreikningur mengunarferla, getur talist til umhverfisrannsókna, en þær eru þó svo hverfandi þáttur í starfi Veðurstofunnar að þær eru lítilvæg rök gegn því að Veðurstofan tilheyri samgrn. fremur en hinu fyrirhugaða umhverfisráðuneyti. Þessar rannsóknir eru líka nokkuð annars eðlis en sú starfsemi að hefta mengun. Um þær gildir því að mestu það sama og um aðra þjónustustarfsemi Veðurstofunnar sem felst í upplýsingum fremur en umhverfisvernd.
    Niðurstaða mín er því sú að yfirgnæfandi rök séu fyrir því að Veðurstofan tilheyri samgrn. eins og verið hefur og hún er samhljóða áliti fyrirrennara míns, Hlyns Sigtryggssonar.``
    Þetta segir veðurstofustjóri, Páll Bergþórsson, í sinni umsögn.
    Veðurstofustjóri kom einnig á fund nefndarinnar og áréttaði þar þessa skoðun sem fram kom í umsögn hans.
    Samgrn. hefur líka tjáð sig um þetta atriði og segir hér í bréfi ráðuneytisins frá 27. okt. sl. til aðstoðarmanns forsrh.:
    ,,Að mati ráðuneytisins mæla engin rök með því að Veðurstofa Íslands skuli flutt undir umhverfisráðuneyti. Vill ráðuneytið í því sambandi m.a. benda á víðtækt samstarf sem Veðurstofan hefur við aðrar stofnanir sem undir ráðuneytið heyra, svo sem Vitastofnun Íslands, Póst- og símamálastofnun og Flugmálastjórn. Hætt er við að slíkt samstarf yrði erfiðara í framkvæmd ef Veðurstofan heyrir undir annan ráðherra en þessar stofnanir. Jafnframt vill ráðuneytið benda á að í 19 nálægum löndum heyrir veðurþjónusta þar aðeins í tveimur tilvikum undir umhverfisráðuneyti en oftast undir samgrn. [eða í níu tilvikum eins og ég gat um hér áðan]. Ráðuneytið lýsir sig því algerlega andvígt því að Veðurstofan verði flutt undir umhverfisráðuneytið.``

    Þetta er nú umsögn samgrn. en samt er þetta lagt til í frv. ríkisstjórnarinnar um verkefnaflutning til umhverfisráðuneytisins og fer nú að verða dálítið erfitt að henda reiður á því hvað menn eru í raun og veru að gera. Það virðist svo sem þeir viti það ekki sjálfir, hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands.
    Ég hef nú lokið við að fara yfir brtt. okkar en ég ætla að bæta hér aðeins við nokkrum punktum úr umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar en hún sendi allshn. bréf dags. 5. jan. sl. Þar segir svo:
    ,,Fjárlaga- og hagsýslustofnun telur það vera höfuðhlutverk sitt að benda á hvaða kostnaður hljótist af umhverfisráðuneyti. Skal þess getið að reynsla nágrannalandanna gefur til kynna að slíkt ráðuneyti byrji í smáum stíl en verði fljótlega eitt stærsta ráðuneytið. Því er okkur Íslendingum mikilvægt að læra af þeirri reynslu og halda í slíkan kostnað þegar frá upphafi. Því þykir stofnuninni rétt að benda á að í frv. vantar alla tilfærslu á stöðugildum og rekstrarfé frá ráðuneytum sem fram að þessu hafa haft með stjórn einstakra umhverfisþátta að gera. Með nokkrum rétti heyrir slíkt undir fjárlög en reynslan af tilfærslu verkefna milli stofnana í fjárlagagerð bendir ótvírætt til þess að nýja stofnunin fær fjárveitingu til þess verkefnis sem til hennar flyst en gamla stofnunin verður ekki fyrir sömu lækkun á móti. Um þetta eru mörg dæmi, t.d. flutningur utanríkisviðskipta frá viðskrn. til utanrrn.``
    Svo segir Fjárlaga- og hagsýslustofnun hér: ,,Til að forða því að togstreita fjárlagagerðar verði til þess að svona fari aftur er allshn. bent á að bæta við sérstöku ákvæði í frv. á þá leið að stofnun umhverfisráðuneytis verði að fylgja tilflutningur á stöðugildum og rekstrarfé frá öðrum ráðuneytum í samræmi við minni verkefni þeirra. Má það ákvæði ógjarnan vera í því formi að það breyti nýsettum fjárlögum. Býðst Fjárlaga- og hagsýslustofnun til að gera um þetta áætlun fyrir nefndina ef hún vill láta verða af þessu.``
    Það var að sjálfsögðu ekki farið fram á við Fjárlaga- og hagsýslustofnun að gera þessa áætlun. Það var enginn áhugi fyrir því hjá meiri hl. allshn. Kannski hefði minni hl. átt að biðja Fjárlaga- og hagsýslustofnun um þetta, gjarnan vildum við þiggja ráð þessarar stofnunar, en ef hins vegar okkar tillögur verða samþykktar þá er þessi tilfærsla svo lítið mál í raun og veru að ákvæði um tilflutning á stöðugildum skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. En það skiptir hins vegar miklu máli ef frv. verður samþykkt óbreytt. Og út af fyrir sig hefði verið fróðlegt að heyra hvað hæstv. fjmrh. hefði um þetta að segja. Ég er ekki að biðja um að það verði kallað á hann en það væri fróðlegt að heyra hans álit á þessu máli og hvort hann telur t.d. að þetta álit
stofnunar sem undir hann heyrir, Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sé einskis virði og ekkert eigi með það að gera.
    Herra forseti. Ég hef sem sagt gert grein fyrir brtt. minni hl. allshn. Einhver kann að ætla að hérna sé eitthvert gamanmál á ferðum þegar lagt er til að brott verði felld úr frv. þau ákvæði er varða flutning

viðfangsefna úr heilbr.- og trmrn., sjútvrn. og samgrn. Það sé heldur lítið eftir í raun og veru af frv. Það munar auðvitað mest um Hollustuvernd ríkisins sem samkvæmt okkar tillögum yrði áfram í heilbr.- og trmrn. Menn spyrja þá kannski hvort það verði yfirleitt nokkuð að gera með þetta ráðuneyti ef okkar tillögur yrðu samþykktar.
    Það er auðvitað enn skoðun okkar að stofnun ráðuneytisins hafi verið óþörf en hún er þó staðreynd, ráðuneytið hefur verið stofnað. Brtt. okkar, sem ég hef hér gert grein fyrir, miða að því að koma í veg fyrir að þetta nýja ráðuneyti verði sama báknið og það hefur orðið hér alls staðar í kringum okkur. Samkvæmt þessu frv. ef að lögum verður eins og við leggjum til að það verði og með hliðsjón af þeirri reglugerð sem gefin hefur verið út um breytingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands þá virðist satt að segja að næg verkefni bíði hæstv. umhverfisráðherra svona fyrsta kastið. Þessi reglugerð hefur verið staðfest og gefin út 23. febr. og þar segir svo:
    ,,Umhverfisráðuneytið fer með mál er varða
    1. Alhliða umhverfisvernd, eftirlit með náttúruvernd, gróðurvernd og mengunarvörnum, svo og gerð landnýtingaráætlana í samráði við önnur ráðuneyti, sveitarstjórnir og stofnanir.
    2. Samræmingu aðgerða ráðuneyta, ríkisstofnana og sveitarfélaga við framkvæmd umhverfismála, svo sem varðandi löggjöf um losun úrgangsefna og varnir gegn loft-, hávaða-, titrings-, geislunar-, ljóss-, varma- og lyktarmengun.
    3. Fræðslu- og upplýsingastarfsemi um umhverfismál.
    4. Umhverfisrannsóknir í samstarfi við stofnanir sem starfa að umhverfismálum.
    5. Alþjóðasamskipti á sviði umhverfismála.``
    Þetta er í sjálfu sér ekkert svo lítið verkefni sem hinu nýja umhverfisráðuneyti er þarna falið með reglugerð einni. Þurfti að vísu ekki umhverfisráðuneyti til þess. Það hefði t.d. verið hægt að fela hagstofuráðherra þessi viðfangsefni, það hefði vel verið hægt. ( Gripið fram í: Hann hefur það verkefni.) Hann hefur verkefni, já, hann hefur verkefni, það er alveg ljóst. Ég var að telja það upp. Hv. þm. hefur kannski ekki lesið þessa reglugerð fremur en umsagnirnar sem hann átti að fara yfir í hv. allshn. Það er þá upplýsandi fyrir hann að heyra þetta. Sem sagt, með þessum verkefnum sýnist mér að umhverfisráðuneytið hafi fengið þó nokkuð að gera og ég legg þar áherslu á t.d. eitt atriði. Það er fræðslu- og upplýsingastarfsemin um umhverfismál sem er afar mikilvægur þáttur. Og eins og kom reyndar fram, og ég gat um í ræðu minni hér í dag, hjá ráðuneytisstjóranum norska sem kom hingað á sl. hausti, að ef fræðslan væri aukin nægilega kynni svo að fara að það þyrfti ekkert umhverfisráðuneyti ef menn væru fræddir nægilega mikið um umhverfismál og tækju mið af þeirri fræðslu.
    Samkvæmt þessu ætti sem sagt hæstv. umhverfisráðherra að hafa nóg að gera á næstunni. Nú þykir mér verst að hann skuli vera farinn úr salnum

því að ég ætlaði að bæta við að hann hefði nægilegt að gera þann tiltölulega skamma tíma sem hann á eftir sem ráðherra í þessari ríkisstjórn. Verði tillögur okkar samþykktar þá liggur það svo sem í augum uppi að það er ekki þörf á sérstökum ráðherra til þess að sinna umhverfisráðuneytinu einu og sér. Framtíðin mun hins vegar skera úr um hvort eða hvenær þetta ráðuneyti yrði sameinað öðru.
    Ég lýk nú máli mínu, herra forseti. Það fer svo eftir því hvernig afgreiðslu brtt. okkar fá hver málflutningur okkar verður við 3. umr. málsins.