Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil, sem einn af fulltrúum í Vestnorræna þingmannaráðinu, þakka þessar undirtektir og að þessi tillaga skuli nú vera komin til afgreiðslu á hv. Alþingi. Um tíma var Vestnorræna þingmannaráðið farið að örvænta um að þær tillögur og ályktanir sem gerðar voru á fundum þess mundu ná fram að ganga eða hafa einhver áhrif. Þar kom að þingmannaráðið ákvað að freista þess að fá tillögur sínar eða ályktanir teknar inn í þingsályktanir á þingum þjóða sinna, á Alþingi Íslendinga og á þingum Færeyinga og Grænlendinga.
    Ég er því ákaflega ánægður með þau tímamót sem hér eru að verða í starfi Vestnorræna þingmannaráðsins sem loks hefur fengið áheyrn hjá hv. Alþingi og að loks skuli ályktanir ráðsins koma til afgreiðslu á hinu virðulega Alþingi okkar Íslendinga.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna einn þátt þessarar ályktunar, yfirlýsinguna í lok ályktunarinnar. Ég persónulega tel mikilvægasta þáttinn í starfi Vestnorræna þingmannaráðsins að vekja athygli á þeirri ógn sem stórveldin leyfa sér að hafa í frammi við þessar þrjár smáþjóðir í Norður-Atlantshafi sem eiga allt sitt undir fiskveiðum.
    Ég vil minna á að íslensk stjórnvöld hafa því miður á undanförnum árum haft sig allt of lítið í frammi til að mótmæla því gerræði, þeim hroka og þeim dónaskap sem stórveldin sýna þessum smáþjóðum, sem byggja tilveru sína á fiskveiðum, með því að hafa herskip sín kjarnorkuknúin með kjarnorkuvopn á stöðugum ferðum um hafsvæði og veiðislóðir þessara þjóða. Þetta er með öllu óþolandi ástand og íslensk stjórnvöld eiga að taka miklu harðar á þessu máli en þau hafa gert á undanförnum árum.
    Ég verð að segja það að í hvert skipti sem við ræðum þetta mál hitnar mér í hamsi. Ástæðan fyrir því er einföld. Ég hef séð tölur um ferðir kjarnorkuknúinna skipa umhverfis Ísland og um sundið á milli Íslands og Grænlands. Það eru óhugnanlegar tölur sem gefa m.a. til kynna að þegar æfingar eru hjá stórveldunum á þessum hafsvæðum fara allt að 60 kjarnorkuknúin skip um hafsvæðið á milli Íslands og Grænlands á hverjum sólarhring. Okkur hefur verið sagt, sem höfum mótmælt þessu atferli stórveldanna sem fara sínu fram án mótmæla lýðfrjálsra þjóða, að tæknileg fullkomnun komi í veg fyrir það að slys verði um borð í þessum kafbátum og skipum sem eru kjarnorkuknúin. Í þessu sambandi vil ég minna á að af 900 kjarnakljúfum sem til eru í heiminum knýja 500 þeirra skip stórveldanna. Eitt slys sem yrði á þann veg að skip missti út geislavirkt kælivatn af kjarnorkuvél nálægt íslenskri fiskislóð, grænlenskri eða færeyskri mundi valda því að Íslendingar þyrftu ekki að binda um efnahagsleg sár sín næstu áratugi. Þetta er svo alvarlegt mál að ég stórefast um að hið háa Alþingi hafi gert sér minnstu grein fyrir því hvað þarna er á ferð. Og mér finnst ráðamenn taka allt of kæruleysislega og af allt of miklu ábyrgðarleysi á þessu máli. Við skulum muna

það að þessar þjóðir ásamt með öðrum siglingaþjóðum á vesturhveli jarðar hafa undirritað hvers konar samninga gegn mengun sjávar. Ég minni á Parísarsamkomulagið, ég minni á Oslóarsamkomulagið o.s.frv. En herir stórveldanna, herforingjarnir og stjórnendur þessara herja hafa aldrei undirritað samkomulag af nokkru tagi. Þeir fara sínu fram og spyrja hvorki kóng eða prest.
    Kjarnorkuvígbúnaðurinn á Norður-Atlantshafi er einhver mesti kjarnorkuvígbúnaður í heimi. Eftir að samkomulag tókst á milli stórveldanna um fækkun meðaldrægra eldflauga á meginlandi Evrópu eru allar líkur á því að bæði stórveldin hafi fært varnar- og árásarlínur sínar út í Norður-Atlantshaf. Þetta hefur enn aukið á hættuna á stórslysum fyrir smáþjóðir á borð við Íslendinga. Þessi mál hafa einkum og sér í lagi verið rædd á fundum Vestnorræna þingmannaráðsins og menn lýst miklum áhyggjum. Sumir hafa að vísu verið viðkvæmir vegna aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ég vil taka það skýrt fram að ég er stuðningsmaður þess að við séum aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar mótmæli ég því harðlega, og tel mig vera í fullum rétti til þess, að þessar stórþjóðir, þar á meðal Bandaríkjamenn, raunverulega svívirði fullvirðisrétt íslenskrar þjóðar, grænlenskrar og færeyskrar og annarra þjóða sem eiga land að Atlantshafi, með þessu vígbúnaðarskarki sínu á höfunum. Og mér finnst allt of lítil áhersla lögð á að hefja þegar í stað viðræður um afvopnun á höfunum. Þegar hæstv. utanrrh. nefndi það í NATO-ráðinu að hann vildi að þar yrðu teknar upp viðræður um afvopnun á höfunum voru svörin þau að það væri ekki hægt fyrr en gengið hefði verið endanlega frá samkomulagi um afvopnun á meginlandi Evrópu. Ef það verður niðurstaðan þá er fullljóst að viðræður um afvopnun á höfunum hefjast ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir tíu ár. Þá geta mörg slys hafa orðið og þá getur hafa farið svo að afkoma íslenskrar þjóðar hafi verið sköðuð svo alvarlega að úr því verði ekki bættt, a.m.k. næstu áratugi.
    Ég segi þess vegna, virðulegi forseti, að sá þáttur þessarar ályktunar sem ég met mest er viljayfirlýsing fulltrúa þessara þriggja smáþjóða sem skynja
þessa hættu betur en aðrir af því að hún brennur á þeim. Það er þeirra viljayfirlýsing að óska eftir því að við förum fram, þessar þjóðir, með fullum krafti og krefjumst þess af stórveldunum hvar sem er á alþjóðlegum vettvangi að þær hefji þegar í stað viðræður um kjarnorkuafvopnun á höfunum. Ég læt mig einu gilda hvort menn skarka með dísilvélar um höfin en ég er algjörlega mótfallinn og mun berjast gegn því með oddi og egg hvar og hvenær sem er að kjarnorkuknúin skip fari um hafsvæði sem Íslendingar ráða yfir. Það er ljóst, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að Íslendingar hafi fært landhelgi sína, fiskveiðilandhelgi, út í 200 mílur þá er sú landhelgi ekki virt af hernaðaryfirvöldum stórveldanna.
    Ég vil að lokum þakka hv. formanni utanrmn. fyrir að hafa gengið frá þessari tillögu og flutt hana hingað inn á Alþingi og ég vænti þess að hún hljóti

samþykki hið fyrsta.