Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni bæði áhugavert og athyglisvert mál sem atvmn. hefur fjallað um og leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Í grófum dráttum er hér um að ræða svokallaða fjarvinnu sem snýst um það að færa verkefni með ljósleiðurum og tölvutækni nútímans á milli landshluta. Tillagan fjallar um að færa verkefni t.d. frá þjónustustofnunum á Reykjavíkursvæðinu til landsbyggðarinnar og að reyna með því að efla atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Að mínu mati er hér á ferðinni stórmerkilegt mál sem getur breytt til muna því jafnvægisleysi sem ríkt hefur á milli landsbyggðar annars vegar og stórborgarsvæðisins hins vegar. Þarna opnast nýir atvinnumöguleikar fyrir fólk á landsbyggðinni ef ríkisvaldið sér sér fært að flytja verkefni frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar með þeirri nútímatækni sem við ráðum yfir.
    Ég vil í stuttu máli gera grein fyrir því sem rætt hefur verið um í tengslum við þetta merka mál. Ég vil þó fyrst lesa upp nál. eins og það liggur fyrir á þskj. 674 um till. til þál. um nýja atvinnumöguleika á landsbyggðinni, en flm. þessarar till. eru kvennalistakonur og 1. flm. Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Álit atvmn. er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og leggur til að hún verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um tillöguna Jón Erlendsson, forstöðumann Upplýsingaþjónustu Háskólans. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Byggðastofnun, Byggðahreyfingunni Útverði, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Iðnþróunarfélagi Eyjafjarðar hf., Iðnþróunarfélagi Þingeyinga, Kvenfélagasambandi Íslands, Póst- og símamálastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar, Stéttarsambandi bænda, Upplýsingaþjónustu Háskólans, Fjarvinnustofunni Víst sf., Atvinnuþróunarfélagi Austurlands, Iðnþróunarfélagi Norðurlands vestra, iðnráðgjöfum Vesturlands og Suðurlands og Átaksverkefni Vestur-Húnvetninga.
    Með nefndaráliti þessu eru birtir sem fylgiskjöl minnispunktar frá Jóni Erlendssyni og umsögn frá Atvinnuþróunarfélagi Austurlands o.fl.
    Ólafur Þ. Þórðarson og Matthías Á. Mathiesen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk nefndaráliti þessu.``
    Undir nál. rita nöfn sín sá sem hér stendur, hv. þm. Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Geir Gunnarsson og Hreggviður Jónsson.
    Nefndin gerir brtt. á þskj. 675 og er þar um að ræða tvær brtt. Sú fyrri er:
    ,,Við fyrri mgr. tillgr. bætist: svo og hvernig auka megi tölvufræðslu.``
    Og í öðru lagi: ,,Fyrirsögn till. orðist svo: Till. til

þál. um nýja atvinnumöguleika á landsbyggðinni með áherslu á fjarvinnu.``
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja tímann mikið en ég efast um að þáltill., sem a.m.k. ég hef þurft að fjalla um, hafi fengið jafnjákvæðar undirtektir í umsögnum og þessi tillaga. Umsagnir hafa verið ákaflega vandaðar og í þeim kemur fram óhemja af upplýsingum og fróðleik um þá möguleika sem kynnu að opnast með svokallaðri fjarvinnu.
    Ég vil aðeins grípa niður í umsögn og álitsgerð frá Atvinnuþróunarfélagi Austurlands, Iðnþróunarfélagi Norðurlands vestra, iðnráðgjöfum Vesturlands og Suðurlands og Átaksverkefni Vestur-Húnvetninga. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Hin hraðfara þróun tölvu- og upplýsingatækninnar á Íslandi á síðustu árum hefur í allt of litlum mæli komið landsbyggðinni og íbúum hennar að gagni. Að þessu leyti eru Íslendingar skrefi á eftir nágrannaþjóðum sínum sem hafa lagt mikla áherslu á að þessi nýja tækni gæti orðið jaðarbyggðum að gagni. Það hefur nánast orðið tíska að flytja upplýsingatæknina út í jaðarbyggðirnar í hinum vestræna heimi og er orðinn hluti af byggðastefnu þessara landa, fyrst og fremst vegna þess að í ljós hefur komið að hefðbundnar atvinnugreinar, eins og iðnaður, verslun og landbúnaður, hafa ekki getað tryggt viðgang landsbyggðarinnar. Á þann hátt hafa íbúarnir orðið þátttakendur í hinni tæknilegu þróun og fengið aðgang að hinni gífurlegu þekkingu upplýsingasamfélagsins. Það er því á þessu sviði sem ný atvinna verður til í samfélagi nútímans og framtíðarinnar.``
    Síðan er í þessari umsögn rakin þróun fjarvinnslustofa í heiminum en hin fyrsta mun hafa litið dagsins ljós í september 1985 í smábænum Vemdalen í Harjedalen í Svíþjóð, raunar þá eftir danskri uppskrift. En fyrsta viðleitnin til að koma á slíkum upplýsingamiðstöðvum á Íslandi kom fram 1989 á Hvammstanga, í Vík í Mýrdal, Selfossi og Seyðisfirði. Þessar miðstöðvar sem ekki hafa allar hafið starfsemi enn eru í flestum tilfellum tengdar staðbundnum átaksverkefnum og/eða iðnráðgjöfum. Markmið þessara miðstöðva eru ólík og þær hafa ekki tekið upp neina formlega samvinnu.
    Til þess að fara nokkrum orðum um hugsanleg verkefni fjarvinnslustofa vil ég grípa aftur niður í þessa umsögn. Þar segir:
    ,,Meginverksvið norrænu fjarvinnslustofanna eru þrenns konar:
    1. Að veita íbúum viðkomandi svæðis þekkingu á eðli upplýsingatækninnar.
    2. Að veita íbúunum aðgang að nauðsynlegum tækjum og að gagnabönkum upplýsingaaldarinnar.
    3. Að veita einkaaðilum og opinberum stofnunum þjónustu á ýmsum sviðum.``
    Síðan segir í sömu umsögn: ,,Á nokkrum sviðum mætti þó með góðu móti þjóna atvinnulífinu á staðnum.`` --- Og er þá átt við möguleikana sem opnast hér á landi. --- ,,Dæmi um það eru t.d.:
    -- Telefaxþjónusta.

    -- Afleysingar í sumarfríum.
    -- Bókhald.
    -- Textainnsláttur og skráning ýmissa gagna.
    -- Að veita ýmsum aðilum á staðnum aðgang að tölvum og hugbúnaði stofunnar
til útreikninga, skráningar o.fl.
    Rétt er þó að leggja áherslu á að mikilvægt er að fjarvinnslustofurnar víðs vegar um landið starfi í neti þar sem hægt er að taka við ýmiss konar verkefnum og miðla verkefnum á milli stofanna. Á Íslandi ætti slíkt að heppnast ef takast má að flytja fjölda þjónustustarfa, sem nú eru unnin á höfuðborgarsvæðinu, til fjarvinnslustofanna úti á landi. Slík störf gætu t.d. verið eftirtalin:
    -- Þýðingar.
    -- Gerð skráa af ýmsu tagi.
    -- Útprentun á nafnalistum og heimilisföngum samkvæmt völdum skilyrðum.
    -- Vinnsla og útsending á bæklingum, fréttabréfum o.þ.h.
    -- Vinnsla á ýmsum tölfræðilegum gögnum fyrir einkafyrirtæki og opinbera aðila.
    -- Textavinnsla af ýmsu tagi (innsláttur, prófarkalestur, umbrot).
    -- Símaþjónusta og bókhald.
    -- Kortateikning.``
    Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Á landsbyggðinni á Íslandi er þó ekki alls staðar hægt að ganga út frá því að undirbúningurinn gangi svo greiðlega fyrir sig.`` Er þá verið að vitna í það sem á undan er farið. ,,Eitt mesta vandamál landsbyggðarinnar er nefnilega gífurlegur atgervisflótti.`` Og hér kemur að rauða þræðinum í þessu máli. ,,Á móti því kemur þó að víða er vaxandi vilji fyrir því að taka þátt í heimi upplýsingatækninnar. Þessi vilji kemur ekki síst fram hjá konum og yngra fólki sem helst verða fyrir barðinu á hinu lélega og einhæfa atvinnuástandi. Það er því mjög mikilvægt út frá sjónarmiði byggðaþróunar og byggðastefnu að menn átti sig vel á því hvernig best verður stutt við bakið á áhugahópum á landsbyggðinni sem vilja taka upplýsingatæknina í þjónustu sína.``
    Síðan er fjallað í þessari umsögn um markaðsundirbúning og segir þar m.a:
    ,,Eins og þegar hefur verið getið mun vel starfhæft fjarvinnslunet verða ríkulega háð því að hægt sé að fá einkaaðila og opinber fyrirtæki til að flytja ýmis verkefni til fjarvinnslustofanna. Það er því mjög mikilvægt að sem fyrst verði mögulegur markaður á þessu sviði kannaður.``
    Síðan segir: ,,Því þarf að markaðssetja þessa þjónustu og er alveg nauðsynlegt að farið sé að eins og í Svíþjóð og sett á fót söluskrifstofa í Reykjavík fyrir þjónustu stofanna. Aðeins á þann hátt verður hægt að komast inn á markað í Reykjavík að einhverju marki. Slík söluskrifstofa þarf að vera eign fjarvinnslustofanna og hún verður að lúta stjórn fjarvinnslustofanna víðs vegar um landið, hugsanlega í samvinnu við rótgróið fyrirtæki á fjarskiptasviðinu.``

    Í niðurstöðum þessarar umsagnar segir:
    ,,Við undirrituð viljum lýsa ánægju okkar með að atvinnumálanefnd sameinaðs Alþingis skuli nú huga að möguleikum á því að tölvu- og upplýsingatæknin geti komið hinum dreifðu byggðum að gagni. Við teljum að það séu miklir faglegir og tæknilegir möguleikar á því að flytja fjölda verkefna á vegum hins opinbera út á land, jafnframt því sem við vitum að víða um land er mikill vilji fyrir því að koma á fót starfsemi sem byggir á fjarskipta- og tölvutækni.``
    Það væri mjög freistandi, virðulegi forseti, að rekja fleiri umsagnir. Ég ætla að grípa aðeins niður í umsögn frá Jóni Erlendssyni yfirverkfræðingi sem er forstöðumaður upplýsingaþjónustu Háskólans. Hann segir m.a:
    ,,Fjarvinna hvort sem hún er unnin í sérstökum vinnustöðum þar sem nokkrir vinna saman,,, þ.e. fjarvinnustofum, ,,eða af einstaklingum í heimahúsum hefur augljósa kosti fyrir dreifbýlið. Sérstaklega má benda á í þessu sambandi möguleikana á því að færa hluta af verkefnum ríkisstofnana og stærri fyrirtækja til landsbyggðarinnar. Tæknin er ekkert sérstakt vandamál í þessu sambandi. Engin sérstök tæknileg vandamál eru hindrun í þessu efni. Öll sú tækni sem til þarf er þekkt, aðgengileg og ekki sérlega kostnaðarsöm. Það sem á hinn bóginn er erfiðara er verkefnaöflunin. Ef að líkum lætur getur reynst
snúið að fá ríkisstofnanir eða aðra aðila til að láta frá sér verkefni sem þeir hafa verið vanir að vinna innan húss. Í sumum tilvikum má þar að auki búast við vandamálum vegna gagnaleyndar og öryggis gagna.
    Hugsanlegar aðgerðir opinberra aðila væru í fyrsta lagi fræðsla um fjarvinnslu fyrir fólk í dreifbýli, kynningarstarf, útgáfa stuttra bæklinga, stutt námskeið. Í öðru lagi aðstoð við verkefnaöflun, stefnumótun um útboð, gagnavinnslu og skráningarverkefni sem uppfylla tiltekin skilyrði, gerð skráar yfir hugsanleg verkefni sem vinna mætti utan ríkisstofnana, bein aðstoð við verkefnaöflun við aðila á landsbyggðinni.``
    Virðulegi forseti. Ég hygg að margar af þessum umsögnum sem atvmn. bárust væru mjög fróðleg lesning fyrir hv. þm. Þar koma fram hugmyndir sem margar hverjar eru óborganlegar og gætu komið að mjög verulegu gagni í því að færa verkefni frá þéttbýlissvæðunum til dreifbýlisins, einkum frá Reykjavík og út á landsbyggðina. Ég minni á það að á undanförnum árum hafa verið stofnaðar í Reykjavík ýmsar þjónustustofnanir á vegum ríkisins sem hefðu eins getað átt heima úti á landsbyggðinni vegna þess að nútímatækni gerir það kleift að flytja á hraðan, skjótan og öruggan hátt upplýsingar milli staða og það skiptir raunverulega engu máli lengur hvar viðkomandi aðili, sem býr yfir upplýsingum, þekkingu og möguleikum á að vinna verkefni, er staðsettur.
    Eitt atriði að lokum, virðulegur forseti, sem ég vil koma inn á og vakti sérstaka athygli mína. Það eru ummæli fyrrnefnds Jóns Erlendssonar, forstöðumanns upplýsingaþjónustu Háskólans, um íslenska skólakerfið og hvernig það hefur staðið að því að mennta fólk til að taka þátt í atvinnulífinu. Þessi vísi maður, sem er

mikill áhugamaður um dreifingu á verkefnum út um landsbyggðina, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sú ótrúlega staðreynd blasir við að innan skólakerfisins er nánast ekkert fjallað um atvinnumál, sköpun atvinnutækifæra, eflingu framtaks og margt annað það sem stuðlað getur að virkri þáttöku alls almennings í eflingu atvinnulífs. Undantekningar eru hér í formi nokkurra námskeiða sem styðja hluta þessa máls og kennd eru litlum hluta nemenda.
    Athugi menn reynslu og þekkingu erlendis á því hvar best gengur er það hjá fyrirtækjum og aðilum sem ná því að virkja hvern einasta starfsmann til virkra athafna, hugmyndasköpunar, hagræðingar o.fl.`` Síðan segir þessi vísi maður, með leyfi forseta:
    ,,Það er því allt að vinna í því að koma þekkingu á virkum athöfnum, hugmynda- og tækifærasköpun inn hjá sem flestum og búa þannig um hnútana hjá stofnunum og fyrirtækjum að sóst sé eftir hugmyndum starfsfólks og framkvæmt það af þeim sem fært er.
    Sé ástandið skoðað hér á landi blasir við að:
    Þekking á virku athafnalífi er bundin við lítinn hóp manna sem lært hafa stjórnun eða aflað sér slíkrar þekkingar með langri reynslu --- og oft mistökum. Allur almenningur er ekki ,,með í þeim leik``. Hvern skyldi undra að almenningur sýnir sjónarmiðum atvinnulífs og þörfum oft fálæti og tekur lítinn virkan þátt í þeim bæði sem einstaklingar og starfsmenn. Þeir sem vinna að því að skapa eða finna ný tækifæri eru einnig örfáir.``
    Ég verð að segja að mér finnst þetta nokkuð harður dómur yfir íslensku skólakerfi frá manni sem gegnir jafnveigamiklu embætti og títtnefndur Jón Erlendsson. En ég er nokkuð sannfærður um það um leið að flestir þingmenn sem hafa haft einhver kynni af atvinnulífinu geta tekið undir þessi orð. Það hefur því miður verið svo á undanförnum áratugum að við höfum lagt meiri áherslu, a.m.k. á háskólasviðinu, á að útskrifa úr háskóla embættismenn en þá menn sem geta orðið virkir í atvinnulífinu. Sem betur fer hefur þetta breyst nokkuð á síðari árum en ég hygg að það sé hárrétt hjá Jóni Erlendssyni að okkur skorti fátt annað eins mikið og menn með ríka og góða þekkingu á atvinnulífi. Hugmyndaríka menn sem eru tilbúnir að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og fylgja þeim eftir, oft og tíðum með miklum erfiðleikum og með miklu starfi.
    Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri en eins og fram hefur komið í mínu máli leggur atvmn. Sþ. til að þessi þáltill. verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í brtt.