Friðun hrygningarsvæða
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Kristinn Pétursson):
    Háttvirti forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. um friðun hrygningarsvæða sem hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að gera nú þegar ráðstafanir með eftirfarandi hætti til friðunar hrygningarstöðva:
    1. að Hafrannsóknastofnun, í samráði við útvegsmannafélög og aðildarfélög Landssambands smábátaeigenda, geri tillögur um hrygningarsvæði sem verði alfriðuð fyrir öllum veiðum á tímabilinu 1. apríl til 30. maí ár hvert,
    2. að umferð flutningaskipa og fiskiskipa verði takmörkuð á friðuðum svæðum á sama tímabili.``
    Tilgangurinn með þáltill. þessari er að reyna að hafa áhrif til aukinnar viðkomu nytjastofna með því að alfriða tiltekin svæði kringum landið eftir sameiginlegum tillögum Hafrannsóknastofnunar og hagsmunaaðila í útgerð.
    Það skal tekið fram að það er ekki ástæða til þess að byrja að hafa þessi svæði neitt sérstaklega stór heldur að reyna í vaxandi mæli að fikra okkur áfram á þessum vettvangi.
    Þar sem hrygningarstofn þorsksins og fleiri nytjastofna hefur farið minnkandi er afar brýnt að við reynum að haga okkur þannig í umgengni við náttúruna að klak helstu nytjastofna takist sem best. Með öðrum orðum að við reynum að umgangast hrygningarsvæðin þannig að hámarksárangur náist í viðkomu nytjastofna þrátt fyrir að hrygningarstofnarnir séu litlir.
    Það er enn fremur lagt til í þessari tillögu að umferð flutninga- og fiskiskipa verði takmörkuð á umræddum svæðum sama tímabil. Hávaði og hvinur frá vél og skrúfu berst vel í sjó og vatni og vegalengd eins og 20--100 metrar er ekki löng. Fyllsta ástæða er til að umgangast hrygningarsvæði fiskstofna okkar með gætni það tímabil ársins sem hrygning fer fram þar sem lífskjör þjóðarinnar velta svo mikið á afrakstursgetu nytjastofna.
    Það skal einnig áréttað að jákvætt samstarf um rannsóknir á vistfræði hafsins með auknu samstarfi sjómanna, skipstjórnarmanna og þeirra sem vinna við hafrannsóknir gæti verið lykill að bættum lífskjörum í landinu. Við getum gert betur á öllum sviðum. Við getum aukið nýtingu í meðferð og vinnslu sjávarafla og við getum aukið viðkomu nytjastofna með skynsamlegri umgengni um hrygningarstöðvar. Við þurfum bara að taka okkur tak og byrja á því að koma þessu í framkvæmd. Hér er því lagt til að útvegsmannafélög og rannsóknaraðilar geri sameiginlegar tillögur til þess að reyna að ná árangri í þessu máli. Allt samstarf þessara aðila getur gefið okkur dýrmætar upplýsingar í sambandi við aukna viðkomu nytjastofna. Við þurfum að gera meira af því að leggja okkur fram við að skilja gang náttúrunnar með meiri og vandaðri rannsóknum og reyna síðan að vinna með náttúrunni í því að ná betri árangri. Í allri umræðu um umhverfisvernd á landi hefur ekki verið minnst á umhverfisvernd á sjávarbotni en það er

fyllsta ástæða til þess að ræða það einnig í leiðinni. Við þurfum að efla umræðu um umhverfisvernd í hafinu m.a. í þeim tilgangi að auka þekkingu okkar á lífkeðju hafsins, t.d. hvað varðar veiðar með snurvoð upp í fjöru þar sem nytjastofnarnir eru að hrygna á sama tímabili. Á vorin þegar sólin skín og þorskur sækir í fjörurnar til þess að hrygna, á því augnabliki þegar fiskurinn fer að horast og er að hrygna er ekki skynsamlegt að veiða hann í stórum stíl einmitt á þessum stöðum þar sem nógan fisk er að hafa annars staðar. Ekki er vandamál að ná þeim þorski sem við höfum leyft að veiða úr hafinu og þar af leiðandi fyllsta ástæða til þess að gefa þorskinum grið þar sem hann er að hrygna.
    Ég vil að lokum fullyrða að fátt geti skilað okkur eins miklum verðmætum til baka og auknar rannsóknir á vistfræði hafsins og aukið samstarf vísinda og útgerðar í þeim tilgangi að bæta lífskjörin í landinu. Hætv. forseti. Ég legg svo til að þessari tillögu verði vísað til hv. allshn. ( Forseti: Má ég spyrja hv. þm. hvort ekki sé eðlilegra að málið fari til atvmn. Þetta getur auðvitað alltaf verið nokkurt vafamál en ég teldi það nú eðlilegra.) Ég legg til að henni verði vísað til allshn., hæstv. forseti. ( Forseti: Þá verður það virt.)