Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég þarf vart að taka það fram að ég styð þessa till. enda er ég meðflm. að henni eins og fram kemur á þingskjalinu. Mjög hefur hallað á okkur eftir að bókun 6 var gerð á sínum tíma og þess vegna sanngirnismál að við fáum þeim samningum breytt sem tekið er á í bókun 6 frá 1972. Ég vil þó taka það fram að ég tel að Íslendingar eigi í samskiptum sínum við Evrópubandalagið að hafa bein samskipti við þá á miklu fleiri sviðum en eingöngu þeim sem þessi till. gerir ráð fyrir. Ég tel að við eigum að halda uppi sams konar samskiptum við Evrópubandalagið eins og við höfum gert hingað til, eins og hefur verið gert á grundvelli Lúxemborgarsamkomulagsins, að sjálfsögðu í samvinnu við EFTA. Það tel ég að eigi að gera áfram, en ekki taka þátt í þeim samningum sem virðast vera fyrirhugaðir nú þar sem EFTA á að tala einni röddu við EB um myndun svokallaðs evrópsks efnahagssvæðis sem er ekkert annað en fyrsta skrefið inn í Evrópubandalagið.
    Ég sá ekki betur í sjónvarpinu í gær en að hæstv. utanrrh. teldi að það ætti fyrir okkur að liggja innan --- ja, hann talaði um 20 ár eða tók undir þar sem Uffe Elleman-Jensen talaði um 20 ár og lagði þar hattinn sinn að veði fyrir því að Ísland yrði orðið hluti af Evrópubandalaginu innan 20 ára, mig minnir að hann hafi ætlað að éta hann eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ætlar að gera. Mér þóttu þetta slæm tíðindi, að hæstv. utanrrh. teldi svo vera, vegna þess að ég tel það ekki rétta leið fyrir okkur að miða að því að það verði okkar hlutskipti að verða hluti af Evrópubandalaginu. Nýlega hefur komið fram opinberlega að hæstv. ráðherra telur nánast sjálfsagt að fara að semja um fiskveiðiréttindi í tengslum við viðskiptasamninga. Mér finnst algjörlega fráleitt að vera að bera þetta á borð, ekki síst nú
þegar við erum e.t.v. að fara í samninga við EB um evrópskt efnahagssvæði. Að hleypa EB inn í íslensku landhelgina er eitt af því sem ég vil segja mjög fáir, vonandi engir Íslendingar, vilja. Það þóttu mér þess vegna slæm tíðindi þegar það kom fram að hæstv. ráðherra hefði talið það mögulegt.
    Í ræðu Delors frá 26. sept. er hann að ræða um samskipti Evrópubandalagsins og EFTA og er þá að ræða um möguleikana á framhaldi, þar sem verið er að ræða um hvernig EFTA muni þurfa að skipuleggja sig, og segir í ræðunni sem ég hef hér í þýðingu, einn lítinn bút af henni, með leyfi forseta:
    ,,Á hinn bóginn gæti þeim mistekist að koma betra skipulagi á mál sín og þá munum við halda áfram að leggja grunn að því heimili okkar sem þau geta orðið hluti af með tvíhliða samningum ef þeim sýnist svo. Val milli þessara tveggja kosta er algjörlega í þeirra höndum.`` Þ.e., það er algerlega í höndum EFTA-þjóðanna hvort þær kjósa að fara í tvíhliða viðræður eða hvort þær vilja vera í samkrulli við aðra.
    Í viðtali við sjónsvarpsstöðina Stöð 2 þann 6. jan. sl. sagði Alister Sutton, sem starfar við þá deild

Evrópubandalagsins sem annast innri markaðsmál EB, orðrétt, með leyfi forseta, í íslenskri þýðingu: ,,Mér vitanlega hefur Evrópubandalagið aldrei neitað nokkru landi í heiminum um tvíhliða viðræður.`` Fullyrðingar um að Evrópubandalagið vilji ekki taka upp tvíhliða viðræður við Íslendinga virðast mér því vera úr lausu lofti gripnar. Þessu hafa að vísu margir haldið fram en ég held að það hafi í raun aldrei verið leitað beinlínis eftir því af nokkurri alvöru að taka upp tvíhliða viðræður um einstök málefni. Og ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að ég tel að það eigi að gera miklu víðtækara en þessi tillaga gerir ráð fyrir. Við eigum ekki að vera í þessu samkrulli með öðrum EFTA-þjóðum vegna þess að svo virðist sem meiri hluti þeirra sé í raun eingöngu að bíða eftir því að komast inn í Evrópubandalagið, ekki bara eftir 20 ár heldur á næstu árum eða eins fljótt og mögulegt er og vilja gjarnan stilla sér upp í biðröðina eins og utanríkisráðherra Dana ráðlagði þeim nú fyrir skömmu, að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og vera þar með fyrst inn. Ég tel það mjög óheillavænlega þróun ef Ísland ætlar að verða þarna hluti af.