Sektarmörk nokkurra laga
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Ekki er næg þátttaka í atkvæðagreiðslunni. Forseti vill benda hv. þingdeildarmönnum á þingskyldur sem kveðið er á um í þingsköpum um mætingu á fundum deildar og þátttöku í atkvæðagreiðslum. Forseti reynir enn einu sinni að koma máli sem ekki hefur verið deilumál til 2. umr. og nefndar. --- Það er ekki næg þátttaka. Nú er forseta næst skapi að slíta þessum fundi en hann ætlar að gera enn eina tilraun. --- Það verður gerð lokatilraun til þess að koma 8. dagskrármálinu til 2. umr. og nefndar. --- Það er ekki næg þátttaka. ( Forsrh.: Af hverju greiðir hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ekki atkvæði?) ( ÓÞÞ: Ég samdi um að vera úti á móti Eggerti Haukdal.) ( Forsrh.: Þetta er óumdeilt mál.) ( ÓÞÞ: Meðan formaður Sjálfstfl. greiðir ekki atkvæði tel ég mér skylt að vera úti.) (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingdeildarmenn að hætta þessari umræðu. Ef þeir vilja ræða þingsköp er það velkomið. Að öðrum kosti bið ég menn að fella niður þessa umræðu. Og ég geri enn eina tilraun til að koma þessu dagskrármáli áfram. --- Það er enn ekki næg þátttaka ( ÓÞÞ: Það er óskað eftir nafnakalli.) og forseti mun ekki gera fleiri tilraunir og telur hann það nú nokkra vansæmd fyrir hv. deild þegar 26 hv. þingdeildarmenn eru í húsi að ekki skuli vera hægt að ná fram atkvæðagreiðslu og koma málum á milli umræðna og til nefnda.