Yfirstjórn öryggismála
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa tekið til máls um þessa tillögu. Það gefur auga leið að ég þarf ekki að andmæla því sem fram kom í máli meðflm. míns, hv. 2. þm. Vesturl., sem stendur með mér og okkur flm. að þessari tillögu. Hann skýrði hana í ýmsum atriðum sem ég gat ekki beint komið að.
    Ég vil svo þakka hæstv. dómsmrh. fyrir ræðu hans. Það var auðfundið að hann misskildi ekkert í þessari tillögu eða tilgangi hennar. Ég þakka honum fyrir innlegg hans í málið og svo ummæli hans um að þetta mál fái þinglega afgreiðslu á þessu þingi.
    Hv. 3. þm. Vesturl. hafði nokkuð aðra afstöðu, eins og mátti heyra, og fann lítið hald eða gott í þessari tillögu. Hann lýsti þó hátíðlega yfir að hann teldi að okkur flm. gengi gott eitt til og er nú ekki ónýtt að hafa slíka yfirlýsingu frá hv. 3. þm. Vesturl. Hins vegar sagði hann að tillagan væri ekki skynsamleg. Og í framhaldi af því, að hann taldi hana óskynsamlega, var hann að gera því skóna að Sjálfstfl., sem lætur náttúrlega alltaf skynsemina ráða, gæti ekki staðið að baki þessari tillögu. Mér fannst hann vilja fá fram afstöðu sjálfstæðismanna til hennar. Því miður gátu tveir af meðflm. mínum ekki verið á þessum fundi og tekið þátt í umræðunni. Annar er sjúkur og það eru lögleg forföll hjá báðum.
    Hv. 3. þm. Vesturl. þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur af afstöðu Sjálfstfl. til þessa máls. Sjálfstfl. hefur heimilað flutning tillögunnar. Það er eins með þetta mál og mörg mál sem flokkurinn heimilar flutning á, að það skuldbindur ekki einstaka þingmenn, það er ekkert óvenjulegt.
    Hv. 3. þm. Vesturl. lagði áherslu á það að við hefðum búið við gott kerfi í löggæslu- og öryggismálunum. Ég vil ekkert gera lítið úr því kerfi sem við höfum búið við eða þeim mönnum sem hafa unnið og vinna að löggæslu- og öryggismálum. Þó að ég kæmi ekki beint að því í ræðu minni kom ég að því í greinargerð með tillögu þessari og tók fram hve gott starf hefði verið unnið á þessu sviði. Hins vegar væri hér um að ræða skipun sem ekki gæti staðist til frambúðar án þess að henni yrði breytt og tekið mið af breyttum aðstæðum.
    Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að meginandstaða hans við þessa tillögu væri miðstýringin sem lögð væri til með þessari tillögu og jafnaði því beinlínis við þá miðstýringu sem hefur verið í kommúnistaríkjunum og okkur er öllum kunnugt um. Hann talaði eins og hann gerði ráð fyrir að nú vildum við flm. þessarar tillögu koma á því kerfi í löggæslu og öryggismálum landsins sem væri verið að hverfa frá í kommúnistaríkjunum, hann sagði þetta beinlínis. Í raun og veru ætti ekki að svara slíkum fullyrðingum sem þessum. Ég bendi hv. þm. á, ef hann veit ekki, hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar og þeim lýðræðisríkjum sem helst eru sambærileg við okkur. Þá mun hann sjá að þó að við stefnum að markvissari stjórnun samkvæmt þessari tillögu á löggæslu og

öryggismálum, þá komumst við ekki í hálfkvisti við það skipulag sem er í fremstu lýðræðisríkjum um þetta efni. Ég vísa náttúrlega svona fjarstæðu á bug að hér sé verið að innleiða einhvern kommúnisma.
    Hv. þm. hafði miklar áhyggjur af því að með þessari tillögu væri verið að sniðganga framlag almennings í þessum efnum. Hann minntist á björgunarsveitirnar. Það vill þannig til að í greinargerð með frv. ef hv. þm. hefði kynnt sér hana vel hefði hann getað lesið það sem þar stendur. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Jafnframt hinni styrku stöðu yfirstjórnar öryggismála er gert ráð fyrir að hlutdeild almennings í öryggis- og gæslustörfum verði ekki minni en áður nema
síður sé. Og er þá átt við hið mikilvæga hlutverk Slysavarnafélags Íslands, hjálparsveitir skáta og flugbjörgunarsveitir eða lögbundna hlutdeild almennings, svo sem almannavarnanefndir og aðra slíka skipan sem til kann að koma.``
    Ég sé ekki ástæðu til þess að svara þessu atriði frekar í gagnrýni hv. 3. þm. Vesturl. Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að það ætti að bæta núverandi skipan. Auðvitað á að bæta núverandi skipan og breyta henni eftir því sem á þarf að halda og það er það sem þessi tillaga fjallar um. Ég verð að segja að mér kom nokkuð á óvart málflutningur svo ágæts þingmanns sem hv. 3. þm. Vesturl. í þessu efni. Mér fannst brydda of mikið á misskilningi í hans málflutningi, útúrsnúningum svo maður segi ekki sleggjudómum.
    Mér er minnisstætt þegar ég kom fyrst í Alþingi og var hér á pöllunum, stráklingur, að hlusta á umræður sem voru mjög harðar og ákveðnar heyrði ég að einn maður, sem var um áratuga skeið einn mikilvirtasti þingmaður landsins, kallaði fram í og sagði: Hæstv. ráðherra gengur á kartöflum í þessu máli. Ég áttaði mig ekki á því fyrst hvað hv. þm. átti við, þessi þingskörungur, en það rann loks upp fyrir mér hvað það var. Hann meinti að rökleysurnar væru slíkar að það væri eins og að ganga á kartöflum í málinu. Mér komu þessi ummæli þáv. þingmanns Borgfirðinga í hug þegar ég hlustaði nú á hv. 3. þm. Vesturl. í þessu máli.
    Þáttur varnarmálanna í þessu máli hefur komið nokkuð fram í umræðunum. Ég
vil taka skýrt fram, eins og er tekið fram m.a. í greinargerð fyrir tillögunni, að þessi tillaga kveður ekki á um veru varnarliðsins, hvort varnarliðið skuli fara eða vera. Það er kveðið á um skipan sem gæti hentað okkur þegar við tækjum við fleiri verkefnum af varnarliðinu.
    En í þessu sambandi er rétt að minnast þess að frá því að lýðveldið var stofnað hefur ekkert mál verið jafndjúpstætt ágreiningsmál meðal þjóðarinnar og vera bandaríska varnarliðsins hér á landi. Mál þetta tengist þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, enda er varnarliðið hér á landi að ósk bandalagsins. Afstaða til þessara mála hefur klofið þjóðina í andstæðar fylkingar og leitt til harðvítugustu átaka innan lands síðan Íslendingar lögðu niður að bera vopn hverjir á

aðra. Skírskotað hefur verið til háleitra hugsjóna á báða bóga, ættjarðarástar og skyldu við föðurlandið. Deilt hefur verið um hvort óvopnað hlutleysi dugi Íslandi sem svar við ófriðarblikum og vígbúnaðarkapphlaupi um heimsbyggðina og hafsjóum hernaðarátaka og styrjalda eða hvort Ísland verði eins og önnur ríki að láta landvarnir til sín taka með einum eða öðrum hætti og gegna þannig frumskyldu sinni við öryggi lands og þjóðar. Ívaf þessarar deilu hafa verið mismunandi sjónarmið og viðhorf til stefnumiða í stjórnmálum, til heimsmála, lýðræðis og kommúnisma, hernaðarbandalaga, Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins.
    Afstaða Íslands í þessum örlagaríku málum hefur verið mörkuð á lögformlegan og lýðræðislegan hátt með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningum við Bandaríkin. Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur fylgt þessari stefnu í varnarmálum og henni hefur vaxið fylgi með árunum enda hefur reynslan sýnt gildi hennar í verki. Rás tímans hefur haft sinn gang og þróunin gengið sínar brautir. Stórviðburðir síðustu missira og mánaða og daglegir atburðir um þessar mundir eru að gerbreyta heimsmyndinni. Kommúnisminn er að ganga sér til húðar og lýðræðið fer sigurför og frelsi til handa einstaklingum og þjóðum. Afvopnunarviðræður koma í stað vígbúnaðarkapphlaups risaveldanna. Allt tekur breytingum meira að segja hernaðarbandalögin, Varsjárbandalagið á fallanda fæti og Atlantshafsbandalagið líklegt til hamskipta.
    Öll þessi veðrabrigði gefa fyrirheit um þverrandi stríðsviðbúnað og auknar friðarhorfur og þá sérstaklega í okkar heimshluta. Þetta getur haft víðtæk áhrif á hlutskipti okkar Íslendinga með tilliti til varna landsins. Við hljótum að taka tillit til breyttra viðhorfa. Ekkert er óumbreytanlegt. Við þurfum að vera viðbúnir að taka til endurskoðunar hlutverk og verkefni varnarliðsins, eftir því sem samrýmist öryggi landsins á grundvelli friðsamlegra ástands og aukinnar hlutdeildar okkar sjálfra í vörnum landsins.
    Nú er spurningin hvort þetta nýja viðhorf skapi ekki einmitt grundvöll fyrir því að samhæfa megi hin andstæðu sjónarmið í varnarmálum landsins. Skref í þá átt ættu að geta verið að menn sameinist um þá stefnu að við sjálfir tökum að okkur svo mikinn hluta af vörnum landsins sem kostur er. Þessi þáltill. sem við nú ræðum felur í sér þá skipan sem getur hentað ef við tökum í auknum mæli í eigin hendur verkefni sem varða landvarnir. Þess vegna ætti þessi tillaga sem hér er lögð fram að geta leitt til þess að jafna ágreining ef menn á annað borð vilja ganga út frá því að öll ríki verði að láta landvarnir til sín taka með einum eða öðrum hætti og Ísland sé engin undantekning í því efni.
    Við Íslendingar megum ekki við því að standa í illvígum deilum og vera sundraðir um það sem varðar öryggi og fullveldi ríkisins. Okkur Íslendingum ríður mest á samstöðu í því sem skiptir sköpum um sjálfstæða tilveru okkar í samfélagi þjóðanna. Þróun heimsmálanna nú býður upp á forsendur og aðstæður

sem gætu orðið til uppstokkunar og samstöðu í varnarmálunum. Það gæti leitt til þjóðarsáttar í illvígustu og alvarlegustu deilu sem sundrað hefur þjóðinni í andstæðar fylkingar á undanförnum áratugum eftir að þjóðin í órofa samstöðu stóð að stofnun lýðveldisins 1944. Ríður nú á miklu að slík eining megi verða á ný og þjóðarsátt um það sem sköpum skiptir fyrir varðveislu þess fullveldis sem þjóðarvitundin setur öllu ofar.
    Ég vil mega vona að sú skipan sem lögð er til í þessari þáltill. um samhæfða yfirstjórn öryggismála geti stuðlað að og orðið meira að segja mikilvægur viðbúnaður að slíkri þjóðarsátt.