Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur gert ítarlega grein fyrir efni þess stjfrv. sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi. Það hefur einnig komið hér fram að í umfjöllun iðnn. Nd. er frv. hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar sem fjallar um sama efni. Það er, eins og fram hefur komið, að stofni til frv. sem samið var í iðnrn. á sínum tíma en það frv. sem hér er til umræðu er hins vegar í veigamiklum atriðum á aðra lund og hefur þegar verið gerð grein fyrir því af hæstv. ráðherra og skal ég ekki endurtaka það en segi þó án hiks að þær breytingar sem gerðar hafa verið eru tvímælalaust til bóta og nauðsynlegar. T.d. eru réttindi starfsmanna vel tryggð og hér er líka mikilvægt ákvæði um samstarfsnefnd starfsmanna og stjórnar verksmiðjunnar, svo og samráð við bæjarfélagið.
    Í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins hefur verið rætt allítarlega um frv. hv. þm. Friðriks Sophussonar. Fulltrúar stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins hafa einnig rætt frv. og efni þess á sérstökum fundi með fulltrúum bæjarstjórnar á Akranesi. Þær athugasemdir sem þar hafa komið fram hníga mjög í átt til þeirra efnisatriða sem felast í þessu nýja frv. en það hefur að sjálfsögðu ekki verið rætt enn í stjórn verksmiðjunnar og skal ekkert fullyrt um það hér hvort í þeirri stjórn er einhugur um málið. Ég hygg þó að það muni kannski ekki verða um mjög mikinn ágreining að ræða.
    Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að ég hygg að það sé rétt ráðstöfun að stofna hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar að rekstur fyrirtækja í eigu ríkisins eigi yfirleitt að vera í formi hlutafélaga eða sjálfseignarstofnana og fyrir því eru mörg rök. Hið gamla fyrirkomulag ríkisfyrirtækja eins og þau hafa verið rekin hjá okkur er að mínu mati úrelt en þótt ríkisfyrirtækjum sé breytt í hlutafélög þýðir það ekki að af sjálfu leiði að setja eigi hlutabréfin til sölu á markaði. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að í þessu tilviki eigi ekki að gera það enda eru í frv. skýr ákvæði þess efnis að ekki megi bjóða hlutabréfin í fyrirtækinu til sölu án breytinga á lögunum. Þetta tel ég mjög mikilvægt og miklu skýrari ákvæði en eru í hinu frv. sem er til meðferðar á Alþingi. Þetta er einkum og sér í lagi mikilvægt þar sem er um að ræða eins og hér einokunarfyrirtæki eða markaðsráðandi
fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem ræður nær öllum markaðinum þótt innflutningur á sementi sé vissulega frjáls. En ég tel að öðru máli geti gegnt um fyrirtæki þar sem ríkið er í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki enda er slíkur rekstur á ríkisins vegum nú orðinn hverfandi lítill.
    Rekstur Sementsverksmiðjunnar hefur gengið misjafnlega vel í áranna rás. Verð framleiðslunnar hefur verið háð verðlagsákvæðum og ákaflega oft hefur það verið svo að yfirvöld hafa ekki viljað viðurkenna nauðsyn réttmætra hækkana. Hin síðari ár

hefur reksturinn gengið betur og oft ágætlega vel. Á árinu 1989 var þó lítils háttar tap á rekstrinum eða um 76 millj. kr., einkum og sér í lagi vegna gengisbreytinga. Standist áætlanir á þessu ári má reikna með að framleiðsla á sementi verði um 115 þús. tonn og rekstur fyrirtækisins geti fullkomlega staðið í járnum. Komi til einhverjar nýjar framkvæmdir eða aukin sementssala, salan þarf ekki að fara nema tiltölulega lítið fram yfir 115 þús. tonn, mun fyrirtækið að öllu óbreyttu skila hagnaði.
    Á sl. ári var ráðist í mjög fjárfrekar fjárfestingarframkvæmdir innan fyrirtækisins sem kostuðu í kringum 160 millj. kr. og fólust í því að settur var upp mjög öflugur skiljubúnaður við nýrri sementskvörnina til þess að fá jafnari kornadreifingu og bætt gæði sementsins. Keypt voru hraðvirk og fullkomin efnagreiningartæki, þau fullkomnustu sem völ er á sem nýtast bæði við framleiðslueftirlit og við rannsóknir. Í þriðja lagi var komið á sjálfvirku stýrikerfi við mölun hráefna og sements. Hráefna- og sementskvörnum er nú stjórnað með afkastamikilli iðnaðartölvu. Allt kostaði þetta sitt og þetta eru ákvarðanir sem teknar voru í tíð fyrri stjórnar fyrirtækisins og voru áreiðanlega mjög nauðsynlegur liður í því að aðhæfa fyrirtækið að þeim kröfum sem nú eru gerðar.
    Í umræðunum hér um Sementsverksmiðju ríkisins er skylt að geta þess að fyrirtækið starfrækir, í samvinnu við Járnblendifélagið á Grundartanga, fyrirtækið Sérsteypuna hf. sem gerir tilraunir með og framleiðir ýmiss konar múrefni til viðgerðar. Nýlega stofnaði Sementsverksmiðjan nýtt fyrirtæki, hlutafélagið Íslenskar múrvörur hf. sem er í eigu Sands hf. í Reykjavík, Sérsteypunnar sf. á Akranesi og Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki. Þetta nýja fyrirtæki mun eiga lögheimili á Akranesi og mun annast markaðssetningu og framþróun þurrpússningar og ýmiss konar múrkerfa en mjög mikið er flutt inn af slíkum vörum og nauðsynlegt að Íslendingar og íslensk fyrirtæki standi þar innflutningsaðilum á sporði.
    Fylgst er mjög ítarlega og nákvæmlega með gæðum framleiðslunnar hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Nýlega skilaði Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins skýrslu um sementsrannsóknir sl. ár og í örfáum setningum
sýnir það stranga gæðaeftirlit og ströngu prófanir sem átt hafa sér stað hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins að sement frá Sementsverksmiðju ríkisins stenst vel allar lágmarkskröfur í sementsstaðlinum ÍST9. Þenslur alkalístrendinga eru álíka og fyrri tilraunir hafa sýnt og ráð er gert fyrir. Hitamyndun við hörðnun er hæst í PH og lægst í PP eins og hér segir og eðlilegt má teljast. Rannsóknir voru gerðar á sex sementsblöndum með mismunandi magni af kísilryki og flugösku.
    Ég tel rétt að fram komi, vegna ýmiss konar umræðna í blöðum og fjölmiðlum á undanförnum missirum, að íslenskt sement stenst allar þær gæðakröfur sem hér eru gerðar og samkvæmt þeim

stöðlum sem unnið er eftir. Hitt er svo annar handleggur að þegar menn ræða um steinsteypu og gæði hennar kemur margt og mikið fleira til en sementið eitt. Þar koma auðvitað til önnur efni sem blandað er í eins og sandurinn og ekki hvað síst kemur til lagning steypunnar, steypan sjálf hvernig hún er framkvæmd og hvernig að henni er hlúð meðan hún er að ná fullri hörku. Ég hef grun um að hjá okkur, eins og hjá ýmsum öðrum þjóðum þar sem steypuskemmdir hafa komið í ljós, sé orsakanna ekki að leita í einum þætti sérstaklega, eins og jafnan hefur verið látið að liggja hér, heldur séu það margir samvirkandi þættir.
    Það er víst að alkalívirkni var mikil í íslenska sementinu þangað til farið var að bæta í það kísilryki frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga í verulega miklum mæli sem hefur bætt mjög gæði sementsins. Önnur atriði sem þarna koma við sögu er hönnun mannvirkja og hvernig mannvirki verja sig gegn veðri, vatni og vindum og síðast en ekki síst hvernig farið er með steypuna. Ég heyrði norskan sérfræðing segja það á steinsteypudegi á dögunum að Norðmenn ættu í erfiðleikum með það að halda nægilega góðu starfsfólki við þessa steypuvinnu sem ekki þykir kannski sérstaklega eftirsóknarverð.
    Að lokum, herra forseti, ætla ég aðeins að víkja örfáum orðum að verðþróun á sementi. Það er mjög fróðlegt að virða fyrir sér byggingarvísitölu, verð á sementi og verð á steypu. Frá miðju ári 1988 til miðs árs 1989 hækkaði verð á íslensku sementi um 15%. Á sama tíma hækkaði verð á steinsteypu frá steypustöðvunum um 28% en byggingarvísitalan hækkaði um 19%. Sé litið til lengri tíma og farið aftur til ársins 1983 og fram til 15. júlí 1989 hækkaði sementsverðið um 168% en steinsteypan frá steypustöðvunum, á höfuðborgarsvæðinu aðallega, hækkaði um 354% á sama tíma. En á þessu sama tímabili hækkaði byggingarvísitalan um 247%. Sementið hækkaði sem sagt langtum minna en byggingarvísitalan en steinsteypan frá steypustöðvunum hækkaði um allt að 50% meira en sementið.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Ég lýsi stuðningi við þetta frv. í öllum meginatriðum og vona að málið fái greiða afgreiðslu hjá hv. iðnn.