Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þegar þetta frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins var til umfjöllunar í þingflokki Alþb. lýstu, ég vil ekki segja allir en nokkrir, af þingmönnum Alþb. yfir efasemdum um réttmæti þess og tilgang. Frv. var samþykkt í þingflokki Alþb. með fullum fyrirvara um stuðning þingmanna Alþb. við það. Framlagning þess var samþykkt í þingflokknum með þeim ákveðnu fyrirvörum að þingmenn flokksins lýstu þar með ekki yfir stuðningi við efni þess.
    Ég mun ekki hér við 1. umr. fjalla efnislega um frv. en láta það bíða 2. umr. Mér fannst þó svolítið sérstakt að við umræðuna kom fram að frv. væri raunverulega brtt. við frv. hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar. Að sumu leyti get ég tekið undir þetta. Í þessu frv. kemur fram svipaður tilgangur. Ég vil þó undirstrika að í frv. er mikil breyting frá frv. Friðriks Sophussonar á þann veg að lagt er til að ekki verði hægt að selja hlutabréf verksmiðjunnar nema með samþykki Alþingis. Og ég vil sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hv. 3. þm. Vesturl. að hann væri þeirrar skoðunar að hlutabréf verksmiðjunnar ætti ekki að bjóða til sölu.
    Því miður er í grg. frv. ábending um að æskilegt gæti verið fyrir verksmiðjuna að selja hlutabréf og er það ættað úr frv. hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar. Ég vona að það sé ekki beinlínis meiningin í frv. að opna fyrir það að nýir aðilar verði hluthafar í þessu einokunarfyrirtæki sem Sementsverksmiðja ríkisins er. Í greinargerðinni segir, svo það komi fram hvað ég er að tala um, með leyfi forseta:
    ,,Vilji ríkið ekki leggja fram aukið hlutafé til þess að halda eignarfjárhlutföllum í horfinu þegar kemur til þess að fjármagna þarf nýja fjárfestingu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé.``
    Ég vil sem sagt lýsa yfir þeirri skoðun minni að ef úr því verður að Sementsverksmiðju ríkisins verði breytt í hlutafélag þá sé það ekki gert í þessum tilgangi, þ.e. að opna fyrir það að einkaaðilar eða aðrir aðilar en ríkið geti gerst eigendur að hlutabréfum í því hlutafélagi sem þá verður skráður eigandi Sementsverksmiðju ríkisins. Þau hlutabréf á ekki að bjóða til sölu.
    Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta að sinni. Ég veit að iðnn. mun yfirfara þetta frv. rækilega og þegar það kemur til hv. deildar til 2. umr. mun ég fjalla frekar um málið.