Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að nokkrir hv. þm. sem komið hafa í ræðustól hafa haft á því orð að bakslag hafi komið í jafnréttisbaráttu kvenna. Það er alveg rétt að það er visst bakslag. Það hafa kannski ekki verið skoðaðar mikið ástæður fyrir því og hvoru megin hryggjar menn liggja í því. En sem oft áður er þeirri spurningu nokkuð varpað yfir til kvenna, hvers vegna svona sé, og eins og látið að því liggja að það hljóti að vera eitthvað sem þær geri rangt í sinni baráttu, einhverjar áherslur sem eru rangar hjá þeim, sem orsaki þetta bakslag.
    Í því tilefni langar mig til að minnast á þegar rætt er um að skilningur karla á jafnréttisbaráttu sé ekki nægur. Ég vil snúa þessu við og varpa fram þeirri spurningu hvort skilningur karla á jafnréttisbaráttunni hafi ekki einmitt aukist og vegna þess aukna skilnings hafi margir þeirra áttað sig á því hvað af henni gæti hlotist og hverju þeir gætu hugsanlega tapað og hvaða spón þeir gætu misst úr aski sínum og þar sé komin ein orsökin fyrir mjög harðnandi afstöðu margra karla gegn baráttu kvenna, að það sé einmitt skilningur en ekki skilningsleysi sem orsaki.
    Hv. þm. Árni Gunnarsson kvartaði nokkuð yfir því áðan að karlmenn fengju ekki nógu mikið að vera með í þessari baráttu. Mig langar að spyrja hv. þm. hvort hann gæti bent á nokkuð því til sönnunar að karlmönnum sé haldið frá baráttunni og ég vil spyrja hann: Hvað er það sem hindrar karlmenn í því að taka þátt í baráttunni af fullum krafti ef þetta brennur svona mikið á þeim? Ég veit alveg hvaða dæmi verður tekið. Ég bið afsökunar, ég þori ekki að leggja virðulegum forseta orð í munn fyrir fram, en margir mundu hafa orð á því og hafa haft orð á því að gleggsta dæmið sé auðvitað að finna í starfsemi Kvennalistans. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að taka hér upp orðaskipti við virðulegan forseta en ég vona að ég hafi leiðrétt mig áður en ég missti orð út
úr mér. Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara að gera honum upp orð og er ekki að því, en þessi rök heyrir maður ákaflega oft.
    Það er ekkert sem hindrar karlmenn í því t.d. að taka þátt í störfum Kvennalistans. Það eina sem þeir þurfa að sætta sig við þá er sú vinnuregla að kjörnir fulltrúar Kvennalistans séu að svo komnu máli konur, einfaldlega vegna þess að við teljum þær færari um í flestum tilfellum að bera fram þessi mál. Að öðru leyti er þeim heimilt og velkomið að leggja allt það af mörkum sem þeir geta.
    Það er mjög haft á orði núna meðal kvenna víða í samtökum kvenna af ýmsu tagi og í tali kvenna hér og þar að þær finni fyrir mjög harðnandi andstöðu og meiri samstöðu karla en var fyrir nokkrum árum og mér finnst það líka bera að sama brunni að það sé vegna þess að þeir óttist að þeir muni hafa einhverju að tapa og þeir muni missa forréttindi, því þeir hafa forréttindi, og þeir vita það náttúrlega að í flestum tilfellum þarf einhver karlmaður að víkja til þess að kona komist að og það er einmitt það sem þeir óttast

með aukinni sókn kvenna, að hugsanlega þurfi þeir að víkja einhvers staðar. Þeir virðast vera tilbúnir til þess að viðurkenna í orði að konur eigi að komast víðar að og konur eigi að fá meiri réttindi en svo er einhver rödd sem hvíslar inni í þeim á eftir: Bara ekki ég. Og það er kannski sú staðreynd sem konur standa andspænis að það er ekki pláss fyrir þær. Þær eru velkomnar en það er bara ekki pláss. Það er ekki laust pláss. Það er uppselt.
    Varðandi þessi lög sem hér eru til umræðu, þá er þetta náttúrlega aðeins einn þáttur málsins sem þarna er tekinn til meðferðar og kannski ekki sá þáttur sem mestu ræður þegar upp er staðið. Þar með er ég ekki að lasta það að svona lög séu til og þau séu nauðsynleg og í þeim geti konur fundið nokkra stoð, en til þess að konur hafi nokkra möguleika á að nýta sér það jafnrétti sem þeim stendur til boða lögum samkvæmt, þá er svo ótal, ótal margt annað sem þarf að laga og þar eru mál sem menn skirrast við að taka á. Hér hefur hver af öðrum talað um lág laun kvenna. Það er staðreynd sem enginn getur neitað, að laun kvenna upp til hópa eru allt of lág og miklu lægri en störf karlmanna. Og lausnin er ekki að segja konum að fara í önnur störf. Lausnin felst í því að endurmeta þau störf sem konur vinna. Og auðvitað er eitthvað rangt við það verðmætamat að næstum því vélrænt sé alltaf komist að þeirri niðurstöðu um störf kvenna að þau séu verðminni en störf karla.
    En þó að hér hafi hver af öðrum tekið þetta sem höfuðstaðreynd sem þurfi að laga, þá varð ég því miður ekki vör við, t.d. þegar kjarasamningarnir nýgerðu voru hér á dagskrá í Alþingi, að menn væru yfirleitt að hafa áhyggjur af því hvernig sú núlllausn, sem þá var borin fram og samþykkt, staðfesti kjör kvenna. Skilaboðin voru auðvitað þessi: Þið verðið að sætta ykkur við þennan hlut og það er ekkert afgangs fyrir ykkur fyrr en allar aðrar aðstæður hafa breyst. Ef hugur fylgdi máli þegar menn standa hér og tala um að lág laun kvenna standi þeim fyrir þrifum á öllum sviðum verða þeir líka að muna eftir því þegar kemur að beinhörðum staðreyndum eins og kjarasamningum. Það þýðir ekkert að býsnast yfir því milli samninga eða slá um sig með því að segja: Við
verðum að laga þetta. Hvenær á að laga það? Hvenær eru peningar afgangs? Hvenær verður þjóðfélagið svo gott og ríkt að við eigum afgangs peninga fyrir konur ef þær eiga alltaf að bíða, ef þær eiga alltaf að koma síðast?
    Þetta er nokkuð sem hefur ævinlega verið sagt við konur: Fyrst þurfi að laga þetta, svo þurfi að laga hitt, svo kemur að ykkur, og skal ég vitna í frægar samræður Rósu Lúxemborg og Lenins, sem auðvitað margir þekkja, þegar hann var að reyna að telja henni hughvarf í þessari kvennabaráttu og benti henni á að fyrst yrði að gera byltinguna og þegar það væri búið kæmi röðin að konum. Við vitum alveg hvað það hafði í för með sér og það virðist vera nokkuð sama hvert kerfið er. Röðin kemur alltaf síðast að konum. Það voru athyglisverðar upplýsingar sem komu fram í pistli sem fluttur var í útvarpið nú fyrir nokkru þar

sem aðeins var tekið á því hvað væri að gerast í Austur-Þýskalandi í ýmsum réttinda- og hagsmunamálum kvenna. Þar kom því miður fram að um leið og múrarnir hrundu og frelsið streymdi óhindrað inn sáust merki þess að félagsleg staða kvenna versnaði. Það var byrjað á því að loka barnaheimilum. Það var byrjað á því að svipta þær húsnæðisbótum og ýmislegt af því tagi virtist fylgja strax þegar ekki er til staðar kerfi sem ver konur. Nú bið ég menn að skilja ekki orð mín þannig að það kerfi sem nú riðar til falls þar austur frá sé eitthvað sem óskað er eftir eða við ættum að hverfa til. En það er athyglisvert að frelsið skuli ekki bera í sér meira frelsi til kvenna en raun ber vitni og það skuli í rauninni að sumu leyti skerðast. Félagsleg réttindi sem þær hafa þó náð í krafti kerfis veikjast um leið og ekki er kerfi til þess að verja þær.
    Hér áðan var minnst á staðreyndir sem komu fram í bæklingi sem Jafnréttisráð gaf út þar sem birtar voru niðurstöður könnunar sem Jafnréttisráð hafði gert um störf kvenna í sveitarstjórnum og hverjar hygðu á framboð aftur. Sú nöturlega staðreynd kemur í ljós að stór hluti þeirra kvenna sem hafði komist í sveitarstjórnir við síðustu kosningar ætlar ekki að gefa kost á sér aftur. Því miður er þetta oft orðað einhvern veginn með því móti að konur hafi ekki það úthald sem þurfi. En auðvitað sjá það allir sem vilja sjá að þegar sveitarstjórnarstörf eru að stórum hluta til störf sem unnin eru utan venjulegs vinnutíma og eru viðbót við þau störf sem sinnt er fyrir, þá eru fjölmargar konur að bæta á sig þriðja starfinu við það að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Og það er því miður ein dapurlega niðurstaðan sem konur komast svo oft að, að þjóðfélagið mætir þeim ekki og þær geta ekki tekið þátt í þessu kapphlaupi, einfaldlega vegna þess að þær eru með of þunga hlekki um ökklana, þær geta ekki hlaupið.
    Það er til lítils að hvetja konur til þátttöku í félagsstörfum þegar þær eiga sáralítinn kost á nokkrum þeim úrræðum sem gera þeim kleift að taka þátt í þeim. En þeim stóru spurningum ýtum við stanslaust til hliðar. Auðvitað eru launamálin eitt stærsta málið. Annað mál sem er því nátengt og sem varla er nokkurn tíma minnst á í þessu sambandi er auðvitað þessi langi vinnutími á Íslandi. Það er skrýtið að ekki skuli vera uppi sterkar kröfur alls staðar um styttan vinnutíma og sveigjanlegan vinnutíma. Og það er ekki fyrr en það mark hefur náðst sem við getum farið að ræða jafnréttismál á einhverjum raunverulegum grundvelli vegna þess að enn er það svo að börn fæðast, og sem betur fer hefur ekki dregið eins mikið úr barneignum hér á landi og í mörgum öðrum löndum, og meðan svo er, að börn fæðast í þessu þjóðfélagi sem og öðrum, þá þarf einhver að annast þau. Og það verður aldrei gert bara utan heimilisins. Auðvitað þurfum við lengri skóladag og auðvitað þurfum við samfelldan skóladag. Það er algjör höfuðnauðsyn og er áratugum of seint í rauninni. Auðvitað þurfum við góða dagvistun og örugga, en þetta eru ekki hinar endanlegu og einu

lausnir. Það er ekkert sem kemur algjörlega í staðinn fyrir samvistir barna og foreldra. Með þeirri vinnuáþján sem er í íslensku þjóðfélagi er þessi þáttur fjölskyldunnar stórlega vanræktur og meðan svona er er eðlilegt að konur geti ekki axlað fjölbreyttari og fleiri og tímafrekari störf en þær gera í dag vegna þess að þær vilja hafa þennan tíma afgangs fyrir börn sín og fjölskyldu, ekki bara sjálfra sín vegna heldur barnanna vegna og allrar fjölskyldunnar vegna, og samfélagsins vegna er það líka nauðsynlegt. Það er því ekki spurning um það að konur hafi ekki úthald. Það er einfaldlega það að tími er okkur mældur og því eru takmörk sett hvað hver áorkar á þeim tíma sem honum er gefinn.
    Það er sumt sem e.t.v. hefur í baráttu kvenna fyrir réttindum snúist að sumu leyti gegn þeim sjálfum, einfaldlega vegna þess að breyttum aðstæðum hefur ekki verið mætt, þannig að í dag standa mjög margar konur í þeim sporum að þeim finnst e.t.v. að þær hafi tapað meiru en þær hafi unnið. Hver verður árangurinn af því og hvert verður næsta skref? Það skal ég ekki um segja, en ég held að einhverjar áherslubreytingar í baráttu kvenna liggi í loftinu. Ég held að þær skynji allt of margar að þær eru komnar inn í blindgötu þar sem engin leið er út, a.m.k. ekki eftir þeirri sömu götu. ( ÓÞÞ: Það hlýtur að vera til baka út úr götunni eins og við björgum okkur úr blindgötum.) Auðvitað hljóta fyrstu skrefin að liggja til baka út úr götunni til þess að finna aðra.
Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Það er margt sem konur hafa núna í rauninni losað karlmenn undan og konur hafa fært karlmönnum réttindi en þær hafa sáralítið fengið í staðinn og jafnvel hafa þær glatað réttindum. Konur hafa t.d. tekið þann þunga núna af karlmönnum að þeir þurfa ekki einir að axla framfærsluna. Konur deila því svo sannarlega með þeim. En hverju hafa þeir deilt í staðinn að sama skapi? Allt hefur þetta bara verið viðbót fyrir konur og sáralítið komið á móti.
    Auðvitað er ég í rauninni að fara vítt og breitt og langt út fyrir þann lagaramma sem hér er til umræðu en ég held að við náum ekki árangri nema við setjum þessa hluti í samhengi. Við getum ekki hólfað líf okkar niður með þeim hætti að við höldum okkur bara við þessi lög. Væntanlega kemur eitthvað af þessu til umræðu þegar við innan skamms munum ræða hér grunnskólalög, þar er t.d. ein hlið málsins.
    En ég vil enda á því að koma aftur að þessari hugmynd eða staðreynd sem hver af öðrum hefur bent á, að það hafi komið bakslag í kvennabaráttuna eða árangur hennar. Ég vil varpa því til hv. þm. að þeir íhugi hvort það muni rétt vera og af hverju það stafi. Bið ég sérstaklega hv. þm. af karlkyni að líta í eigin barm en ekki of mikið til annarra í þeim sökum.