Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Maður er nú loksins farinn að kunna við sig aftur hérna þegar umræðan fer í þennan farveg. Menn muna eftir sendiráði Rússa og öðrum slíkum atriðum sem rétt er að hafa í huga. Mér finnst það satt best að segja furðulegt að það skuli ekki allir taka undir þau orð sem utanrrh. lét falla hér að það sé sjálfsagt mál að kanna áreiðanleika þessara frétta sem þarna koma. Það er full ástæða til þess. Hér eru ekki þeir aðilar nefndir sem heimildarmenn sem venjan er nú svona fyrir fram að tortryggja öðrum fremur. Og það er auðvitað alvörumál ef það hefur átt sér stað eða á sér stað að okkar land sé misnotað án okkar vitundar til þess að stunda héðan njósnir og jafnvel persónunjósnir. Slíkt getum við að sjálfsögðu ekki liðið og á ekkert skylt við öryggishagsmuni hvaða skoðun sem menn síðan hafa á því hvernig þeirra sé best gætt. Við höfum ekki tíma til að fara út í þá umræðu.
    Það er vitað og hefur legið fyrir lengi að með nútímatækni er hægt að stunda slíkar njósnir um víða vegu. Fræg eru dæmin, það þarf ekki símtölin við hjákonur Noriegas til. Menn muna þegar Bandaríkjamenn hleruðu öll samskipti sendiráðs Líbýu í London við Trípóli þannig að þeir gátu sagt Bretum og þeim hinum nákvæmlega hvað þar hefði farið fram klukkustundum og sólarhringum saman, upp á hvert orð. Og ég segi bara aftur, það er að sjálfsögðu með öllu ólíðandi og hefur reyndar lengi verið ólíðandi hvernig Bandaríkjamönnum hefur liðist að misnota okkar land bæði vegna þeirrar aðstöðu sem þeir hafa haft hér en líka með því að gera ýmiss konar áætlanir og plön sem byggðu á því að nota Ísland eða aðstöðu hér til hluta sem við höfðum enga hugmynd um. Það er auðvitað löngu, löngu tímabært að slíku linni. Og ég trúi ekki öðru en a.m.k. geti allir orðið sammála um það, hvort sem þeir taka nú meira eða minna mark á þessum fréttum, telja meiri eða minni líkur á því að þær séu réttar eða ekki, að upplýsa málið. Og þá skil ég ekki að það þurfi að verða þetta fjaðrafok sem hér hefur orðið þegar hinir hefðbundnu menn, sem eru í ákveðnum hlutverkum þegar þessi mál ber hér á góma, rjúka hér upp til handa og fóta af þeirri einu ástæðu að það er óskað eftir að fá þetta mál upplýst.