Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Mánudaginn 26. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. sagði að forsetar mundu stuðla að því að þróun mála verði svipuð. Mér fannst detta botninn úr þessu. Ég skildi ekki hvað hv. 2. þm. Suðurl. var að fara, ég kem kannski nánar að því síðar.
    Hæstv. forsrh. þakkaði umboðsmanni fyrir skýrslu þá sem við hér ræðum og ég vil taka undir þær þakkir og undir það sem fram kom eða mér virtist vera andinn í þeim fáu orðum sem forsrh. lét hér falla um þetta mál.
    Ég vil taka það fram að ég tel að það hafi tekist vel um setningu laganna um umboðsmann Alþingis og það hafi tekist vel um reglugerðina sem starfað er eftir, en sett er samkvæmt heimild í lögunum.
    Hæstv. forsrh. var með einhverjar áhyggjur út af því að það gæri verið erfitt að greina á milli dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Ég verð að segja það að mér hafa aldrei komið í hug neinir erfiðleikar í sambandi við þetta. Ég hélt að þetta væri ekkert vandamál í sjálfu sér. Það er umboðsmaður Alþingis sem tekur ákvörðun um það hvort mál heyrir undir hans embætti eða ekki. Og hann getur bent á að dómstólaleiðin sé eðlilegri. En hann kveður engan úrskurð upp um þetta, það getur hvaða borgari sem er snúið sér til dómstólanna með hvaða mál sem honum þóknast og eins er með þetta. Þannig held ég að það sé ekkert vandamál í sambandi við aðgreiningu dómstóla og embættis umboðsmanns.
    Því miður gat ég ekki fylgst með umræðum sem áður hafa farið fram um skýrslu umboðsmanns. Ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur þegar þær voru. En mér skilst að það hafi verið gagnmerkar umræður og svo merkar að það hafi verið talin ástæða til að halda þeim áfram. Ég heyrði það sem hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Norðurl. v. sögðu hér á þessum fundi um þetta efni og ég dreg þá ályktun að það sem þeir sögðu hafi verið líka í framhaldi af því sem áður var búið að segja, á fyrri fundi um þetta mál. En ég verð að segja að það er alvarlegur hlutur sem mér virtist koma fram hjá þessum hv. þm. þegar þeir voru
að tala um og bentu á að það hefði verið tregðast við, af framkvæmdarvaldinu eða ráðherrum, að svara fyrirspurnum og erindum umboðsmanns. Ég heyrði ekki betur en að þau orð hefðu verið látin falla að þetta kæmi út þannig að verið væri að brjóta niður embætti umboðsmanns. Það er heldur ömurleg mynd sem hér er dregin upp. Ég efast ekki um að hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Norðurl. v. hafa lög að mæla. Og þegar ég segi að ég efast ekki um það, hef ég í huga þá málsvörn sem hér kom fram af hálfu hæstv. fjmrh.
    Hæstv. fjmrh. --- nú gengur hann í salinn, ég hélt að hann væri horfinn af vettvangi --- hann fór fögrum orðum um þann mikla áhuga sem hann hefði haft á embætti umboðsmanns Alþingis í áratugi áður en til embættisins var stofnað og hann var framsýnn í þessu efni eins og í öðrum efnum að hans dómi. Hann fór

nokkrum orðum um það, sem undir venjulegum kringumstæðum hefði átt að skjóta stoðum undir það, að hann væri þess vegna ekkert nema vinsemdin og skilningurinn á mikilvægi embættis umboðsmanns Alþingis. Undir venjulegum kringumstæðum mætti líka ætla svo. En menn verða að hafa í huga að þetta er ekki reglan með þennan hæstv. ráðherra, heldur sú að eftir því sem hann hefur talið sig meiri áhugamann og jafnvel baráttumann fyrir góðum málefnum áður en hann kom í ríkisstjórnina og fékk möguleika til þess að sýna skoðun sína og stefnu í verki, þá er það yfirleitt reglan að hann gengst öndverður við því sem hann hefur áður haldið fram. Og það sýnist mér líka koma fram bæði í því sem hann sagði sjálfur hér áðan og í öðru sem rakið hefur verið varðandi þetta mál.
    Hæstv. fjmrh. gerði mikið úr því hvað það væri mikið starf fyrir ráðuneyti hans að sinna verkefnum frá umboðsmanni Alþingis. Og hann sagði að það væri nú öðru að sinna fyrir þá í ráðuneytinu oft og tíðum en að svara slíkum erindum sem umboðsmaður bæri fram.
    Hann segir einnig í greinargerð með fjárlagafrv., eins og fram hefur komið í þessum umræðum, að það kosti óhemjufé að sinna fyrirspurnum og þeim verkefnum sem stafa frá umboðsmanni Alþingis. Nú vil ég ekki gera lítið úr því að það geti kostað einhvern tíma og einhverja fjármuni að gefa viðeigandi svör við því sem spurt er um. En ég vek athygli á því sem fram kemur í þessari skýrslu, sem við höfum hér fyrir framan okkur og erum að ræða, að það er oft á tíðum, og kannski oftast, vegna þess hve ófullkomin hafi verið vinnubrögð ráðuneytisins í viðkomandi máli. Það segir, með leyfi hæstv. forseta, um þetta í skýrslu umboðsmanns:
    ,,Tafir hafa stafað af því, að stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir vanda, sem hefur verið að rekja til ófullnægjandi málatilbúnaðar og síðan hefur vafist fyrir þeim að greiða úr eða útskýra.``
    Þetta tekur umboðsmaður sérstaklega fram og það gefur auga leið að það er ekki að ástæðulausu og skal ég ekki fara fleiri orðum um þetta atriði.
    Mér sýndist hæstv. fjmrh. vera í nokkrum vanda með að svara fyrir vinnubrögð ráðuneytisins í þessum efnum. Ég get ekki skilið annað, þegar hæstv. ráðherra fór allt í einu að tala um breytingar á þingsköpum, en að það væri vesældarleg tilraun til þess að flýja frá kjarna málsins. Hann er allt í einu kominn út í
hugdettur um að nú eigi að breyta þingsköpum og fyrst sagði hann, ég held að ég fari þar rétt með, að það ætti að heimila embættismönnum að geta tekið þátt í störfum þingsins og verið á þingfundum þó að þeir væru ekki þingmenn. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta sérstaklega en ég lít á þetta sem vesældarlega tilraun til þess að komast hjá að ræða það mál sem hér er sérstaklega til umræðu. Auðvitað er þetta fjarstæða, að það sé hægt að breyta þingsköpum á þennan veg. Ef það væri yrði fyrst að breyta stjórnarskránni og gerir það nú þetta mál allt umfangsmeira. Það breytir engu í þessu efni þó að

Ríkisendurskoðun heyri núna undir Alþingi. Ríkisendurskoðun heyrði áður undir fjmrn., fjmrh. en það hafði aldrei komið fram hugmynd um það, á þeim tíma, að það þyrfti að setja reglur sem krefðust stjórnarskrárbreytingar og breytinga á þingsköpum með það fyrir augum að ríkisendurskoðandi gæti komið hér í þingsali og staðið fyrir máli sínu. Ég held að ef maður færi að ræða þessar hugdettur fjmrh. efnislega yrðu þær harla léttvægar fundnar.
    En hæstv. ráðherra sagði eitt sem ég er honum alveg sammála um og liggur að sjálfsögðu í augum uppi, að tillögur fjárlagafrv. eru ekkert annað en tillögur til Alþingis. Þó að framkvæmdarvaldið standi að fjárlagafrv. getur framkvæmdarvaldið ekki ákveðið útgjöld Alþingis. Mér þykir rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því bréfi sem umboðsmaður Alþingis ritaði forsetum Alþingis 13. des. sl. Í bréfinu er fjallað m.a. um athugasemd í fjárlagafrv. sem hér hefur komið til umræðu. En, með leyfi hæstv. forseta, segir svo í bréfi þessu:
    ,,Ofangreind athugasemd hlýtur að vera skýring á því, hvers vegna fjárveiting er lækkuð í fjárlagafrv. miðað við tillögur umboðsmanns Alþingis og forseta Alþingis. Sú skýring verður ekki skilin öðru vísi en svo, að nauðsynlegt sé að setja starfi umboðsmanns takmörk. Nú er það hins vegar þannig, að hlutverk umboðsmanns er markað í lögum nr. 13/1987 og reglum nr. 82/1988, sem Alþingi hefur sett. Þar er kveðið á um störf hans og starfshætti. Ég tel, að hvorki umboðsmaður Alþingis né Alþingi geti unað við það, að handhafar stjórnsýsluvalds taki fram fyrir hendur Alþingis.``
    Ég verð að gera athugasemd við orðalag þessa bréfs, endinn, þar sem segir: ,,Ég tel, að hvorki umboðsmaður Alþingis né Alþingi geti unað við það, að handhafar stjórnsýsluvalds taki fram fyrir hendur Alþingis.`` Þessir handhafar stjórnsýsluvalds geta ekki tekið fram fyrir hendur Alþingis og gera ekki. Við skulum hafa það ljóst. Það er Alþingi sem hefur síðasta orðið í þessum efnum. Og ég lít nú þannig á að með tilliti til þess, og auðvitað er umboðsmanni Alþingis það ljóst, hafi umboðsmaður einmitt valið þá leið að skrifa forsetum Alþingis sérstakt bréf um þetta efni, bréfið sem ég las upp úr hér nú.
    Þá er ég kominn að því sem ég vildi spyrja forseta Alþingis. Hver voru viðbrögð forseta Alþingis við bréfi umboðsmanns Alþingis? Hvað gerðu forsetar í málinu til þess að koma fram vilja umboðsmanns, sem vill svo til að var líka vilji forseta, var í samræmi við fyrri tillögur forseta um fjárveitingar til umboðsmanns? Mín spurning til forseta þingsins er: Hvað gerðu þeir þegar þeir fengu þetta bréf frá umboðsmanni Alþingis? Hvernig brugðust þeir við? Geta þeir gefið skýringu á því frekar en gert hefur verið, hvers vegna ekki var orðið við tillögu þeirra sjálfra og erindi umboðsmanns Alþingis?