Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að rifja það upp að fyrir rúmu ári, eða strax og þing kom saman í byrjun árs 1989, lagði ríkisstjórnin fram frv. um Tryggingasjóð fiskeldislána. Svo mikill var bægslagangurinn og svo mikil voru gönuhlaupin að stjórnarandstöðunni var í stuttu máli sagt meinað að athuga frv., hvað þá að fá nauðsynlegar upplýsingar um hvað raunverulega fælist í því og hvernig hæstv. landbrh. og ríkisstjórnin hygðust standa að afurðalánum til fiskeldisstöðva.
    Ég held að ég þurfi heldur ekki að rifja það upp að það liðu um tveir mánuðir frá því að lögin voru samþykkt þangað til hæstv. landbrh. gaf sér tíma til að gefa út reglugerð sem var forsenda þess að sjóðurinn gæti tekið til starfa. Ég held það sé líka óþarfi að rifja það upp, herra forseti, að slíkar voru álögurnar á Tryggingasjóð fiskeldislána að í stuttu máli fóru öll fyrirtæki á höfuðið sem áttu viðskipti við þann sjóð eða stóðu svo höllum fæti að nauðsynlegt var að grípa til hlutafjáraukningar og margvíslegra fjárhagslegra aðgerða til þess að reyna að tryggja áframhaldandi og frekari rekstur. Fjöldi manns hefur orðið fyrir verulegu eignatapi af þessum sökum.
    Nú er hér á ferðinni nýtt frv. vonum seinna. Enn liggur ekki fyrir með hvaða hætti framkvæmdin verður. Það er líka eftirtektarvert, herra forseti, að hæstv. landbrh. lætur ekki sjá sig hér í deildinni meðan verið er að ræða þetta mál. Það kemur fyrir lítið þó hæstv. forsrh. biðji um að ráðherrar séu hér í deildinni.
    Þetta er auðvitað merki um það hvernig komið er. Ég veit ekki hvort það er ástæða til að vera að tala neitt meira um þetta. Fiskeldisstöðvarnar standa höllum fæti. Opinberir sjóðir og bankar hafa tapað verulegum fjárhæðum. Ef við tölum um önnur atvinnufyrirtæki sem hér eru rekin, ef við tölum um það hvernig staðið hefur verið við loforð til loðdýrabænda, þá vitum við hvernig það er. Ef hæstv. iðnrh. væri hér inni væri hægt að spyrja hann um það hvernig staðið hafi verið við loforð hans um það að tryggja Slippstöðinni á Akureyri fjármagn til þess að hún gæti staðið við samning um sölu á raðsmíðaskipi, samning sem nú er dottinn upp fyrir, o.s.frv.
    En það er auðvitað ekki hægt, herra forseti, að ræða þessi mál hér í deildinni nema með mikilli fyrirhöfn. Ráðherrarnir sem málin varða láta ekki sjá sig, hundsa þingið algerlega, hlaupa síðan út í bæ og gefa þar yfirlýsingar sem þeir geta ekki staðið við. Þannig er nú ástandið. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, að óska eftir því að hæstv. landbrh. láti sjá sig hér við 3. umr. til þess að það sé hægt að tala við manninn.