Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar ræðu sem hv. þm. Halldór Blöndal flutti hér vil ég aðeins ítreka það sem ég sagði í framsöguræðu fyrir þessu máli, að það gjald sem ég mæli hér fyrir, bifreiðagjald, er hluti af forsendum fjárlaga sem afgreiddar voru hér fyrir áramót. Í því felst ekki nein viðbót varðandi skattlagningu frá því sem þá hafði verið ákveðið. Þvert á móti er hér verið að lækka þá upphæð sem í fjárlögunum fólst í samræmi við ákvæði síðustu kjarasamninga, að ríkisstjórnin skuldbindi sig til þess að lækka útgjaldatilefni og hækkunartilefni á ýmsum sviðum í ríkiskerfinu, sem næði 0,3% í framfærsluvísitölu. Þetta kemur jafnframt fram í sérstakri yfirlýsingu forseta Alþýðusambandsins sem birt var með fskj. málsins í hv. Nd.
    Hv. þm. vék síðan að lesendabréfi DV þar sem bornar voru fram þrjár spurningar og mér er í sjálfu sér alveg ljúft að svara þeim.
    Í fyrsta lagi, þar sem spurt er um 50% hærra bifreiðagjald vek ég athygli á því að hækkun bensíngjalds verður allnokkru minni á þessu ári en í fyrra þannig að útgjöld vísitölufjölskyldunnar af bensíni minnka hlutfallslega frá því sem var í fyrra. Þess vegna er ekki hægt að mæla útgjöld láglaunafjölskyldu eða vísitölufjölskyldu til bifreiðar eingöngu út frá bifreiðagjaldinu heldur verður að taka bensíngjaldið einnig með í myndina. Og það er alveg ljóst að sé þetta hvort tveggja tekið er ekki verið að hækka útgjöld almennra fjölskyldna til bifreiða. Auðvitað má alltaf um það ræða hvort það eigi að vera í formi bensíngjalds eða bifreiðagjalds, það er annar hlutur, en í spurningunni liggur kannski sá misskilningur að það sé í heild verið að hækka skatta á bifreiðum. Það er ekki verið að gera það og allra síst um 50%.
    Í öðru lagi er spurt að því hvort ég telji það munað fyrir fjölskyldu, þar sem báðir foreldrar vinna úti, að reka bifreið. Svarið er eindregið nei, ég tel það ekki vera munað og þarf í sjálfu sér ekki að rökstyðja það sjónarmið.
    Í þriðja lagi er spurt að því hvort það sé skynsamlegt kerfi að jafnhá upphæð sé borguð í bifreiðagjald eftir því hvað bifreiðin er þung, óháð því hvað hún kostar. Ég er alveg sammála því sjónarmiði að það væri æskilegt að tengja verðmæti bifreiðarinnar við gjaldstofninn. Það hefur verið athugað hvað eftir annað í fjmrn. að finna aðferðir til þess vegna þess að mér finnst, eins og fyrirspyrjanda, að það væri réttlátara fyrirkomulag. Það hefur hins vegar ekki enn tekist að finna aðferðir sem allir sætta sig við varðandi það og þess vegna hef ég fylgt því, sem fyrri ríkisstjórnir hér ákváðu, að nota þyngdina sem mælikvarða og flokka bifreiðarnar í ýmsa gjaldflokka eftir þyngd þó mér sé ljóst að annað fyrirkomulag gæti verið heppilegra.