Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlýtt á ræður hv. þm. Halldórs Blöndals og hæstv. fjmrh. get ég fyrir mitt leyti sem formaður nefndarinnar fallist á að fresta þessari umræðu og halda nefndarfund á morgun. Nefndir eru mjög þétt bókaðar í fyrramálið. Ekki er laus tími nema kl. 1 en ef hv. þm. Halldór Blöndal vill fallast á það að halda nefndarfund kl. 1 á morgun þá skal ég taka þetta mál þar fyrir ásamt kannski fleiri málum sem stendur á að afgreiða úr hv. fjh.- og viðskn.
    En ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að í fjh.- og viðskn. hefur verið unnið á þann veg að öll sjónarmið hafa fengið að njóta sín. Hafi einhver aðili verið beðinn að koma til nefndarinnar eða hafi einhver haft eitthvað um málefni að segja hefur hann haft fullt frelsi til að koma skoðunum sínum að. En til þess að svo geti orðið verða þingmenn að mæta á nefndarfundi til þess að geta komið þeim skoðunum og athugasemdum sem þeir hafa að.
    Þetta mál var, eins og ég sagði áðan, til umræðu í gær á nefndarfundi. Ég fann ekki nein andmæli við einstakar greinar en það kann að vera að fram hjá mér hafi farið eitthvert orðalag sem mætti túlka á tvennan eða þrennan hátt. Ef svo er og ef menn telja að tvírætt orðalag sé í lagatextanum skal ég í fullu samráði við þingmenn halda nefndarfund til þess að fara yfir það. Og, ef vilji er til þess, kalla fyrir aðila til að útkljá þau mál.
    Ég vil leggja til við forseta að við frestum þessari umræðu og halda nefndarfund kl. 1 á morgun.