Utandagskrárumræður í deildum
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það verður að teljast mjög hæpin ákvörðun að leyfa utandagskrárumræðu um þetta mál í Nd. Jafnsjálfsagt mál og það er að það sé rætt í Sþ. hlýtur sú spurning að vakna hvaða rök mæla með því að svona mál sé tekið upp á deildarfundi fram yfir Sþ. Er það vegna þess að þeir sem sitja í Ed. Alþingis hafi ekkert um málið að segja, séu með öllu óhæfir til að fjalla um það eða áhugi þar sé enginn til að vera við umræðuna? Eða er það vegna þess að þessi deild hafi svo miklu meiri tíma aflögu af sinni vinnu að hún af þeirri ástæðu geti tekið umræðuna upp, þó ekki sé hægt að leyfa hana í Sþ.? Ég tel að það séu engin haldbær rök sem mæla með því að jafngamalt mál geti orðið svo brýnt að ekki sé hægt að fresta slíkri umræðu þar til kemur að Sþ. Eða hvers vegna er þá umræðu í deild ekki frestað og fyrir tekin umræða í Sþ. um málið þar sem bæði Ed. og Nd. eru til staðar?
    Ég vil undirstrika að ástæðan fyrir því að þingsköp eru á þann veg að ekki eru reglur um utandagskrárumræður í deildum helgast af því að það var gert ráð fyrir því að slíkt yrði af lagt. Talið var að forsetar þingsins gætu komið sér saman um það, ef þeir vildu leyfa slíka utandagskrárumræðu, að fundum í báðum deildum yrði frestað og hún leyfð í Sþ.
    Ég tel þess vegna að það að leyfa slíka umræðu brjóti algjörlega í bága við þær starfsreglur sem menn hafa verið að reyna að koma hér á. Og ég tel að forseti þurfi að hugleiða það mjög gaumgæfilega hvert hann stefnir með stjórn sinni á deildinni ef hann lætur undan þeim þrýstingi að deildarfundir séu teknir undir utandagskrárumræður.
    Mér finnst að þetta sé fordæmisskapandi, ef á að halda þessu áfram. Þó fordæmi séu fyrir slíkri umræðu tel ég að það hafi verið mistök í hvert einasta skipti sem hún hefur verið leyfð. Það hlýtur því að vera eðlilegt að þeir sem hér eru geri athugasemdir við það að ekki sé samið um það að umræðan fari fram í Sþ.