Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. Þann minni hl. skipa auk mín hv. þm. Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestf., og Þórhildur Þorleifsdóttir, 18. þm. Reykv. Í nál. segir:
    ,,Á síðasta Alþingi voru samþykkt ný heildarlög um málefni aldraðra og var um meginefni þeirra laga góð samstaða, svo sem æskilegt er um málefni af því tagi. Hins vegar var með lögunum ákveðið að taka upp á ný sérstakan skatt, svokallaðan nefskatt, í Framkvæmdasjóð aldraðra sem felldur var niður í tengslum við upptöku staðgreiðslukerfis skatta á sínum tíma. Upphaflega var ætlun ríkisstjórnarinnar að skattur þessi yrði upp tekinn og lagður á þegar á árinu 1989, þótt lögin um málefni aldraðra ættu að öðru leyti ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 1990. Þau áform tókst að koma í veg fyrir á síðustu dögum þingsins á liðnu vori.
    Við umræður um þetta atriði í neðri deild hinn 20. maí sl. lýsti hæstv. utanríkisráðherra því yfir að við undirbúning og meðferð þessa máls hefði orðið ,,slys`` og að málið yrði að taka upp aftur nú í haust til að koma í veg fyrir að hinn sérstaki skattur yrði upp tekinn að nýju frá og með árinu 1990.
    Frumvarp þetta er samhljóða brtt. flutningsmanna sem flutt var þegar málið var til umfjöllunar í neðri deild á sl. vori. Ákvæði 1. gr. mun tryggja framkvæmdasjóðnum nákvæmlega þá fjárhæð sem gildandi ákvæði um hinn sérstaka skatt gerir, enda snýst málið ekki um nauðsyn þess að tryggja sjóðnum tekjur heldur um það með hvaða hætti þeirra er aflað.
    Í atkvæðagreiðslu um þessa tillögu gerði hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson svofellda grein fyrir atkvæði sínu:
    ,,Ég var fjarverandi afgreiðslu þingflokks Framsóknarflokksins á þessu máli og satt best að segja undrar mig að maður geti átt von á því að í lögum til heilbrigðismála séu bæði tekin fyrir fjáraukalög og skattalög og virðist þá fátt sem mönnum dettur ekki í hug að setja saman í lagatexta. Ég treysti mér ekki til að standa að þeirri ákvörðun að gerbreyta grunni staðgreiðslukerfisins eins og verið er að gera með því að taka nefskattana upp á nýjan leik. Ég segi því já.```` --- er orðrétt haft eftir hv. 2. þm. Vestf.
    ,,Í framhaldi af yfirlýsingum utanríkisráðherra um afstöðu Alþýðuflokksins og greinargerð Ólafs Þ. Þórðarsonar fyrir atkvæði sínu var þess að vænta að ríkisstjórnin beitti sér fyrir breytingu í þessa veru. Það hefur ekki enn orðið.``
    Það er óþarfi, virðulegur forseti, að rifja upp einstök efnisatriði þessa máls til að hafa eftir og ítreka það sem fram hefur komið í umræðum, bæði við 1. umr. og eins áður þegar málið hefur verið til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. frsm. 1. minni hl. nefndarinnar þar sem hann minnti réttilega á það að þegar staðgreiðslan var tekin upp féllu niður fjórir smáskattar sem urðu hluti

af staðgreiðslunni. Með því að hverfa frá þessu er verið að grafa undan framkvæmd staðgreiðslunnar sem hefur það að markmiði að sem flestir gjaldendur séu jafnan skuldlausir við ríkissjóð. En auk þess sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, frsm. 1. minni hl., verður það að koma skýrlega fram að þeir peningar sem hér á að innheimta eru nú teknir af almenningi. Það eru þess vegna hrein brigð gagnvart gjaldendum að taka þennan skatt upp að nýju og gengur þvert á þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið af öllum þeim sem ábyrgð bera á staðgreiðslukerfnu, upptöku þess og framkvæmd. Eigi að leggja hinn sérstaka skatt á að nýju er að sjálfsögðu lágmarkskrafa að innheimtuhlutfall í staðgreiðslunni lækki á móti.
    Að þessu sögðu, virðulegur forseti, er augljóst að minni hl. hv. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það lá fyrir við 1. umr.