Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram tvær fsp. til hæstv. iðnrh.:
,,1. Hve háa fjárhæð þarf ríkissjóður að endurgreiða fyrirtækjum í iðnaði vegna uppsafnaðs söluskatts af framleiðslu síðasta árs umfram þá fjármuni sem ætlaðir voru til þess samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum á sl. ári?
    2. Hvernig verður þeim 500 millj. kr., sem samkvæmt fjárlögum innheimtast af jöfnunargjaldi á yfirstandandi ári, varið?``
    Frá því er að segja, virðulegur forseti, að 1978 voru lög um jöfnunargjald samþykkt hér á Alþingi. Þá þegar var tekið fram að um það væri að ræða að leggja gjaldið á til þess að geta greitt svokallaðan uppsafnaðan söluskatt hjá iðnfyrirtækjum. Lá fyrir í upphafi að það kerfi mundi breytast um leið og virðisaukaskattur yrði tekinn upp.
    Árið 1987, þegar virðisaukaskattsfrv. var lagt fram og síðar samþykkt á Alþingi, kom fram í grg. að jöfnunargjaldið yrði fellt niður um leið og virðisaukaskattur yrði tekinn upp.
    Á miðju ári 1989 var gerður samningur á vinnumarkaðinum. Í tengslum við hann gaf ríkisstjórnin út bréf sem var dagsett 30. apríl eða 1. maí. Þar kom fram að það hefði orðið að samkomulagi að hækka jöfnunargjaldið úr 3% í 5% en síðan yrði það fellt niður um leið og virðisaukaskattur yrði tekinn upp.
    Virðisaukaskattur var tekinn upp um síðustu áramót. Samt sem áður var samþykkt að halda áfram álagningu jöfnunargjaldsins og átti það að gefa 500 millj. kr.
    Það er ljóst að í fjáraukalögum sl. árs gengu 350 millj. til þess að greiða uppsafnaðan söluskatt. Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. ráðherra að þessu eru upplýsingar sem komu fram í ræðu hans hjá Félagi ísl. iðnrekenda fyrir nokkrum dögum. Ég vil fá staðfestar hér á hinu háa Alþingi þær upplýsingar sem þar komu fram og einnig að spyrja þeirra viðbótarspurninga sem hér er um að ræða.