Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Það má kannski segja að þegar stórt er spurt verði fátt um svör og það var svo hjá hæstv. dómsmrh. Svörin voru nákvæmlega engin. Engin niðurstaða hefur fengist í húsnæðismálum lögreglunnar þrátt fyrir loforð hæstv. ráðherra fyrir tveimur mánuðum síðan að það mundi ske mjög snöggt. Tilboð það sem einingahúsaverksmiðja á Selfossi hefur gert ráðuneytinu er enn til skoðunar og enn er þráast við að leita tilboða hjá heimamönnum. Ekkert er útskýrt hvers vegna það er, hvers vegna ekki er farið út í nánari útboð. Ég tel að sé vafasamt fordæmi sem ráðherra er hér að setja fyrir ríkisstjórnina í heild og þar sem ég sé nú hæstv. samgrh. í salnum hygg ég að það þætti nú ekki góð ,,ella`` að fara þá leið í vegagerð og stórframkvæmdum í landinu að einskorða sig við kjördæmisframleiðanda eins og hér er gert. Ég fordæmi það og ég harma að ráðherra skuli vera ber að slíkri stefnu sem hann boðar hér, að troðast inn á atvinnumarkað annars bæjarfélags í hagsmunapoti fyrir sitt eigið kjördæmi.
    Ég vil benda á að ef farin verður sú leið að setja upp einingahús tekur það framleiðanda í Stykkishólmi u.þ.b. 4--6 vikur að byggja slíkt hús og einnig hitt að þau bréf sem ráðherrann er að tala um að sé ósvarað eru væntanlega þau bréf þar sem sótt er um lóð undir það einingahús sem ráðherrann ætlar sér greinilega að knýja í gegn að verði keypt frá Selfossi.