Bifreiðaskoðun í Vestmannaeyjum
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. beinir til mín fsp. á þskj. 803 í þremur liðum. Sú fyrsta er þannig: ,,Hvernig er bifreiðaskoðun í Vestmannaeyjum nú hagað?``
    Á síðasta ári voru skoðuð um 1000 ökutæki í Vestmannaeyjum og er áætlað að svipaður fjöldi verði skoðaður á þessu ári. Samið hefur verið við Hjálparsveit skáta um afnot af bifreiðageymslu þeirra og hefur Bifreiðaskoðun Íslands hf. ráðstafað einni vinnuviku í hverjum mánaðanna janúar, febrúar, mars, ágúst og nóvember til skoðunarinnar. Þrír skoðunarmenn munu vinna við skoðunina og þeir munu hafa komið frá skoðunarstöðvunum í Reykjavík, á Selfossi og á Hvolsvelli.
    Bifreiðaskoðun boðar ökutæki í Vestmannaeyjum til skoðunar í samræmi við þann tíma sem verið er að skoða á staðnum en auk þess er eigendum ökutækja heimilt að færa þau til skoðunar í hvaða skoðunarstöð sem er á landinu. Reynslan sýnir að um fjórðung ökutækja þarf að færa til endurskoðunar í framhaldi af aðalskoðun. Fjögur bifreiðaverkstæði eru í Vestmannaeyjum sem hafa viðurkenningu Bifreiðaskoðunar til að annast þessa þjónustu.
    Alltaf er eitthvað um að lögregla þurfi að hafa afskipti af vanbúnum ökutækjum. Ef lögregla metur vanbúnaðinn svipaðan því sem gert er þegar ökutæki þarf að koma til endurskoðunar getur hún gefið út svokallaðan aðfinnslumiða lögreglu og veitt frest eða akstursleyfi fram að næsta skoðunartíma. Reynist ökutæki alvarlega vanbúið þannig að það stofni umferðaröryggi í hættu getur lögreglu reynst nauðsynlegt að taka skráningarmerki af ökutækinu. Umboðsmanni Bifreiðaskoðunar í Vestmannaeyjum er heimilt að afhenda eiganda eða umráðamanni ökutækisins skráningarmerkin á ný ef viðkomandi getur sýnt fram á, t.d. með vottorði frá viðurkenndu bifreiðaverkstæði, að ökutækið hafi verið fært í lögmætt ástand.
    Önnur spurning var: ,,Hver eru framtíðaráform um tilhögun bifreiðaskoðunar í Vestmannaeyjum?`` Það hefur komið hér fram að ágústmánuður sé ekki heppilegur sem skoðunarmánuður í Vestmannaeyjum. Bifreiðaskoðunin hefur því ákveðið að hafa þá ábendingu til hliðsjónar í framtíðinni. Bifreiðaskoðun Íslands hf. stefnir að því að hafa innan næstu fimm ára, a.m.k., eina fullkomna skoðunarstöð í hverju kjördæmi landsins. Það verður að segjast eins og er að ekki liggur fyrir hvenær skoðunarstöð verður reist í Vestmannaeyjum.
    Þriðja spurningin var: ,,Hvernig er tilhögun ökuprófa í Vestmannaeyjum.`` Prófdómari hefur ekki fast aðsetur í Eyjum. Hann er sendur frá Reykjavík eftir þörfum eða á um það bil 2--3 vikna fresti. Ferðunum er hagað í samvinnu við starfandi ökukennara í Vestmannaeyjum. Þannig er ástand þessara mála í dag. En vegna þess sem fram kom í máli fyrirspyrjanda um þetta efni og hugsanlega breytingu á því skal ég lýsa því hér yfir að það verði

gjarnan tekið til nánari athugunar.