Ný samvinnulög
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. sem er 1. flm. að þeirri tillögu sem hér um ræðir hefur gert glögga grein fyrir ástæðum þess að hún er flutt í sinni ræðu og ég fagna yfirlýsingum hæstv. viðskrh um að hann hyggst taka málið upp á komandi sumri. Ég vil aðeins undirstrika nokkur atriði til viðbótar varðandi ástæður þess að þessi tillaga er flutt því að það hefur öðru hvoru verið í umræðunni á undanförnum árum rætt um nauðsyn þess að endurskoða samvinnulögin. Það hefur yfirleitt verið á þeim forsendum að nauðsynlegt sé að endurskoða þau til að koma í veg fyrir sérréttindi eða einokun samvinnuhreyfingarinnar. Þetta er rangt. Samvinnuhreyfingin hefur ekki einokun, hún hefur ekki sérréttindi og endurskoðun samvinnulaganna á að stefna að því að efla samvinnufélagsformið. Sú ástæða er fyrir því að þetta málefni er flutt inn á hv. Alþingi.
    Samvinnufélögin þurfa að vera raunverulegur valkostur í nútímaþjóðfélagi fyrir þá sem vilja koma á fót atvinnurekstri eða fara út í nýjan atvinnurekstur. Lögin eru gömul og það hefur verið gerð glögg grein fyrir því hve erfitt er að fá eigið fé frá almenningi í samvinnurekstur. Hlutafélagalögin hafa verið aðlöguð þessum þjóðfélagsbreytingum eins og hér hefur verið rakið. Það er því æ algengara að samvinnufélögin hefji rekstur eða taki þátt í atvinnurekstri í hlutafélagsformi. Slíkt þarf ekki endilega að vera af hinu vonda, en hins vegar á samvinnufélagsformið að vera raunverulegur valkostur í þessu efni.
    Á undanförnum vikum hefur komið upp umræða um hringamyndun í einkarekstri. Það er athyglisvert að sú umræða kemur upp í þjóðfélaginu þegar samvinnufélögin eru í erfiðleikum. Rætt hefur verið um að það sé ekki við hæfi að stórfyrirtæki nái einokunaraðstöðu í ákveðnum þáttum atvinnulífsins. Það er ekki langt í það að stórfyrirtæki á innlendum markaði nái
einokunaraðstöðu í öllum samgöngum og flutningum til og frá landinu. Í fyrirtækinu sem hefur verið til umræðu, Eimskipafélagi Íslands, háttar þannig til og ég hef þær upplýsingar úr ekki ómerkara riti en Frjálsri verslun að 15 hluthafar af 13 þúsund ráða yfir 40% hlutafjárins. Þetta hefur mönnum þótt ískyggileg þróun og Morgunblaðið m.a. tekið upp í sínum skrifum. Og hv. 8. þm. Reykv. sem hefur látið þessi mál mikið til sín taka hefur tekið þetta mál upp og m.a. rætt við forstjóra fyrirtækisins í sjónvarpsþætti nýverið þar sem það sjónarmið kom fram hjá honum skýrt og skorinort að hluthafar í félögum eins og þessu ákveðna fyrirtæki ættu ekki að vera að spekúlera í stefnumótun félagsins. Það væri nóg fyrir þá að fá arð af sínu hlutafé. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig og er ekkert við því að segja. En þetta er ómengaður kapítalismi og við ætlum ekki að hafa þjóðfélag ómengaðs kapítalisma. Það er ekkert við því að segja að slík félög séu til með þessi sjónarmið en það er jafnsjálfsagt að til sé annað félagsform sem keppir við félög sem rekin eru samkvæmt slíkum

sjónarmiðum, það séu til félög þar sem fólk vill með þátttöku sinni hafa áhrif á stefnumótun.
    Þessi mál hafa komið til umræðu áður lítillega á Alþingi. Þar komu þau sjónarmið fram hjá hv. 14. þm. Reykv. að þetta ákveðna fyrirtæki væri vel rekið. Það má vel vera og ég held að það sé ekkert illa rekið. Ég kann ekki að dæma um það. Það er áreiðanlega að mörgu leyti vel rekið, en hv. þm. fullyrti að samvinnufélögin og sérstaklega Samband ísl. samvinnufélaga væru illa rekin og erfiðleikar samvinnuhreyfingarinnar stöfuðu af því. Það má örugglega margt betur fara í þeim rekstri, ég efast ekki um það, eins og í öllum rekstri, hann er aldrei fullkominn. Hins vegar verður að undirstrika það að erfiðleikar samvinnuhreyfingarinnar eru ekki orðnir til af tilviljun. Og þær misjöfnu aðstæður sem eru fyrir einkarekstur og samvinnurekstur hér á landi eru ekki orðnar til fyrir tilviljun. Samvinnufélögin starfa víða um land og í öllum byggðarlögum. Þau eru félög fólksins í þessum byggðarlögum. Þau hafa orðið að taka á sig ýmis verkefni á þröngum markaði sem er ekki arðbær meðan einkaframtakið hefur getað hreiðrað um sig þar sem fjölmennið er og þar sem möguleikarnir eru mestir. Þetta er grundvallarmismunur og þetta eru aðstæður sem samvinnufélögin standa frammi fyrir og þurfa að bregðast við. Samvinnufélögin hafa gengið í gegnum miklar breytingar á sínum rekstri undanfarið. Þar hefur verið tekið á ýmsum málum og félögin hafa gengið í gegnum ýmsar sársaukafullar breytingar. Samvinnufélög hafa verið lögð niður, þau hafa verið stækkuð þannig að þetta form er í mikilli þróun. Það eru miklar breytingar fram undan í þessum rekstri en það er jafnnauðsynlegt að endurskoða og færa til nútímahorfs þá rammalöggjöf sem starfað er eftir.