Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Árni Johnsen:
    Herra forseti. Ég vil taka undir það sem síðasti hv. ræðumaður sagði hér í ræðustól. Það er dapurlegt til þess að vita að hinn ágæti hv. þm. Eiður Guðnason skuli taka að sér að flytja hér inn í þingsali misskilning og fordóma. Slík gögn liggja fyrir í þessu máli að menn eiga ekki að þurfa að vaða reyk í þeim efnum. Það er ekkert til sem heitir laumaspil sem hefur verið unnið í þessu verki. Það hefur verið unnið að undirbúningi endurbyggingar og endurreisnar Þjóðleikhússins í fjögur ár af fjölda manna. Það er nær undantekningarlaust að allir sem þar hafa komið að verki eru sammála, samdóma álit. Yfir 95% starfsmanna Þjóðleikhússins eru sammála þeim breytingum og lagfæringum sem þarf að gera og rök eru fyrir. Það segir sína sögu því allir þekkja hvað þau hús sem menn vinna í og hafa unnið í áratugum saman eru viðkvæm fyrir þann sem er þar innan húss.
    Hv. flm. þessarar tillögu vitnar gjarnan til þess að fólkið í landinu sé á móti viðgerð og endurreisn Þjóðleikhússins. Það er rangt að taka þannig til orða þó svo að einhverjir 10--15 manns hafi hringt í hann vegna tillögu hans. Það skiptir ekki máli, eins og sagt er. Það sem skiptir máli er að hafa rök og vitneskju fyrir hlutunum. Ég gæti nefnt tugi ef ekki hundruð manna sem hafa haft samband við undirritaðan vegna þessara lagfæringa á Þjóðleikhúsinu. Að segja að eftir því sem Borgarleikhúsi hafi fleygt fram hafi óánægja vaxið með Þjóðleikhús eru rangfærslur.
    Að halda því fram að verið sé að byggja nýtt leikhús inni í Þjóðleikhúsinu er fáránlegt, hreint út sagt fáránlegt. 97% af fjármagninu sem fer í endurreisn Þjóðleikhússins er vegna viðgerða og lagfæringa. Hin prósentin eru vegna breytinga. Það þýðir ekkert að snúa út úr því. Það er staðreynd og fyrir því liggja gögn sem öllum eru opin og þingmenn hafa fengið og fjvn. fékk á sínum tíma. Það hefur ekkert breyst frá því að þetta mál var afgreitt úr höndum
Alþingis um síðustu áramót.
    Hver var það sem bað um að nýtt hús yrði byggt inni í Þjóðleikhúsinu? Þegar menn skoða verk sem á að vinna, þegar komið er að því eftir 70 ár í einu húsi sem hefur farið varhluta af viðhaldi, þegar komið er að því að það á að taka til hendinni þar, þá huga menn auðvitað að því sem hægt er að lagfæra og skynsamlegt er að lagfæra. Leikhús er ekki listaverk út af fyrir sig. Leikhús er ekki eins og Kjarvalsmálverk eða Ásgrímsmynd. Við horfum á þær myndir og viljum ekki breyta þeim. En leikhús er til þess að nota það. Það eru breyttar kröfur, breytt tækni og breytileg aðstaða sem þarf að taka tillit til. Það sem bað um að gerðar yrðu lagfæringar og breytingar á Þjóðleikhúsi eru til að mynda sjónlínur, hlustun, öryggisleiðir, öryggiskerfi margs konar. Allt aðrar kröfur en gerðar voru fyrir 60--70 árum þegar húsið var í byggingu. Þjóðleikhúsið var byggt sem bíó. Þess vegna eru sjónlínur mitt á milli sviðsgólfs og lofts. Það er gat fyrir rúllugardínur vegna þess að reiknað

var með að allar leikmyndir um aldur og ævi í Þjóðleikhúsinu yrðu eins og gluggatjöld. Það verður að horfast í augu við staðreyndir ef ganga á til verks, lagfæra eins og hægt er án þess þó að taka burt, eins og sagt er, anda hússins.
    Þetta verk hefur verið ótrúlega mikið kynnt út á við, og meira en flest önnur opinber verk af sömu stærðargráðu, með greinum, með flutningi efnis í sjónvarpi og ef menn hafa lokað augunum og ekki viljað hlusta á eða viljað vita af því þegar það var gert, þá er við þá sjálfa að sakast en ekki aðra.
    Af þeim 122 arkitektum sem skrifa undir áskorun um húsfriðun án nokkurs tillits til notkunar hússins sem leikhúss eru innan við 20 sem hafa kynnt sér málið á þeim fundum sem hefur verið boðað til, innan við 20. Og meira að segja á sérstökum fundi með arkitektum komu örfáir arkitektar. Að standa vörð um verk Guðjóns Samúelssonar hefur verið kjörorð byggingarnefndar og þeirra sem hafa unnið að málinu.
    Það verður að segjast eins og er um húsameistara að hann hefur á vinnslustigum málsins hegðað sér eins og vindhani. Hann hefur einn daginn verið með, annan á móti, einn daginn kom hann með framúrstefnuhugmyndir, annan húsfriðunarhugmyndir og það hefur ekki verið vitglóra í þeim vinnubrögðum, svo hreint sé úr pokahorninu talað. Það er óboðlegt. Það er auðvitað óboðlegt líka að húsameistari skuli skrifa undir það ávarp sem hv. flm. tillögunnar vitnaði til vegna þess að húsameistari ríkisins krafðist þess í skjóli embættis síns að aðrir arkitektar kæmu ekki við sögu. Ef húsameistari hafði ekki geð til að vinna það verk sem hann tók að sér átti hann auðvitað ekki að gera það. Þess vegna er óboðlegt að koma eftir á og segja: Ekki ég, ekki meir.
    Þess ber að geta að Garðar Halldórsson húsameistari hefur staðfest það á opinberum fundum að hann telji að Þjóðleikhúsið verði mun betra sem leikhús með þeirri lagfæringu og endurbót sem gerð er en það gangi á húsfriðun eins og hún gengur lengst. Mun betra leikhús. Sjónlínur verða betri fyrir alla sem eru í leikhúsnu, þær verða góðar fyrir alla. Það er nefnilega úrelt að ástæða sé
til að reikna með fátæku fólki einhvers staðar í húsinu í afkimum, svo sem á efri svölum sem hafa nýst um 7--8% í gegnum tíðina og voru samþykktar í trássi við vilja Guðjóns Samúelssonar. Það var byggingarnefnd 1931 sem samþykkti að efri svalir ættu að vera til að fjölga sætum gegn vilja höfundar hússins. Guðjón Samúelsson kom einnig með æðimargar tillögur þegar tekið var til hendi og á endasprettinum við að byggja Þjóðleikhúsið á árunum 1946--1950 en þær fengust ekki fram vegna þess að byggingarnefnd hafði ekki fjármagn eða tíma til þess að taka tillit til þess.
    Það er rangt að húsfriðunarnefnd hafi verið tekin á beinið til þess að breyta áliti sínu. Húsfriðunarnefnd var beðin um að taka þátt í störfum að endurreisn Þjóðleikhússins, en hafnaði því bréflega. Þó heyrir Þjóðleikhúsið ekki undir byggingarnefnd. Þetta er í fyrsta skipti sem byggingarnefnd í opinberum framkvæmdum kallar til húsfriðunarnefnd þar sem

ekki var þörf til.
    Haldnir hafa verið fjölmargir fundir með leikurum, með arkitektum, með sérfræðingum, með leikmönnum á liðlega árs tímabili, reglulegir fundir þar sem málið er kynnt og engin launung hefur verið á neinum þáttum.
    Hannes Kr. Davíðsson arkitekt, sem vitnað var til, hefur byggt myndlistarhús sem er illmögulegt að nota sem myndlistarhús. Þó hann vilji byggja leikhús sem er illmögulegt að nota sem nútímaleikhús með reisn verður það að vera hans mál en maður getur þakkað fyrir að slíkur maður teikni ekki t.d. handboltahöll.
    Engum upplýsingum hefur verið haldið leyndum, allt hefur legið borðleggjandi sem unnið hefur verið í þessu máli og það eru rök fyrir öllum breytingum. Breytingar sem eru gerðar þær eru gerðar í anda hússins, þær eru gerðar eftir
þeirri línu sem Guðjón Samúelsson lagði í bygginguna á sínum tíma og hafa verið sterkustu þættir hennar þar sem það hefur skorið sig úr svo sem í lofti leikhússins þar sem stuðlabergið er.
    Í lokin er ástæða til að árétta það að faglega hefur verið að þessu verki staðið. Það er samdóma álit manna úr hinum ýmsu áttum að rétt sé að framkvæma verkið og gera Þjóðleikhúsið að betra húsi með því sterka svipmóti sem Guðjón Samúelsson lagði í það.