Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég tek undir þessa þáltill. og tel mjög brýnt að tekið verði á því máli sem hér er hreyft. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rætt er um þessi mál hér á Alþingi. Eins og kom fram í máli þeirra sem hér hafa talað á undan mér hefur allt of lítið verið gert í raun og veru þrátt fyrir að vilji hafi komið fram um að eitthvað þurfi að gera.
    Ég tek eftir því að þingmenn Vesturl. eru flm. að þessari tillögu og hér hafa þingmenn dreifbýlisins talað. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði, að mig minnir, að ,,við dreifbýlisþingmenn þyrftum að taka okkur á,,. Ég er þingmaður Reykv., eins og kunnugt er, og ég er alveg viss um að ég tala fyrir munn fleiri þingmanna höfuðborgarsvæðisins þegar ég segi að við þurfum að gera eitthvað í þessu máli. Þetta er ekki eingöngu mál landsbyggðarinnar heldur okkar allra. Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni þegar fram kemur að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að taka á sig á þriðja milljarð aukakostnað vegna húshitunar til þess að búa fyrir utan þetta svæði hér sem við erum nú stödd á. Ég held að það ætti að geta skapast samstaða um þetta mál.
    Stjórn Landsvirkjunar hefur þegar ákveðið að minnka þann afslátt sem gefinn hefur verið á húshitunartaxta, ef ég man rétt úr rúmlega 90 millj. kr. í liðlega 40 millj. á þessu ári sem hlýtur að vekja mann til umhugsunar um hvað þarna er á ferðinni og hvers vegna þessi lækkun hefur verið ákveðin. Það er vitnað til þess að olíukynding sé nú orðin það dýr að það þurfi ekki að lækka húshitunarkostnað með rafmagni. Það þykja mér ekki rök í þessu máli. Ég held að það sé alveg rétt að það þurfi að breyta lögum um Landsvirkjun til að við getum tekið á þessu máli, það sé ekki nóg að höfða eingöngu til þess að það þurfi samstöðu um að jafna þennan orkukostnað. Það virðist ekki vera skilningur í þeim herbúðum þannig að ég er alveg sammála
því sem hér hefur komið fram að við þurfum að taka á okkur rögg og breyta lögum um Landsvirkjun.
    Við sem búum hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu erum svo heppin að geta nýtt þá auðlind sem heita vatnið er. En ég er þeirrar skoðunar að auðlindir landsins eigi að vera öllum landsmönnum til hagsbóta, ekki bara þeim sem næst þeim búa. Því sé ekkert óeðlilegt að við sem búum hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu tökum á okkur auknar byrðar auk þess sem við þurfum að gera ráð fyrir því að hluti af þeim ágóða sem Landsvirkjun hefur sýnt verði tekinn til jöfnunar. Ég vona að þessi þáltill. verði samþykkt og það verði til þess að eitthvað raunhæft verði gert í málunum sem fyrst.