Kyrrsetning, lögbann o.fl.
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. frá allshn. Þessu frv. er einkum ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um kyrrsetningu og lögbann, nr. 18 22. mars 1949. Viðfangsefni frv. líkt og núgildandi laga er fyrst og fremst að kveða á um heimildir til bráðabirgðaverndar réttinda sem ekki verður þegar fullnægt með aðför með því að tryggja að óbreytt ástand vari meðan aflað er úrlausnar dómstóla um þau.
    Frv. þetta er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan og réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði. Er það sniðið að þeirri skipan sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989, og að þeim forsendum sem gengið var út frá í samningu frv. að þeim lögum og nánar er lýst í athugasemdum með því.
    Hæstv. dómsmrh. gerði ítarlega grein fyrir innihaldi frv. að öðru leyti við 1. umr. málsins og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það hér nú. Við meðferð málsins í Nd. hafði verið leitað umsagna um frv. frá Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Sýslumannafélagi Íslands og gerðu þessi félög engar athugasemdir við frv. en félagsmenn þeirra eru þeir sem fyrst og fremst fjalla um þau málefni sem frv. kveður á um. Einnig var rætt við Markús Sigurbjörnsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem átti stærstan þátt í samningu þess.
    Með tilliti til þessara umsagna og hinnar ítarlegu meðferðar sem þetta mál hefur fengið og þar sem engar athugasemdir hafa komið fram leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir það nál. skrifa allir nefndarmenn allshn. Ed.