Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 67/1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu, og leggur til að það verði samþykkt án breytinga. Undir það rita allir nefndarmenn, Þórhildur Þorleifsdóttir, Friðrik Sophusson, Birgir Dýrfjörð, Guðmundur G. Þórarinsson, Einar Kr. Guðfinnsson, Ragnar Arnalds og undirritaður.
    Þetta frv. lýtur að því að nú hafa breyst stjórnarhættir í Namibíu þannig að ekki er lengur ástæða til að hafa viðskiptabann á því ríki. Enn fremur er í 2. gr. frv. skýrar kveðið að orði en gert er í gildandi lögum þannig að ekki þarf að orka tvímælis.