Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. flm. þessa frv. fyrir mjög greinargóðan málflutning með máli þessu. Hér er, eins og fram hefur komið, fyrst og fremst um að ræða mikið réttlætismál að því leyti til að hér er verið að leiðrétta misrétti sem aldrei hefði átt að verða. Og það er verið að hlúa að þeirri hugsun að aldraðir geti átt sómasamlegt ævikvöld. Það er ekki verið að leggja til neinar ítarlegar breytingar heldur einungis að færa í það horf að hægt sé að sætta sig við ástandið eins og það er núna, verði þetta frv. að lögum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um frv. í einstökum atriðum þar sem þegar hefur verið gerð góð grein fyrir því. En mér þykir ekki annað við hæfi en að taka undir efni þess hér úr ræðustól ekki síður en vera meðflm. að þessu máli. Ég ítreka að það er mjög gott að hér skuli hafa verið tekið af skarið og komið með ítarlegar og góðar tillögur til að leiðrétta það sem aldrei skyldi verið hafa.