Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umræðum. En eftir ræðu þá sem hv. 8. þm. Reykv. flutti áðan get ég ekki orða bundist og þá kannski fyrst og fremst vegna þess að hann sagði tvennt sem ég trúi ekki að hann hafi meint. Ég sá og skynjaði að honum var mjög mikið niðri fyrir og í hans máli kom tvennt fram sem vakti mér ákaflega mikla furðu.
    Hið fyrra var þegar hann sagði að tilvist Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi hefði tafið alla tæknivæðingu á Íslandi (Gripið fram í.) og tafið stóriðjumál á Íslandi. Ég held að ég hafi heyrt alveg nákvæmlega hvað hv. þm. sagði. Ég sé satt að segja ekki samhengið þarna á milli, mig brestur alveg á því skilning. Í öðru lagi sagði hv. þm. að Bandaríkjamenn hefðu notað Marshall-aðstoðina til að losa sig við rusl og nefndi sérstaklega í því sambandi Áburðarverksmiðjuna og Hæring. Ég heyrði þetta alveg eins og aðrir hv. þm. og ég trúði satt að segja ekki mínum eigin eyrum að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi meint þetta. Ég vil skilja hans orð þannig að honum hafi orðið á mismæli og hann hafi ekki meint þetta. Ég vona að hann komi og skýri það hér á eftir.
    En fyrst ég, virðulegi forseti, er kominn hér í ræðustól þá langar mig að segja örfá orð um efni þess máls sem hér er til umræðu. Það er nú svo með marga mannlega starfsemi og atvinnustarfsemi að henni fylgir ýmis hætta og margs konar hætta. Auðvitað er það svo að við getum aldrei komið í veg fyrir að fullu og öllu að af þessari starfsemi kunni okkur að stafa hætta. Auðvitað gerum við samtímis allar þær ráðstafanir sem okkur er unnt og eru í mannlegu valdi til að draga úr þeirri hættu.
    Hér tala menn um Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Þar höfum við sígilt dæmi um það að þegar stofnað er til atvinnustarfsemi sem menn telja að einhver hætta fylgi þá er henni valinn staður fjarri byggð. Síðan teygir byggðin sig að þessari starfsemi þangað til menn segja: Nú verður þessi starfsemi að fara af
því að hún er allt of nálægt byggð. Við höfum þessi dæmi t.d. með flugvelli, við höfum þessi dæmi með vegi þar sem vegurinn er fyrst lagður þar sem eru engin hús. Síðan teygir byggðin sig að veginum og loks segja menn: Ja, þessi vegur er allt of mikið ofan í byggðinni, nú verður vegurinn að fara. Það er svipað dæmi sem við höfum hér. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga það sem er í skjölum sem lögð voru á borð hv. þm. hér áðan. Þar er fjallað um Áburðarverksmiðjuna og talað um að reisa nýjan og öruggari ammoníaksgeymi. Nú er það svo, eftir því sem mér skilst og er nú ekki mjög tæknifróður, að köfnunarefnisáburður eins og framleiddur er í Áburðarverksmiðjunni verður ekki framleiddur nema með því að nota ammoníak. Og spurningin er þá: Hvernig er hægt að geyma þetta ammoníak með sem allra öruggustum hætti?

    Það hefur komið fram í þessum umræðum að til þess völdu menn þá leið og tóku þá ákvörðun að byggja nýjan geymi af þeirri traustustu gerð sem til er. Og í þessum skjölum sem lögð voru á borð þingmanna segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar reistur hefur verið nýr og öruggari ammoníaksgeymir er talið að Áburðarverksmiðja ríkisins fullnægi í aðalatriðum öllum öryggiskröfum sem gerðar eru til hennar, en þær eru strangar. Því er af öryggisástæðum ekkert því til fyrirstöðu að athafnasvæði nái alveg að lóð verksmiðjunnar.``
    Það er sjálfsagt með þetta í huga m.a. sem hér segir líka: ,,Enn fremur má benda á að 29. sept. sl. framlengdi Reykjavíkurborg lóðarleigusamning við Áburðarverksmiðjuna fram til ársins 2019.`` Það hefur væntanlega verið borgarstjórinn í Reykjavík sem hér hefur mjög borið á góma sem hefur gert þennan samning fram til ársins 2019. En í þessum samningi segir, með leyfi forseta í 2. gr.: ,,Lóðin er leigð til þess að reisa á henni og reka verksmiðju til vinnslu áburðar, áburðargeymslu og annarrar starfsemi leigutaka að meðtalinni verslun með tilbúinn áburð.``
    Síðar í þessu skjali er fjallað um nefnd sem skipuð var til að kanna þá hættu sem íbúðarbyggð í Grafarvogi og Borgarholti gæti stafað af Áburðarverksmiðjunni. Þar segir: ,,Nefndin skilaði áliti sínu haustið 1985 og var það lagt fyrir borgarráð 29. okt. Þar kemur m.a. fram að ef gerðar verða tilteknar öryggisráðstafanir í verksmiðjunni sjálfri getur byggð verið í 1200 metra fjarlægð frá henni. Í skipulaginu er miðað við þessi fjarlægðarmörk.``
    Ég held að þessi mörk hafi áður verið 1600 metrar. Þarna er sem sagt samþykkt að færa byggðina nær. Menn telja hættuna ekki meiri en svo. Vissulega er fyrir hendi hætta af Áburðarverksmiðjunni. Um það er ekki deilt. Og ég er alveg sannfærður um að þessi verksmiðja verður ekki mjög mörg ár til viðbótar þarna. Í fyrsta lagi er þar til að taka að mér sýnist að þarfir íslensks landbúnaðar fyrir áburð muni fara minnkandi eftir því sem við aðlögum landbúnaðarframleiðsluna að innanlandsneyslu. Í öðru lagi hafa menn áhyggjur af mikilli áburðarnotkun vegna þeirrar mengunar sem hún veldur. Það er því líklegt að þessi framleiðsla muni minnka. Auðvitað gengur þessi verksmiðja úr sér eins og annað.
    Ákvörðun um að hætta þessari starfsemi taka menn ekki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þáltill. hv. 13. þm. Reykv., Guðrúnar Helgadóttur, að þetta skuli gera án tafar. Menn hljóta auðvitað að skoða málin miklu betur. Menn hljóta að gera áætlun um það hvernig hægt er að finna því fólki störf sem þarna starfar. Menn hljóta að gera áætlun um það hvernig hægt er að nýta þann húsakost sem þarna er á svæðinu og þetta hlýtur auðvitað að gerast á allmörgum árum. Ég er alveg sannfærður um það að fyrir aldamót t.d. verður þessi verksmiðja hætt að starfa. Kannski verður hún þá löngu hætt að starfa.
    En auðvitað verða menn þá að skoða þá atburði sem nú urðu um páskana og menn hafa gert það. Það er ljóst að um mannleg mistök var að ræða. Það var

hætta fyrir hendi en það er líka ljóst að það hefur verið gert gróflega mikið úr hversu alvarlegt ástandið var. Þar er hlutur fjölmiðla satt best að segja ekki mjög góður og raunar töluvert umhugsunarefni.
    Áreiðanlega kemur að því að þessari starfsemi verður hætt á þessum stað. En það þýðir ekki að hætt verði að geyma ammoníak hér í landinu. Það er notað á ýmsum öðrum stöðum, t.d. í frystiiðnaðinum mjög, og það verða áfram vandamál samfara því sem menn munu auðvitað leysa. Mér sýnist að hér sé vissulega ástæða til að staldra við en ekki ástæða til þess upphlaups sem hér hefur verið gert. Það er ástæða til að skoða þetta niður í kjölinn af fyllstu alvöru. Það hefur verið gert og niðurstöðurnar liggja nokkurn veginn fyrir. Það urðu mannleg mistök en sú hætta sem fjölmiðlar hafa látið liggja að mjög sterkt var aldrei fyrir hendi. Það er auðvitað mergurinn málsins. Mér finnst það ekki meðmæli með þeim stjórnmálamönnum sem nú hafa hlaupið upp til handa og fóta og kynt undir og aukið á þessa hræðslu og þennan ugg, án þess að hafa í huga staðreyndirnar og kalt mat á því sem hér hefur verið að gerast og hverjir áhættuþættirnir eru. Ekkert hefur komið fram í rauninni sem ekki var áður vitað. Nú vitum við að þessi geymir sem þarna er um að ræða verður ekki notaður. Hann verður ekki notaður aftur, það liggur fyrir. Um það hefur verið tekin ákvörðun. En þegar ráðandi aðilar hjá Reykjavíkurborg taka ákvörðun um að leyfa þennan rekstur fram til ársins 2019, ja hvað á maður að segja þá um þeirra afstöðu? Það er ekki merkileg pólitík og það er mjög óábyrgt að mínu mati hvernig fjölmiðlar og ákveðnir stjórnmálamenn hafa komið þessu máli á framfæri. Ástæðurnar eru ekki í neinu samræmi við þann ótta sem menn hafa kallað hér fram og þau stóru orð sem hafa verið látin falla í þessari umræðu. Ég held að þeir, sem hæst hafa haft hér, muni eftir á að hyggja þegar málið er skoðað,
vegið og metið, þeir hagsmunir sem hér vegast á og þegar mönnum er ljóst að þessi mikla hætta var í rauninni aldrei fyrir hendi, fleiri en einn og fleiri en tveir sérfræðingar hafa nú skýrt frá því og því hefur ekki verið andmælt með rökum, þá muni þeir sem fyrir þessu upphlaupi stóðu ekki hafa af því mjög mikinn sóma.