Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka félmn., bæði meiri hl. og minni hl. nefndarinnar, fyrir afgreiðslu á þessu frv. Ég tel að nefndin hafi unnið hér gott starf og farið ítarlega yfir frv. og það hafi fengið góða umfjöllun. Fyrir það vil ég þakka og ég tel að þær brtt. sem hér hafa verið lagðar fram séu til bóta.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. kom víða við í sinni ræðu og lagði fyrir mig ýmsar spurningar um húsnæðismálin á mjög breiðum grundvelli. Ég skal leitast við að svara þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fyrir mig.
    Hv. þm. kom í fyrsta lagi inn á greiðsluerfiðleikalánin. Það er auðvitað nokkurt áhyggjuefni hvað greiðsluerfiðleikalán hafa verið viðvarandi lengi. Síðan 1985 hygg ég að úthlutað hafi verið vegna greiðsluerfiðleika um þrem milljörðum kr. Hv. þm. spyr um stöðu þessara mála núna. Sú skýrsla sem ég fékk fyrir nokkrum vikum síðan sýndi að 250 umsóknir um lán voru óafgreiddar hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Viðræður hafa staðið lengi yfir milli viðskrn., félmrn. og Húsnæðisstofnunar annars vegar og viðskiptabankanna og sparisjóða hins vegar um að þeir tækju þátt í þessum greiðsluerfiðleikalánum. Niðurstaða fékkst í það mál í upphafi ársins þannig að viðskiptabankar og sparisjóðir lögðu til greiðsluerfiðleikalána um 130 millj. kr. Það var mat Húsnæðisstofnunar að með því fjármagni mundi vera hægt að afgreiða þessar óafgreiddu umsóknir sem fyrir lágu, sem voru um 250. Frekari afstaða hefur ekki verið tekin til greiðsluerfiðleikamálanna en ég hef hér lýst. Það hefur verið reynt að fullnægja þeim umsóknum sem liggja fyrir. Auðvitað er viðbúið að koma þurfi til fleiri greiðsluerfiðleikalána á þessu ári og mun ég skoða það mál sérstaklega og taka upp í ríkisstjórninni ef efni standa til.
    Hv. þm. fór hér nokkrum orðum um húsaleigubætur og leigumiðlanir, sem að vísu eru ekki í þessu frv. eins og það er hér lagt fram. Þess er getið í greinargerðinni vegna þess að nefnd sú sem fjallaði um frv. skilaði einnig ítarlegri skýrslu um félagslega húsnæðiskerfið eins og ég minnti hv. þm. á við 1. umr. málsins og væri e.t.v. fróðlegt fyrir hann að fara yfir hana. Þar er getið ýmissa annarra tillagna en fram koma í frv. sem nefndin telur rétt að verði kannaðar sérstaklega. Þar á meðal eru þessar húsaleigubætur og leigumiðlanir.
    Þar sem húsaleigubætur eða löggjöf um það efni er ekki í höndum félmrn. heldur í höndum fjmrn. vil ég upplýsa að mér er kunnugt um að fjmrn. er að skoða það mál sérstaklega. Hvernig útfærslan á því verður í einstökum atriðum er mér ekki kunnugt um á þessari stundu.
    Hv. þm. fór nokkrum orðum um fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna. Ég held að nauðsynlegt sé að athuga út frá hvaða forsendum við ræðum fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna. Það er alveg ljóst og

liggur fyrir að þrátt fyrir að ríkisframlög hafi verið skorin niður hefur útlánageta sjóðanna ekki skerst. Vil ég t.d. minna á í því sambandi að frá því að biðraðakerfið var tekið upp 1986 hafa útlánin engu að síður aukist að raungildi um 56%. Ég miða hér við verðlag 1989. Þá var um 4,8 milljörðum úthlutað í lán frá Byggingarsjóði ríkisins en á árinu 1989 var það um 7,5 milljarðar. Og ef við tökum með á þessu ári það fjármagn sem fer til húsbréfakefisins, þá erum við að tala um útlán úr Byggingarsjóði ríkisins upp á 9,6 milljarða og heildarútlán að meðtöldum Byggingarsjóði verkamanna upp á 13,4 milljarða kr.
    Hitt er engu að síður ljóst með það kerfi sem við höfum búið við frá 1986 að við þekkjum þá galla sem það býr yfir. Það er nú einu sinni svo að þrátt fyrir það að úitlánin hafi aukist að raungildi um það fjármagn sem ég hef hér lýst, þá er enn óleyst þörf í kerfinu upp á 21 milljarð kr. og biðröðin í þessu ... ( Gripið fram í: Hvað á ráðherrann við með því?) Ég er að tala um óafgreiddar umsóknir í þessu kerfi frá 1986, það kostar um 21 milljarð kr. að afgreiða þær umsóknir. Engu að síður er biðtíminn þarna mjög langur eða 2--3 ár.
    Ég held að líka sé rétt að skoða málin í því ljósi að mikill vaxtamismunur hefur verið í húsnæðislánakerfinu frá 1986. Hefur vaxtamunurinn verið um 3% eða rúmlega það í þessu kerfi. Það er auðvitað hverjum manni ljóst að slíkar niðurgreiðslur kosta mjög mikla fjármuni. Kannski er rétt að minna á að með hverju 4 millj. kr. láni úr Byggingarsjóði ríkisins greiðir sjóðurinn um 3,5 millj. í niðurgreiðslur vaxta á lánstímanum. Þetta hafa lántakendur fengið hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki. Þetta kerfi kallar auðvitað á það að fólk fer í biðröð eftir þessum lánum hvort sem það þarf á því að halda eða ekki og þær miklu niðurgreiðslur, sem ég hef hér lýst, hefur ríkissjóður þurft að greiða til ýmissa sem hafa verið að sækja í þetta kerfi þó þeir hafi ekki þurft á því að halda, þó þeir hafi átt íbúð fyrir o.s.frv. Og þessi langa biðröð hefur auðvitað orðið til þess að þeir sem eru í brýnni þörf hafa þurft að bíða þarna lengi.
    Fyrir nokkru síðan setti ríkisstjórnin í gang, að minni ósk, úttekt á fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna. Þar átti auðvitað sérstaklega að líta á eiginfjárstöðu sjóðanna og skoða þann mikla vaxtamun sem er í kerfinu og þörf
fyrir ríkisframlag. Væntanlega lýkur þeirri úttekt innan tíðar og ættu niðurstöður að liggja fyrir áður en farið verður að vinna að næstu fjárlögum. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að tekið verði mið af þeirri úttekt við fjárlagagerðina að því er varðar stöðu sjóðanna. Ef hugmyndin er að viðhalda því kerfi frá 1986 sem ég hef hér lýst, sem kallar á þetta mikla fjármagn og með því að það er það mikill vaxtamismunur í þessu kerfi, þá verða menn auðvitað að gera það upp við sig, til þess að ekki sé gengið á eiginfjárstöðu sjóðsins, hvort auka eigi ríkisframlagið í Byggingarsjóð ríkisins eða að skoða hvernig hægt er að brúa þann vaxtamun, hvort eigi að gera það með

hækkun vaxta í kerfinu eða með öðrum hætti.
    Hitt verða menn líka að skoða í þessu ljósi að með upptöku húsbréfakerfisins hafa forsendur verulega breyst að því er varðar ríkisframlag. Og ef við byggjum ekki við þetta kerfi sem við búum við í dag frá 1986, þá þyrftum við ekki að nota ríkisframlag í annað en félagslega kerfið. Svar mitt til hv. þm. er því að þetta mál, að því er varðar fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna, er í sérstakri skoðun af hálfu ráðuneytisins. Um það hefur verið fjallað í ríkisstjórn og vænti ég að niðurstöður geti legið fyrir þannig að hægt sé að taka mið af þeim við næstu fjárlagagerð.
    Að því er varðar úthlutun félagslegra íbúða til einstakra sveitarstjórna og annarra sem sækja um er það alveg deginum ljósara, og hv. þm. ætti að vera það ljóst, að félmrh. eða félmrn. hafa ekki afskipti af þessari úthlutun. Sú löggjöf sem við búum við er með þeim hætti að ráðherra getur ekki haft afskipti af þeirri úthlutun. Það ber ekki einu sinni að leggja hana fyrir ráðherra til staðfestingar, hvað þá að ráðherra hafi bein áhrif á þessa úthlutun. Enda sá ég ekki fyrr en fyrst í gær hvernig sú úthlutun leit út. Hitt er annað mál að Húsnæðisstofnun hefur haft skýrslu nefndar Byggðastofnunar til hliðsjónar sem hv. þm. ætti nú að vera kunnugt um. Ég veit ekki betur en hann eigi sæti í stjórn Byggðastofnunar. ( HBl: Þetta er ekki skýrsla Byggðastofnunar.) Þetta er skýrsla sem var unnin af Byggðastofnun. ( HBl: Hún var unnin af starfsmönnum en ekki á ábyrgð Byggðastofnunar.) Hvað sem því líður var óskað eftir þessari útttekt af hálfu húsnæðismálastjórnar og í nafni Byggðastofnunar er þessi skýrsla afhent húsnæðismálastjórn, ég veit ekki betur. Í þeirri úthlutun félagslegra íbúða á landsbyggðina, sem fram hefur farið nú, hefur verið gengið mun lengra en þessi skýrsla kvað á um og er það vel.
    Að því er varðar það hvort Húsnæðisstofnun stýrir því hvaða félagsleg form íbúða hvert sveitarfélag fær, þá veit ég ekki hvað skal segja um það. Sveitarfélögin hafa þarna fjóra kosti. Þau geta sótt um almennar kaupleiguíbúðir, félagslegar kaupleiguíbúðir, verkamannabústaðaíbúðir og leiguíbúðir. Ég verð að segja að það kom mér svolítið spánskt fyrir sjónir hvernig skiptingin var milli verkamannabústaða og kaupleiguíbúða miðað við þær umsóknir og vilja sveitarfélaganna sem lá fyrir. Það lá fyrir að sveitarfélögin höfðu sótt um 972 kaupleiguíbúðir en fengu einungis úthlutað tæplega þriðjungi af sinni ósk, þ.e. 300 kaupleiguíbúðum var úthlutað en óskir sveitarfélaganna voru 972 kaupleiguíbúðir. Aftur á móti var ósk sveitarfélaganna um 570 verkamannaíbúðir og þar er úthlutað 351 eða um 65% af því sem óskað var eftir, meðan það var einungis úthlutað um 300 kaupleiguíbúðum þó að sveitarfélögin óski eftir 972 íbúðum. Húsnæðismálastjórn stýrir þessu með ákveðnum hætti að verkamannabústaðakerfinu, að mér sýnist helst gegn vilja margra sveitarfélaga.
    Að því er varðar forkaupsréttinn sem hv. þm. nefndi og fram kemur í frv. vil ég vitna til þess sem segir um þessa grein. Þar er sagt: ,,Í því skyni að

koma í veg fyrir að sveitarfélög, sem hafna forkaupsrétti að félagslegri íbúð, ráðist á sama tíma í framkvæmdir við félagslegar íbúðir er lagt til að höfnun á forkaupsrétti standi í vegi fyrir láni til þess sveitarfélags næstu þrjú árin frá því að forkaupsrétti var synjað. Með því móti má afstýra því að sveitarfélög takist á hendur ónauðsynlegar framkvæmdir við félagslegar íbúðir.``
    Auðvitað ber til þess að horfa að verulega mikið af opinberu fjármagni er sett til félagslegra íbúða og það styrkt með margvíslegum hætti. Því hljóta að vera ákveðnar kvaðir og skilyrði inni í löggjöf sem stuðla að því að halda þessum félagslegu íbúðum sem félagslegum íbúðum áfram en þær fari ekki á almennan markað. Ég hygg að þetta ákvæði sé m.a. til komið til þess. Á það ber einnig að minna að ég minnist þess ekki að Samband ísl. sveitarfélaga hafi gert athugasemdir við þetta ákvæði og minni einnig á það að Samband ísl. sveitarfélaga átti fulltrúa, átti aðild að samningu þessa frv. Veit ég ekki til að ágreiningur hafi verið um það hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það eru þá helst sveitarfélögin sem ættu að gera athugasemdir við þetta ákvæði ef þeim sýndist svo.
    En ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fjölyrða meira um þetta mál og læt máli mínu lokið.