Skaðsemisábyrgð
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skaðsemisábyrgð. Frv. fjallar um skaðabótaábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á tjóni sem hljótast kann af ágalla á vöru sem þeir hafa framleitt eða látið af hendi á annan hátt. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert mál af þremur ástæðum.
    Í fyrsta lagi af því að það bætir stórlega réttarstöðu neytenda hér á landi.
    Í öðru lagi af því að það er liður í samræmingu viðskiptalöggjafar í Vestur-Evrópu.
    Í þriðja lagi af því að það er nauðsynlegur þáttur í því að tryggja okkar vöruútflutningi hindrunarlausan aðgang að innri markaði Evrópubandalagsins og markaði annarra EFTA-ríkja.
    Skaðsemisábyrgð er það orð sem menn hafa valið á íslensku til að þýða orðin ,,produkt ansvar`` á skandinavískum málum eða ,,product liability`` á enskri tungu. Þessi grein skaðabótaréttarins er tiltölulega ung. Samkvæmt henni er meginreglan sú að sá sem bíður tjón vegna skaðlegra eiginleika framleiðsluvöru geti krafist bóta beint frá framleiðanda eða frá framleiðanda og dreifingaraðila í sameiningu. Meginábyrgðin fyrir hinum skaðlegu eiginleikum framleiðsluvörunnar liggur þó hjá framleiðandanum. Ef vara er innflutt tekur þó innflytjandi, eða annar dreifingaraðili á vörunni, á sínar herðar ábyrgðina á framleiðslunni. Á sameiginlegu markaðssvæði margra ríkja verður ekki um sérstakan innflytjanda að ræða heldur um framleiðendur og dreifingaraðila. Það er ekki síst vegna þessara væntanlegu breytinga á viðskiptaháttum í Vestur-Evrópu sem nauðsyn er á að flytja frv. eins og þetta.
    Virðulegur forseti. Vegna þess að tími til að ljúka þingstörfum er nú í knappara lagi mun ég stytta mál mitt en væntanlega gefst mér kostur á að skýra þetta frv. betur síðar. Ég nefni þó sérstaklega stóraukinn rétt neytenda sem af samþykkt frv. mun leiða.
    Í dag er ábyrgð framleiðenda leidd af hinum almennu skaðabótareglum og í vissum tilfellum kann hún að leiða til svipaðrar niðurstöðu og þetta frv. mundi gera ef að lögum yrði. En vegna aðildarreglna, þ.e. að sá sem fyrir tjóni kann að verða þarf að fara í mál við eiganda vörunnar, eigandinn við kaupmanninn sem seldi honum og síðan koll af kolli til framleiðandans, er oft erfitt og jafnvel með öllu ómögulegt að ná fram rétti þess sem fyrir tjóni verður vegna aðildarskorts framleiðandans. Nái þetta frv. fram að ganga verður aðgangurinn beinn. Beint að framleiðanda vörunnar, beint að dreifingaraðila eða aðilum sameiginlega, þ.e. framleiðendum og dreifingaraðilum. Þeir gera svo upp hinar greiddu skaðabótakröfur sín á milli í hlutfalli við þátt hvers og eins í hinum skaðvænlegu eiginleikum.
    Í öðru lagi nefndi ég að frv. er liður í samræmingu á viðskiptalöggjöf Vestur-Evrópuríkja. Þetta er rakið miklu nánar í athugasemdum með frv. En bæði Evrópubandalagið og EFTA hafa samþykkt í stjórnarstofnunum sínum að stuðla að samræmdri

löggjöf á þessu sviði þannig að réttindi almennings gagnvart tjóni sem hlýst af skaðsemi vöru séu hvarvetna samræmd.
    Í þriðja lagi nefndi ég að frv. væri þáttur í að tryggja íslenskri framleiðsluvöru hindrunarlausan aðgang að innri markaði Evrópubandalagsins og markaði EFTA-ríkjanna. Skýringin á þessu er sú að eftir að samræmdar reglur um skaðsemisábyrgð hafa verið lögfestar í þessum ríkjum muni dreifingaraðilar tregir til þess að selja vörur frá öðrum ríkjum en þeim þar sem tvímælalaust er hægt að fella skaðsemisábyrgð á framleiðanda vörunnar. Sé það ekki hægt sitja innflytjendur og dreifingaraðilar uppi með ábyrgðina. Þetta kynni að tefja fyrir framgangi og sölu íslenskrar framleiðsluvöru á hinum sameiginlega Evrópumarkaði. Vafalaust má í einstaka tilfellum leysa slíkan vanda með samningum. En hætt er við að það muni valda auknum kostnaði og erfiðleikum fyrir íslenska útflytjendur. Þess vegna er mikilvægt, bæði vegna hagsmuna neytenda og útflytjenda, að á þessu máli verði tekið.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að fjalla um einstakar greinar frv. en vil þó vekja sérstaklega athygli á 4. tölul. 1. mgr. 7. gr., þar sem fjallað er um ábyrgð á svokölluðum þróunarsköðum. Þetta er nánar skýrt í athugasemdum við frv. en löggjöf viðskiptaþjóða okkar er ekki samræmd hvað þróunarskaða varðar.
    Ég legg til að þetta atriði verði tekið til sérstakrar athugunar við nánari umfjöllun frv.
    Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því að þetta frv. megi að lögum verða á þessu þingi. Bæði er að skammur tími er til þingloka og málið þarfnast ítarlegrar og vandaðrar meðferðar. Ég legg hins vegar á það mikla áherslu að þessari umræðu um frv. verði lokið og málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. Málið þarf að fá þá kynningu sem framlagning frv. hefur í för með sér og það þarf að fá umsagnir frá ýmsum aðilum. Þar vil ég nefna sérstaklega samtök útflytjenda, samtök neytenda, samtök iðnrekenda, verslunar og vátryggjenda.