Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er reyndar um annað mál sem ég tel að hafi dregist úr hömlu. Hinn 19. febr. á þessu ári skrifuðu nokkrir þingmenn hæstv. forseta og báðu um skýrslu frá hæstv. iðnrh. um nýtt álver. Sú beiðni kom fram í framhaldi af yfirlýsingum hæstv. ráðherra fyrr á þessu þingi um að lagt yrði fram frv. um nýtt álver á yfirstandandi þingi.
    Fyrir um það bil hálfum mánuði spurðist ég fyrir um þessa skýrslu. Varð þá fyrir svörum starfandi iðnrh., hæstv. utanrrh. Kvaðst hann mundu beita sér fyrir því að unnið yrði að skýrslunni sem allra fyrst og hún lögð fram þannig að hægt yrði að ræða hana á yfirstandandi þingi. Það er stutt eftir af þingtímanum. Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, spyrja hæstv. ráðherra að því hvort búast megi við því, eftir að hæstv. ráðherra hefur haft þessa beiðni hjá sér í liðuga tvo mánuði, að skýrslan berist inn á þingtímanum með þeim hætti að hægt verði að ræða efni hennar.