Afgreiðsla þingmála
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Er óskaplega erfitt að skilja þetta? Það var farið fram á það við okkur að við liðkuðum til, að frv. um raforkuver yrði tekið fyrir í nefnd þó svo að 1. umr. yrði ekki lokið. Er ómögulegt að skilja það að það eru eðlileg viðbrögð hjá forseta deildarinnar, það er eðlileg kurteisi að halda umræðunni um raforkuver tafarlaust áfram nú á þessum fundi og vera ekki að smátefja og fara út í aðra sálma. Það var eftirtektarvert t.d., vegna þeirrar miklu þýðingar sem frv. um raforkuver hefur, að Alþfl. skyldi hafa tekið það fram yfir að koma til Nd. máli sem búið er að vera lengi í athugun í deildinni, var að fara til síðari deildar sem eru húsnæðislögin, taka það á undan frv. um raforkuver sem sýnir auðvitað að ráðherra iðnaðarmála leggur lítið upp úr því að mál gangi hér fyrir í þeirri röð sem þýðing þeirra segir til um. Síðan er látið í veðri vaka af þessum krötum að við sjálfstæðismenn sýnum ósanngirni þegar við förum fram á það að frv. um raforkuver fái eðlilega málsmeðferð í deildinni. Ég vil biðja hæstv. forseta að bregðast við af kurteisi, bregðast við af sanngirni og hefja þegar í stað þessa umræðu eins og gengið var frá í gærkvöldi, eins og ég skildi orð forseta, að við færum fram á það að umræður héldu áfram en mundum fallast á að málið yrði tekið fyrir í nefndinni. Auðvitað er hægt að hafa það þannig, herra forseti, að maður þurfi að þráspyrja og þaulspyrja um hvert einasta smáatriði þegar menn ræðast við þannig að allt sé klárt og kvitt, eins og smákrakkar sem eru óvön því að standa í erfiðum samningum en læra þó fljótt að treysta hvert öðru og reyna ekki að fara á bak við og reyna ekki að pota þegar ekki á að pota.