Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég er ánægður yfir því að hæstv. dómsmrh. skuli hafa lagt þetta frv. hér fram til sýningar og umfjöllunar, en því er ekki að neita að mér finnst frv. vera á þann veg að það nái ekki þeim tilgangi sem ég a.m.k. vonaðist til að löggjöf sem yrði sett um þetta efni gerði. Nú er mér það ljóst, og hæstv. ráðherra tók það fram, að þetta væri rangt. Þetta er nefnd sem var sett á stofn 1988 ef ég man rétt en það má segja að á síðustu tveimur árum hafi gerst ýmsir hlutir í þjóðfélaginu sem eru að mörgu leyti nýir þó að menn hafi áður orðið gjaldþrota og allt það, en þó ekki í svo stórum stíl eins og hefur verið nú síðustu þrjú missirin eða svo.
    Ég var að vonast til þess og er að vonast til þess að löggjöf sem yrði sett í þessu efni mundi reyna að liðka til fyrir þessu fólki, minnka kostnaðinn í sambandi við þegar það kemst í greiðsluþrot og jafnvel er gengið að því, reynt sé að hafa áhrif á bankavaldið, að lengja lán hjá þeim sem gætu bjargað sér með því móti, en því miður, ef fólk lendir í vanskilum er það ekkert svo létt að fá skuldbreytingu sem hentar fólkinu til þess að hugsanlegt sé að það geti staðið í skilum. Og þetta er enn þá brýnna vegna þess að þjóðfélagið hefur verið þannig að það vaxtaokur og sú verðbólga sem hefur verið í þjóðfélaginu hefur raskað öllum útreikningum. Jafnvel þó að fyrir nokkrum árum hafi verið sýnt að þessi eða hinn hafi getað staðið við sínar skuldbindingar, þá hefur þróunin orðið þannig að allt hefur brugðist, og ég veit að hæstv. dómsmrh. þekkir þetta vel. Bæði höfum við rætt um það og ég veit að ýmsir hafa farið til hans og rætt um þetta.
    Á vegum G-samtakanna er komin upp ráðgjöf sem mér er kunnugt um að hefur gert mikið gagn en þau eru alveg fjárvana. Þau geta í raun og veru ekki sinnt þessu þó að þau geri það vegna þess að það opinbera hefur gengið allt of skammt í því að hjálpa þessu fólki eða hjálpa þessari skrifstofu og gera það mögulegt að þeir geti, í þeim tilvikum sem menn þurfa að fá lögfræðinga, keypt slíka aðstoð. En í mörgum tilvikum hefur þetta komið að gagni, mér er það ljóst, og ég veit um ýmsa því að ég hef vísað fólki á þessa skrifstofu. Fólk sem ég hef verið að vinna með hefur á síðustu vikum komið með ýmsar ábendingar eða jafnvel drög að frv. í þessa átt sem ég ætla ekki hér og nú að eyða tíma í að lesa upp heldur fá einhvern tíma, í sumar eða vor, hjá hæstv. dómsmrh. til að afhenda honum það og ræða þessi mál.
    Ég kem fyrst og fremst upp í þennan ræðustól til þess að mælast til þess að hæstv. dómsmrh. kanni það hvort ekki er hægt að veita einhverja aðstoð, jafnvel þótt ekki sé búið að setja löggjöf, hvort hann getur ekki beitt sér fyrir því að bankarnir taki öðruvísi á þessum málum ef það liggur fyrir að með því móti getum við bjargað því t.d. að menn haldi sínu húsnæði og G-samtökunum sé gert kleift að hafa sína skrifstofu áfram og hjálpa þessu fólki, styðja það eftir

megni og það hafi möguleika til að leita jafnvel til lögfræðinga sem hæstv. ráðherra mundi þá e.t.v. geta samið við. Það væri svona bráðabirgðaaðgerð og svo þarf að fara að athuga þetta frv. og breyta því í þá veru að þetta komi að sem mestu gagni fyrir þá sem ég vil segja að þjóðfélagið hafi orðið til að koma út á kaldan klaka.