Ferðamál
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Þessi umræða er á margan hátt endurtekning á því sem þegar hefur verið fjallað um í þessari hv. deild. Hér hafa ekki komið fram nein ný efnisleg rök og þar af leiðandi er ekki ástæða til að hafa hér mörg orð um. Ég vil hins vegar sérstaklega benda á það að meginröksemd flutningsmanns, hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, er sú að vegna þess að lögð hafi verið fram till. til þál. um ferðamálaáætlun sé þessi afgreiðsla hér óeðlileg. Þessu vil ég mótmæla þó ekki væri nema vegna þess að þar er gert ráð fyrir því að á næsta ári verði lögð fram lagafrv. á grundvelli þeirrar áætlunar. Það liggur að sjálfsögðu ekkert fyrir um það hvenær þau lagafrv. taka gildi. Það væri ekki þörf á að breyta mikið lögum á Alþingi ef þessi kenning ætti að verða algild, að vegna áformaðrar breytingar á einhverri löggjöf, einhvern tímann, ætti ekki að gera ráðstafanir á viðkomandi þingum. Þetta stenst náttúrlega, eins og við vitum, engan veginn og auðvitað er kunn sú vinnutilhögun hér að breyta sumum lögum á milli ára, jafnvel árlega eftir því sem tíminn krefur. Ég óska þess sannarlega að ferðamálaáætlunin og sú löggjöf sem kann af henni að spretta stuðli að betri og bættri þróun þessara mála. Og ekki skal standa á mér að stuðla að slíkum árangri. En það getur auðvitað ekki breytt afstöðu minni til þessa máls sem er til bóta í þessum málaflokki og byrjar þá að telja á þann veg þegar málið hefur fengið jákvæða niðurstöðu hér á Alþingi. Þetta er grundvallaratriði í málinu og mér þótti sérstök ástæða til að koma því hér á framfæri.