Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt langar mig til að vita hvort hæstv. félmrh. mun ekki verða viðstödd þessa umræðu áfram. --- Hér sé ég að hún er komin og mun því hefja mál mitt.
    Þróun húsnæðismála á Íslandi hefur ekki verið eins og best verður á kosið á undanförnum áratugum. Að hluta til má leita orsakanna í þeirri byggðaþróun sem orðið hefur. Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur á fáeinum áratugum flust frá byggðum víðs vegar um landið hingað á höfuðborgarsvæðið og þessi fjöldi þarf að sjálfsögðu þak yfir höfuðið. Hér er vitanlega um hóp að ræða sem hefur mismunandi þarfir en möguleikar á öflun húsnæðis hafa verið næsta fábreytilegir.
    Árið 1940 bjuggu um 40 þús. manns á höfuðborgarsvæðinu en um 80 þús. annars staðar á landinu. Hlutföllin voru 33% á móti 67%, um það bil. En árið 1987 voru samsvarandi tölur 140 þús. fyrir höfuðborgarsvæðið en innan við 110 þús. manns annars staðar á landinu sem samsvarar liðlega 60% á móti 40% og þá var mestur fjöldinn að sjálfsögðu á höfuðborgarsvæðinu.
    Í landi mikillar búseturöskunar og húsbygginga skiptir miklu máli að skynsamlega sé staðið að því að byggja íbúðarhúsnæði og á þann veg að allir eigi kost á góðu húsnæði við sitt hæfi, án þess að þurfa að eyða ævistarfinu í það eitt að tryggja sér slíkt sjálfsagt öryggi. Til eru ýmsar leiðir. Séreignastefnan, sem nánast hefur verið alls ráðandi lengst af á þessari öld með öllum sínum fylgikvillum. Í öðru lagi má nefna byggingarsamvinnufélög af ýmsum gerðum, svo sem búseturéttar- og húsnæðissamvinnufélög, með almennu kaupleigukerfi eða byggingu búseturéttar- og leiguíbúða á vegum ýmissa samtaka, og svo félagslegt íbúðakerfi með leigu- og eignaríbúðum.
    Kvennalistinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á það að mestu máli skipti að hver og einn eigi val um á hvern hátt hann tryggi sér þak yfir höfuðið og að félagslega íbúðakerfið sé sá hluti húsnæðiskerfisins sem nauðsynlegt sé að
leggja mikla rækt við. Því miður fer því fjarri að fólk hafi átt kost á slíku vali. Eftirspurn eftir íbúðum innan félagslega íbúðakerfisins í verkamannabústöðunum hefur ávallt verið margföld á við framboðið. T.d. má taka að á árinu 1987 bárust 730 umsóknir um íbúðir í verkamannabústöðum en aðeins 230 fengu úrlausn, það er innan við þriðjungur. Og tel ég þá ekki með alla þá sem e.t.v. hefðu viljað komast að innan félagslega íbúðakerfisins en ekki talið sig eiga neina möguleika og þar af leiðandi ekki sótt um. Um slíkt þekki ég raunar allmörg dæmi og geri ráð fyrir að aðrir þekki þau einnig.
    Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Húsnæðisstofnun árið 1988 kom fram að 6,6% bjuggu í félagslegri íbúð, eða verkamannabústöðum, þar af um 15% verkamanna og 10% þeirra sem taldir voru til afgreiðslu- og gæslufólks. Við vitum auðvitað ekki hver þessi tala væri ef verkamannabústaðakerfið í

þeirri mynd sem það var hefði annað þeirri eftirspurn sem hefur verið eftir félagslegum íbúðum. Nú munu um 8% allra íbúða í landinu vera félagslegar íbúðir.
    Fyrir tekjulágar stéttir skiptir verulegu máli að eiga völ á húsnæði á viðráðanlegu verði eða að leigja ekki dýrt og ég er ekki í nokkrum vafa um að konur í þeim stéttum sem hér voru nefndar eru yfirleitt mjög tekjulágar. Efling félagslega íbúðakerfisins er því bæði tímabær og þær breytingar sem nú eru gerðar á því sýnist mér yfirleitt mjög til bóta. Því er ekki að undra að um málið hefur náðst allvíðtæk samstaða. Samsetning nefndarinnar sem vann frv. og þau margvíslegu sjónarmið sem innan hennar komu fram hefur án efa haft sitt að segja um að svo varð, þar sem fulltrúar úr mörgum áttum tóku höndum saman um að leysa það brýna verkefni sem þeim var falið auk fulltrúa ýmissa stéttarfélaga og stjórnmálaflokka, hvaða skoðanir sem hafa má um fulltrúa þeirra að vísu. Auk þessara aðila var mikilsvert að þarna ættu sér talsmenn fulltrúar samtaka sveitarfélaga og hópsins Þak yfir höfuðið, sem ég mun hér upplýsa að gefnu tilefni að er samsettur úr mörgum áhuga- og hagsmunafélögum, svo sem Öryrkjabandalaginu, Þroskahjálp, Sjálfsbjörg, Samtökum aldraðra, Stúdentaráði, Bandalagi ísl. sérskólanema, Leigjendasamtökunum og Búseta. Ég tel af hinu góða að þessir aðilar komu nálægt gerð frv. og útkomuna eftir því lofa nokkuð góðu.
    Af einstökum þáttum frv. vil ég sérstaklega nefna þá áherslu á leiguhúsnæði sem er að finna og tengingu þess í félagslega íbúðakerfið. Einnig húsnæðisnefndir sveitarfélaganna sem leysa af hólmi stjórnir verkamannabústaða og húsaleigunefndir þar sem þær hafa starfað.
    Fram til þessa hefur um fáa kosti verið að ræða fyrir þá sem sækja um í félagslega íbúðakerfinu og ekki fá úrlausn aðra en þá að fara út á hinn svokallaða frjálsa leigumarkað því leiguíbúðir á félagslegum grunni hafa til skamms tíma verið allt of fáar. Eða þá að reyna að festa kaup á húsnæði en það hefur reynst býsna mörgum fjölskyldum með meðtaltekjur ofviða þótt fyrirvinnur hafi haft möguleika á því að leggja nótt við dag í vinnuánauð til þess að reyna að láta enda ná saman.
    Svo er það hitt sem er auðvitað hið allra versta í þessu máli og það er að eins og málum er nú háttað á landsbyggðinni víðast hvar þá hefur þetta kerfi, eins og það er upp byggt, orðið til þess að búa til raunverulega tvo þjóðfélagshópa á landsbyggðinni. Þjóðfélagshópinn sem er hinn útvaldi hópur sem kemst inn í þetta kerfi, fær aðgang að niðurgreiddu vöxtunum og tryggingu fyrir því að hver króna sem er lögð í húsnæðið í hinu félagslega kerfi fæst endurgreidd við sölu á húsnæði vegna þess að það er ríkisábyrgð, það er opinber ábyrgð á kaupum á þessu húsnæði. Víða úti á landi háttar hins vegar þannig til að erfitt er að selja húsnæði. Það er ekki eftirspurnarmarkaður. Það vantar hinn raunverulega almenna íbúðamarkað. Þá standa menn frammi fyrir því, þeir sem leggja fé í íbúðir á almennum markaði,

að geta átt það á hættu að vera búnir að binda fjármagn sitt, binda sparifé sitt í jafnvel óseljanlegum eignum og geta sig hvergi hrært. Svo getur maðurinn við hliðina hins vegar auðveldlega bara vísað á hið opinbera og sagt: Nú vil ég fara, nú vil ég losna og nú skuluð þið gera svo vel að leysa mig út, borga mér með fullri verðtryggingu það sem ég hef lagt í húsnæðið. Og viðkomandi maður stendur uppi með allt sitt á þurru.
    Og ekki nóg með þetta. Þetta verður síðan til þess að hinn litli íbúðamarkaður, sem þó er fyrir hendi á landsbyggðinni, verður sífellt þrengri. Vegna hinnar markvissu stefnu stjórnvalda sem miðar að því að auka vægi hins félagslega íbúðakerfis í landinu og þar með á landsbyggðinni verður hinn almenni íbúðamarkaður sífellt þrengri. Og það verður sífellt örðugra að eiga viðskipti á hinum almenna íbúðamarkaði þar sem svona háttar til. Nú er svo komið að úti á landi finnast ekki almennt dýrari hús en þau hús sem fást til kaups í gegnum hið félagslega íbúðakerfi sem þó er hugsað til þess að útvega því fólki húsnæði sem hefur lágar tekjur. Með öðrum orðum, fólki á landsbyggðinni með lágar tekjur er vísað inn í húsnæðiskerfið sem býður þeim dýrasta húsnæði sem völ er á í heimabyggðinni. Þetta gera menn í nafni
einhvers félagslegs réttlætis, einhverrar jafnaðarhugsjónar sem menn skreyta sig með á tyllidögum. Þetta á eitthvað skylt við eitthvert jafnrétti, einhverjar félagslegar aðstæður, einhverja félagshyggju --- svo ég veifi nú þessum orðaleppum sem úir og grúir af í þessu frv.
    Þetta á ekkert skylt við félagshyggju. Hér er bara um það að ræða að fólk er raunverulega neytt inn í þetta kerfi vegna þess að smám saman hefur þessi meðvitaða og markvissa stefnumótun stjórnvalda orðið til þess að drepa niður húsnæðiskerfið, hið almenna húsnæðiskerfi í landinu, húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni, og gerir það að verkum að fólk á raunverulega engra kosta völ. Fólki er vísað inn í þetta kerfi nauðugu viljugu og þetta hefur orðið til þess að letja ungt fólk, sem vill setjast að á landsbyggðinni, í því að eignast húsnæði í gegnum hið almenna húsnæðiskerfi vegna þeirrar áhættu sem ég hef verið að rekja.
    Ég er alveg sannfærður um að einmitt þetta ákvæði hefur orðið til þess að skapa þær óraunverulegu þarfir sem löggjafinn er síðan að rembast við að uppfylla með því að dæla inn í þetta kerfi stöðugt meira fé, án þess að virðast raunverulega gera sér grein fyrir því að sífellt er verið að búa til nýjar þarfir með þessu háttalagi. Menn eru að elta skottið á sér, hring eftir hring eftir hring og svo sér ekki fyrir nokkurn enda á þessu. Svo horfir maður upp á það nokkrum sinnum á ári að stjórnir þessara verkamannabústaða eru að auglýsa eftir kaupendum og fólk þyrpist inn í þetta kerfi, ekki vegna þess að þar fáist húsnæði á svo vægu og góðu verði, ekki vegna þess að fólk sé að horfa á þessa lágu vexti eða eitthvað rýmri vaxtakjör, heldur vegna þess að á landsbyggðinni er fólk með

þessu að reyna að standa þannig að málum að það geti tryggt það fjármagn sem það hefur lagt í sitt eigið húsnæði. Þetta er auðvitað alveg út í hött og hefur vakið mikla reiði víðast hvar á landsbyggðinni því við blasir á þessum minni stöðum að búið er að skipta íbúum þessara staða í tvo hópa, þá sem hafa allt sitt á þurru í gegnum hina opinberu forsjá og hina sem verða að standa og falla með þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum stað fyrir sig.
    Ég spyr: Er það í nafni einhvers sérstaks félagslegs réttlætis að valinn er úr hópur sem hið opinbera tryggir að fái allt sitt endurgreitt þegar viðkomandi telur sig þurfa að skipta um húsnæði eða skipta um íverustað? Hvað er það sem segir það, er það eitthvað í kennisetningu félagshyggjunnar sem segir að svo og svo stór hópur fólks á landsbyggðinni eigi að hafa allt sitt á þurru í þessum efnum? Er það skilgreint í þessum frumvarpstextum hverjir eigi að hafa sitt á þurru? Hver er eiginlega meiningin á bak við þetta? Og gerir hæstv. félmrh. sér grein fyrir því hvað hefur verið að gerast á undanförnum árum á íbúðamarkaðinum á landsbyggðinni, hvernig hann hefur verið að þrengjast sí og æ vegna vaxandi vægis hins félagslega íbúðakerfis í landinu? Það er í raun og veru ekki einkennilegt að fólk sé að sækjast eftir þessum íbúðum og það er raunverulega ekki einkennilegt að sveitarstjórnir sækist eftir þessu fjármagni inn í sín sveitarfélög þó ég búist við því og viti það að sveitarstjórnarmenn geri sér almennt grein fyrir þeirri svikamyllu sem hér er
komin af stað og erfitt er að sjá hvernig verður stöðvuð í einni svipan. Hún mun a.m.k. ekki verða stöðvuð með því frv., ef að lögum verður, sem hér er til umræðu í kvöld.
    Ég held, virðulegi forseti, að það væri ákaflega misráðið að þetta frv. yrði að lögum hér á hinu háa Alþingi vegna þess einfaldlega að þrátt fyrir að barið sé í einhverjar beyglurnar á þessu erfiða kerfi sem við höfum verið að byggja upp í kringum okkur, kannski í góðri trú, kannski í trú á að það væri til hagsbóta fyrir þá sem minnst mega sín í landinu, þá held ég að það væri ákaflega misráðið að þetta frv. verði að lögum, einfaldlega vegna þess að það yrði til þess að festa í sessi þessa kolómögulegu skipan sem að mínu mati er að verða slæmur fleinn í holdi landsbyggðarinnar. Það á ekkert skylt við hagsmuni landsbyggðarinnar að standa þannig að málum. Þess vegna væri það að mínu mati langeðlilegasta málsmeðferðin að þetta mál yrði geymt til betri tíma, það yrði skoðað betur, ekki síst í ljósi þess sem ég hef verið hér að benda á, og með þátttöku allra þeirra sem eiga að koma að slíku verki, þar á meðal þeirra stjórnmálaflokka sem sitja á hinu háa Alþingi. Þeir eiga auðvitað allir að fá að hafa hönd í bagga með undirbúningi svona viðurhlutamikils máls sem eðli málsins samkvæmt er bæði viðkvæmt mál, flókið mál og ákaflega kostnaðarsamt mál. Mál sem varðar auðvitað löggjafarvaldið í heild sinni og er eðlilegt að sé staðið þannig að því að það sé undirbúið sem best svo að um það megi takast sem bestar sættir.

    Virðulegi forseti. Um þetta mál hafa farið fram mjög ítarlegar umræður. Undir mjög margt af því sem hv. 17. þm. Reykv. sagði hér áðan væri ástæða til að taka með ítarlegum hætti. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til að orðlengja þessa umræðu frekar en ítreka að langbest færi á því að þetta frv. fengi að hvílast um stund. Tíminn sem í hönd fer yrði notaður til þess að undirbúa málið miklu betur, skoða öll þau álitamál sem uppi eru og síðast en ekki síst að reyna að átta sig á fjárhagslegu umfangi þessa verks, því það skortir algjörlega á það að gerð sé grein fyrir því hver kostnaðaráhrifin af þessu frv. verða. Það er bókstaflega viðurkennt hér í aths. að erfitt sé að meta kostnaðaráhrifin af frv. Það er að vísu sagt með almennum orðum að þetta muni ekki hafa áhrif á stöðu Byggingarsjóðs verkamanna eða ríkissjóðs en hins vegar viðurkennt í hinu orðinu að ekkert liggi fyrir um það hver hin kostnaðarlegu áhrif frv. í heild sinni séu.
    Þegar það er haft í huga að hér er um að ræða frv. um málaflokk sem kostar á þessu ári 5 milljarða kr. hvað varðar lánaútgjöld, þá er náttúrlega alveg út í hött að hægt sé að afgreiða svona frumvarpstexta þegar það er viðurkennt í aths. frv. að kostnaðaráhrifin liggi ekki fyrir, liggi einfaldlega ekki fyrir. Því til viðbótar liggur það líka fyrir að ætlunin er að taka sérstaklega á vaxtamuninum sem er nú annars vegar á lánunum sem Byggingarsjóður verkamanna hefur verið að taka og hins vegar útlánavöxtum sjóðsins. Þegar það liggur fyrir að ætlunin mun vera að sérstök sérfræðinganefnd fari ofan í þessi mál þá er það að rasa um ráð fram að fara að samþykkja þennan frumvarpstexta blindandi án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvaða stefna verður í framtíðinni varðandi vaxtamuninn á þeim lánum sem Byggingarsjóðurinn hefur verið að taka og þeim sem sjóðurinn hefur síðan verið að veita.
    Ég vek athygli á því, bara til þess að undirstrika hvað þessi vaxtamunur er orðinn mikill í dag, að vextir af teknum lánum Byggingarsjóðs verkamanna eru 7% á þessu ári en útlánsvextirnir 1%. Byggt á þessum forsendum þýðir þetta að vaxtaniðurgreiðsla á 4,2 millj. kr. láni úr Byggingarsjóði verkamanna er u.þ.b. 7,4 millj. kr. í heild sinni á núgildandi verðlagi á þeim 43 árum sem lánið nær til. Með öðrum orðum, á 4,2 millj. kr. láni er vaxtamunurinn einn 7,4 millj. kr. Þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir þessar háu tölur þá treystir hæstv. félmrh. sér til þess að leggja hér fram frv. sem er viðurkennt að ekki sé búið að reikna til enda kostnaðaráhrifin af.
    Í ljósi alls þessa er alveg óhjákvæmilegt að þetta mál bíði betri tíma, fái ítarlegri umfjöllun og menn vaði ekki út í það ævintýri að afgreiða mál af þessu tagi án þess að hafa hugmynd um hver kostnaðaráhrifin af því eru.