Greiðsla vaxta af ofgreiddum sköttum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Það vakti athygli mína að hann skuli viðurkenna að framkvæmd þessara laga sé ekki betri en raun ber vitni. Hann lýsti því vel að hugsanlega hafi mistök hafi átt sér stað sem ég veit að er satt. Spurningin í mínum huga er, þegar ég kemst að þessu í einu máli, hvað mörg svona mál hafi farið í gegn. Og hitt, hvað margir vita ekki um rétt sinn til þessara vaxta?
    Ég fagna því svo sannarlega að nú eigi að taka upp vélræna vinnslu á ógreiddum sköttum þannig að svona mistök geti ekki átt sér stað. Raunar er fáránlegt að þegar búið er til forrit til þess að reikna út skuli það ekki ná til allra og að svona mistök, eins og hér er rætt um, skuli vera í ríki sem vill hafa jafnræði á milli allra þegna sinna.
    Það sem ég tel að verði að gera, og það strax, er að fyrirbyggja að svona hlutir geti gerst. Ég þakka fjmrh. kærlega fyrir að ætla að taka á þessum málum og koma þeim í lag.