Táknmál heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur varðandi fyrsta atriðið sem hv. þm. nefndi. Auðvitað er það ekki þannig að fyrst eigi að rannsaka og svo eigi að viðurkenna. Málið verður rannsakað en þeirri rannsókn lýkur ekki, henni verður auðvitað haldið áfram. Það sem ég vildi segja var þetta: Rannsóknir eiga að fara fram, það er brýnt að þær fari fram. En það þarf jafnframt að fara rækilega yfir það hvernig unnt er að standa að viðurkenningu á táknmáli heyrnarlausra, bæði í orði og verki. Það var ekki sama rannsóknin sem ég var að tala þar um. Ég er ekki að nefna þetta til þess að drepa neinu á dreif heldur til þess að undirstrika hér tvö úrslitaatriði. Ég tel að viðurkenningarmálið varðandi íslenskt táknmál heyrnarlausra sé í raun og veru mál sem snýr ekki síst að stjórnvöldum meðan rannsóknir á táknmálinu sem slíku eru auðvitað verkefni sérfræðinga sem kunna sérstaklega með það að fara.
    Varðandi annað atriðið sem hv. þm. bætti svo við varðandi Heyrnleysingjaskólann sem slíkan, þá bendi ég á að hugmyndir þær sem ráðuneytið lagði fram til umræðu voru ekki úrslitaákvörðun af hálfu ráðuneytisins, eins og menn sjá. Við hlustum á þær ábendingar sem við fáum í þessu efni, m.a. varðandi stöðu þessa skóla. Stefnan var sú að helst ætti að vera alger blöndun í íslenska skólakerfinu, einnig að því er varðar heyrnarlausa. Þetta var stefna sem var viðurkennd af Alþingi, hefur verið framkvæmd m.a. af félmrn. og menntmrn. og var samþykkt með lögunum um málefni fatlaðra á sínum tíma.
    Reynslan sýnir hins vegar, m.a. eftir nokkrar athuganir sem gerðar hafa verið í þeim efnum, einnig hér á landi, að það gengur ekki að hefja grunnmenntun heyrnarlausra barna meðal heyrandi barna. Það liggur fyrir. Þess vegna verður hér auðvitað starfandi heyrnleysingjaskóli með einhverjum hætti á komandi árum. Hvort hann verður hluti af samskiptamiðstöðinni og þá hvernig eða hvort hann verður nákvæmlega á sama stað og hann er núna er raunar aukaatriði í mínum huga. Aðalatriðið er að menn átti sig á því að grunnurinn, upphafið verður að vera með sérstökum hætti en getur ekki verið inni í skólum við hefðbundnar aðstæður.
    Varðandi svo spurninguna um það hvort Heyrnleysingjaskólinn eða lögin um hann yrðu afnumin þá finnst mér það út af fyrir sig koma vel til greina að afnema þau lög en þá verða að koma önnur lagaákvæði í staðinn. Og miðað við þær umræður sem fram hafa farið um þetta mál og þessar umræður hér á hv. Alþingi, sem eru mér auðvitað mikil stoð í þessu efni, þá tel ég eðlilegt að lögin um Heyrnleysingjaskólann yrðu endurskoðuð eða sett yrðu inn í grunnskólalögin ákvæði um heyrnleysingjaskóla eða grunnmenntun heyrnarlausra. Það er mál sem við þurfum að hjálpast að við að taka afstöðu til. Ég teldi ekki rétt miðað við núverandi aðstæður að lögin um Heyrnleysingjaskólann yrðu strikuð út úr lagasafninu án annarra aðgerða jafnframt.