Framhaldsmenntun heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. sem tekið hafa til máls um þessi málefni. Það er ánægjulegt að þau skuli vera hér til umræðu og virðist vera nokkuð víðtæk samstaða um hvernig standa skuli að lausn þessara mála. Sérstaklega gleðilegt er að hæstv. ráðherra skuli hafa tekið sinnaskiptum vegna þess að þó að umræddir punktar sem ég las hér upp áðan hafi ekki verið endanlegar tillögur, þá voru þeir þó umræðupunktar sem lagðir voru fram. Það sérkennilega var hvað þeir gengu á svig við niðurstöður áfangaskýrslu sem vinnuhópur skilaði. En ekki ætla ég að deila um það.
    Ótvírætt er þó ákvæði í frv. til laga um grunnskóla, en hæstv. ráðherra hefur líka lýst því yfir að frá því verði fallið. Það er engum til minnkunar að skipta um skoðun eftir að hafa kynnt sér mál rækilega og því held ég að við getum fagnað þeirri niðurstöðu sem hér hefur fengist í dag. Ég er alveg hjartanlega sammála því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að það er ekki til nein ein heildarlausn í málefnum heyrnarlausra og menntun þeirra fremur en í málefnum annarra nemenda. Þar þarf alltaf að vera sveigjanleiki og mismunandi möguleikar fyrir hendi, en viðurkenna verður þó myndarlega þá sérstöðu sem heyrnarlausir búa við.
    Mig langar, þar sem ég sé að hæstv. ráðherra kveður sér hljóðs, að spyrja hann enn einu sinni og nú alveg beint: Ætlar hæstv. ráðherra sjálfur að standa að frv. eða tillögu um að íslenskt táknmál verði viðurkennt sem sérstakt, sjálfstætt mál og viðurkenna heyrnarlausa sem málminnihlutahóp?