Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill, áður en frekari þingskapaumræður halda áfram, benda á að hér stóð til að afgreiða út úr þinginu tillögur nokkurra hv. þm., svo og að taka til umræðu fjáraukalög sem ég held að tæplega sé nú ágreiningur um að beri að afgreiða. Ég vil biðja hv. þingmenn að leyfa að hér fari fram eðlileg þingstörf. Niðurstaða í máli hv. 3. þm. Vestf. liggur fyrir. Honum stendur til boða umræða utan dagskrár kl. 3.15 í dag. Betur getur forseti ekki gert, enda vil ég benda á að hæstv. forsrh. er alls ekki staddur hér í húsinu. Til hans verður auðvitað kallað til að umræða utan dagskrár megi fara fram. Ég vænti þess að hér sé frá öllu gengið svo að með sóma sé og bið nú hv. þingmenn að leyfa að haldið sé áfram þingstörfum og að leyft verði að afgreiða hér úr þinginu þau mál sem hlotið hafa fullnaðarafgreiðslu.